Fundargerð stjórnar #223

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

 

Ár 2015, mánudaginn 23. nóvember kl. 13:15 var haldinn 223. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Þátt tóku:  Haraldur Flosi Tryggvason, Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon, Brynhildur Davíðsdóttir, Áslaug M. Friðriksdóttir, Valdís Eyjólfsdóttir og Björn Bjarki Þorsteinsson.

 

Einnig sátu fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

 1. Fundargerðir SF 221 og SF 222 staðfestar og undirritaðar.

 

 1. Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála mætti til fundarins ásamt Bryndísi Maríu Leifsdóttur, Grétu Guðmundsdóttur og Bjarna Frey Bjarnasyni. Árshlutareikningur 3. ársfjórðungs lagður fram og kynntur. Reikningurinn er ekki kannaður af endurskoðendum, enda eru aðeins 6 mánaða uppgjör og ársreikningur könnuð og endurskoðuð. Reikningurinn borinn upp, samþykktur samhljóða og áritaður.

 

Ingvar Stefánsson lagði fram og kynnti stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar (Plansins).

 

Ingvar kynnti einnig breytingar á forsendum frá Reykjavíkurborg vegna fjárhagsáætlunargerðar. Stjórn samþykkir að gera breytingu á fjárhagsáætlun í samræmi við breyttar forsendur. Einnig samþykkt að halda símafund stjórnar til að samþykkja breytta áætlun.

 

 1. Ásgeir Westergren, forstöðumaður áhættustýringar lagði fram og kynnti tillögu að endurskoðaðri áhættustefnu Orkuveitu Reykjavíkur. Endurskoðuð áhættustefna samþykkt samhljóða.

 

 1. Sólrún Kristjánsdóttir, starfsmannastjóri lagði fram og kynnti ný undirritaða kjarasamninga Orkuveitu Reykjavíkur við Samiðn, Verkstjórasamband Íslands, VM félag vélstjóra og málmtæknimanna, vegna vélfræðinga annars vegar en málmtæknimanna hins vegar, Rafiðnaðarsamband Íslands og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.  Umræður. Samningarnir staðfestir, en áður höfðu þeir verið samþykktar rafrænt af stjórn. 

 

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga um breytingu á verðskrá veiðileyfa í Elliðaám fyrir árið 2016. Tillögunni fylgir greinargerð:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur staðfestir, með fyrirvara um samþykki Reykjavíkurborgar tillögu Stangveiðifélags Reykjavíkur (SVFR)um breytingar á verðskrá í Elliðaám fyrir árið 2016 og heimilar samningaviðræður við SVFR um framlengingu samnings um stangveiði í Elliðaám til ársloka 2018.

 

Stjórn samþykkir fyrir sitt leyti hækkun á gjaldskrá vegna ársins 2016 en telur rétt að ákvörðun um framlengingu samnings bíði niðurstaðna starfshóps um framtíð Elliðaárdals.

 

 

 

 1. Lagt fram kauptilboð í Hellisheiðarvirkjun. Umræður.

Stjórn samþykkir samhljóða að þakka fram komið tilboð, en felur stjórnarformanni að upplýsa tilboðsgjafa um að engin ákvörðun hefur verið tekin um sölu virkjana samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur.

 

 1. Lagt fram að nýju minnisblað frá 20. janúar 2015 um upplýsingagjöf.

Stjórn samþykkir að frá næstu áramótum verði drög að fundargerð stjórnar sendar fundarmönnum til rýni daginn eftir stjórnarfundi og þeim veittur 3 daga frestur til að koma athugasemdum á framfæri. Hafi ekki verið gerðar athugasemdir innan frests teljist fundargerð samþykkt. Fundargerð ásamt fundargögnum, sem ekki er trúnaður um, verði þá birt á vefsíðu Orkuveitu Reykjavíkur

 

Einnig samþykkt að fela forstjóra að útfæra upplýsingagjöf um arðsemi einstakra þátta starfseminnar verði aðgengilegar almenningi.

 

 1. Forstjóri kynnti stöðu endurmörkunar samstæðu OR.

 

 1. Staða umhverfismála. Tekið af dagskrá.

 

 1. Lagt fram minnisblað, dags. 23. nóvember 2015 um yfirferð á starfsreglur stjórnar OR, í samræmi við starfsáætlun 2015. Frestað. Formanni falið að gera tillögu að úrvinnslu.

 

 1. Lögð fram skýrsla um framfylgd eigendastefnu, dags. 19. nóvember 2015. Formaður upplýsti að skýrslan verði lögð fram á eigendafundi þann 26. nóvember nk.

 

 1. Lagðar fram athugasemdir við minnisblað innri endurskoðanda um lokaskoðun úttektarskýrslu, dags. 6. nóvember 2015.

 

 1. Rætt um áhættu Orkuveitu Reykjavíkur vegna stöðu á álmörkuðum.

 

 1. Lagt fram minnisblað um stöðu Orkuveitu Reykjavíkur m.t.t. krafna staðals um samfélagsábyrgð, dags. 17. nóvember 2015.

 

 1. Lagt fram bréf Ástráðar Haraldssonar dags. 11. nóvember 2015 varðandi hús og önnur mannvirki að Elliðavatnsblettum í Reykjavík.

 

 1. Lagt fram minnisblað starfsmannastjóra um starfsnám, dags. 23. nóvember 2015.

 

 1. Lögð fram skýrsla forstjóra um starfsemina milli stjórnarfunda, dags. 23. nóvember 2015. Umræður.

 

 1. Önnur mál:

 

 • Lagt fram svar Veitna ohf. við fyrirspurn Valdísar Eyjólfsdóttur, sem lögð var fram á SF 221, um rafmagnsleysi á Akranesi þann 22.október 2015.
 • Lagt fram svar framkvæmdastjóra Þjónustu við fyrirspurn Kjartans Magnússonar, sem lögð var fram á SF 222, um hlutfallsskiptingu heitavatnsreikninga.
 • Kjartan Magnússon óskar bókað:

Orkuveitan á að leggja sig fram um að koma til móts við óskir og þarfir viðskiptavina sinna. Við teljum því rétt að viðskiptavinum Orkuveitunnar verði áfram gert kleift að skipta reikningi vegna orkukaupa um einn mæli enda tryggt að allir greiðendur verði að fullu upplýstir um slíkt fyrirkomulag.

 • Ákveðið að desemberfundur stjórnar verði haldinn 14. desember nk. kl. 15:00.
 • Kjartan Magnússon Áslaug Friðriksdóttir lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:

Óskað er eftir upplýsingum um ferð stjórnar Orkuveitunnar og helstu stjórnenda til Kaupmannahafnar 27. – 29. september sl. Upphaflega var áætlað að stjórnir OR og dótturfélaga færu í ferðina ásamt helstu stjórnendum þessara félaga í því skyni að eiga nauðsynlegan stefnumótunarfund. Þremur dögum fyrir brottför var hins vegar ákveðið að gera þær breytingar á fyrirkomulagi ferðarinnar að í hana færu einungis stjórnarmenn móðurfélags ásamt helstu stjórnendum þess og ráðgjöfum. Óskað er eftir upplýsingum um allan kostnað við ferðina, þ.á.m. fjölda áætlaðra þátttakenda í upphafi sem og endanlegra og hvort hlotist hafi kostnaður vegna þeirra þátttakenda sem hættu við þátttöku nokkrum dögum fyrir brottför. Óskað eftir því að öll gögn, sem lögð voru fram í ferðinni eða eru afrakstur vinnu úr henni, verði jafnframt lögð fram í stjórn Orkuveitunnar ásamt fundargerðum ef um þær er að ræða. Þá er óskað eftir rökstuðningi fyrir því af hverju nauðsynlegt þótti að halda umræddan fund erlendis.

 • Stjórnarformaður lagði fram eftirfarandi tillögu:

Í tilefni opinberrar umfjöllunar um tillögu að kerfisáætlun Landsnets, þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í tengslum við framfylgd kerfisáætlunarinnar og vegna eignarhalds Orkuveitu Reykjavíkur á hlut í Landsneti óskar stjórn eftir kynningu á tillögunni.

Samþykkt.

 

 

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 17:00.

 

Haraldur Flosi Tryggvason,

Áslaug M. Friðriksdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir,

Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon, Valdís Eyjólfsdóttir.

Fundargerð: