Fundargerð stjórnar #231 (fundargögn)

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2016, mánudaginn 23. maí kl. 13:15 var haldinn 231. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Úr stjórn sátu fundinn þau Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Kjartan Magnússon, Valdís Eyjólfsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson og að hluta til Áslaug Friðriksdóttir. Gestir fundarins undir einstökum liðum voru Ingvar Stefánsson framkvæmdastjóri fjármála, Bjarni Freyr Bjarnason aðstoðarmaður forstöðumanns fjármála, Bryndís María Leifsdóttir forstöðumaður Reikningshalds, Hólmfríður Sigurðardóttir umhverfisstjóri OR, Einar Gunnlaugsson auðlindastjóri OR, Guðrún Erla Jónsdóttir stefnustjóri OR, Víðir Ragnarsson, mannauðssérfræðingur hjá OR og Hafsteinn Már Einarsson frá PWC.

 

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason forstjóri OR.

 

Fundarritari var Íris Lind Sæmundsdóttir.

 

Þetta gerðist:

 

 1. Fundargerð SF 230 staðfest og undirrituð.

Klukkan 13:20 komu á fundinn Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, og Bjarni Freyr Bjarnason, aðstoðarmaður framkvæmdastjóra fjármála.

Klukkan 13:30 kom á fundinn Bryndís María Leifsdóttir, forstöðumaður Reikningshalds.

 1. Lagt var fram uppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins sem Ingvar, Bjarni Freyr og Bryndís María kynntu.

Umræður.

Uppgjörið var samþykkt og áritað af stjórn og forstjóra.

Klukkan 13:35 kom á fundinn Áslaug María Friðriksdóttir.

Áslaug María samþykkti uppgjörið fyrir sitt leyti og áritaði það.

 1. Ingvar Stefáns            son, framkvæmdastjóri fjármála lagði fram og kynnti upplýsingar um stöðu fjármála OR samstæðu.  Einnig voru lögð fram áhættuskýrsla, dags. 29. apríl  2016 og minnisblað um arðsemi blandaðra jarðvarmavirkjana, dags. 20. maí 2016.

Lögð fram svohljóðandi tillaga um lán frá EIB bankanum. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkir lántöku hjá Evrópska fjárfestinga­bank­anum (EIB) að fjárhæð EUR 70 milljónir (c.a. 10 milljarðar) og jafnframt heimild for­stjóra eða framkvæmdarstjóra fjármála til að undirrita öll skjöl sem þessi lántaka nær yfir. Lántakan er í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun og er háð samþykki og ábyrgð eigenda OR.

Umræður.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Klukkan 13:45 yfirgaf Bryndís María fundinn.

Að loknu hléi hélt Ingvar áfram að kynna stöðu fjármála. Að þeirri yfirferð lokinni kynntu Ingvar og Bjarni Freyr innleiðingu Beyond Budgeting aðferðarfræðinnar. 

Rætt um að hafa sérstaka fræðslu fyrir stjórn um aðferðarfræðina, t.d. á þemafundi.

Ingvar kynnti rekstraryfirlit og nýja framsetningu þess fyrir stjórn.

Klukkan 14:20 kom inn á fundinn Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri OR.

Klukkan 14:25 yfirgáfu Bjarni Freyr og Ingvar fundinn.

 1. Hólmfríður lagði fram og kynnti minnisblað, dags. 19. maí 2016, um stöðu umhverfismælikvarða. Einnig lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra Þróunar frá 17. maí 2016 um aðgerðir til að bæta stöðu auðlinda hjá samstæðu OR.

Umræður. Rætt sérstaklega um hættu á mengunarslysum á vatnsverndarsvæðum.

Klukkan 14:40 yfirgaf Hólmfríður fundinn og á sama tíma komu inn á fundinn Víðir Ragnarsson, mannauðssérfræðingur hjá OR og Hafsteinn Már Einarsson frá PWC.

 1. Víðir og Hafsteinn Már kynntu niðurstöður jafnlaunakönnunar.

Umræður.

Klukkan 14:55 yfirgáfu Víðir og Hafsteinn Már fundinn.

Klukkan 15:20 kom á fundinn Einar Gunnlaugsson, auðlindastjóri OR.

 1. Einar sagði frá þeirri gufuvinnslu sem á sér stað úr borholum sem eru innan þjóðlendu á Hellisheiði. Þá sagði  hann einnig frá drögum að rammaáætlun og hvernig þau snúa að samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur.

Klukkan 16:00 yfirgaf Einar fundinn.

 1. Lögð fram skýrslu samstarfshóps Reykjavíkurborgar um sjálfbæran Elliðaárdal, dags. 27. apríl 2016, og minnisblað Eiríks Hjálmarssonar upplýsingafulltrúa OR, dags. 17. maí 2016, um stöðu mála í Elliðaárdal, sem forstjóri kynnti.

Forstjóri greindi frá því að skoða þyrfti möguleika á nýtingu eigna OR á svæðinu sem tengjast sögu og kjarnastarfsemi OR. Kjartan og Gylfi bentu á að mögulegt væri að skoða samnýtingu með t.d. einhverju safna Reykjavíkurborgar á borð við Árbæjarsafn.

Umræður.

Stjórn óskar eftir að mögulegir kostir verði skoðaðir og greindir betur og stjórn upplýst um vinnuna þegar hún liggur fyrir.

Klukkan 16:30 yfirgaf Valdís fundinn og á sama tíma kom inn á hann Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri OR.

 1. Guðrún Erla Jónsdóttir sagði frá stefnuráði samstæðu og lagði til breytingar á starfs­áætlun stjórnar varðandi ársfjórðungslega þemafundi í tengslum við rýni og endur­skoðun viðeigandi stefna.

Klukkan 16:45 yfirgaf Guðrún Erla fundinn. Á sama tíma yfirgaf Brynhildur fundinn og tók Gylfi þá við fundarstjórn.

 1. Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu sína, dags. 19. maí 2016, um starfsemi á milli stjórnarfunda.  
 2.  

Rætt um arðsemi vatnsveitu og óskað eftir því að forstjóri fari á næstunni yfir stöðu allra miðla á stjórnarfundi.

 1. Önnur mál
 • Lögð fram svohljóðandi tillaga Kjartans Magnússonar og Áslaugar Friðriksdóttur:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur beinir því til Veitna að fegra umhverfi Vatnshólsins (vatnsgeymanna) við Háteigsveg og huga að öryggismálum þar. Vatnshóllinn nýtur vaxandi vinsælda og leggur fjöldi fólks leið sína upp á hann til að njóta útivistar og útsýnis, m.a. erlendir ferðamenn. Slys hafa orðið þegar fólk hefur vanmetið bratta hólsins og fallið eða runnið niður. Lagt er til að skoðaður verði sá kostur að smíðaðar verði tröppur upp hólinn að aftanverðu svo ásýnd hans breytist ekki, séð frá Háteigsvegi eða Vatnsholti. Jafnframt er lagt til að komið verði fyrir fræðsluskilti um vatnsveituna í Reykjavík og hlutverk Vatnshólsins í sögu hennar.

Stjórn óskar eftir að tekið verði saman minnisblað um málið áður en það verður afgreitt í stjórn.

Frestað.

 • Næsti fundur stjórnar verður haldinn 27. júní 2016 á Akranesi.

 

 

 

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 16:55.

 

Brynhildur Davíðsdóttir,

Áslaug Friðriksdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Valdís Eyjólfsdóttir,

Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon, Sigríður Rut Júlíusdóttir.