Fundargerð stjórnar #215

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2015, mánudaginn 27. apríl kl. 9:00 var haldinn 215. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Fundinn sátu:  Haraldur Flosi Tryggvason, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Valdís Eyjólfsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir.

Einnig sátu fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð SF 214 staðfest og undirrituð.

2.      Kristrún Helga Ingólfsdóttir, endurskoðandi KPMG og Rannveig Tanya Kristinsdóttir, forstöðumaður reikningshalds OR kynntu ársreikning móðurfélagsins Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2014. Umræður. Reikningurinn lagður fram, samþykktur og áritaður.

3.      Fjármál

·         Ingvar Stefánsson, lagði fram og kynnti ásamt Sólveigu Gunnarsdóttur og Gísla Birni Björnssyni, fjárhagsyfirlit 2014 og áhættuskýrslu, dags. 31.3. 2015.

·         Lögð fram og kynnt svohljóðandi tillaga um skuldabréfaútgáfu. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkir heimild til skuldabréfaútgáfu fyrir allt að fjórum og hálfum milljarði króna í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun.

Umræður. Tillagan samþykkt með 4 atkvæðum. Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir sitja hjá. 

·      Lögð fram og kynnt greinargerð úrbótahóps vegna brota á mörkum hluta- og skuldabréfaáhættu, dags. 20. apríl 2015. Úrbótahópi falið að útfæra tillögur að aðgerðum og vakta hluta- og skuldabréfaáhættu sérstaklega.

4.      Lögð fram svohljóðandi tillaga starfskjaranefndar um þóknun nefndarmanna. Tillögunni fylgir greinargerð:

Starfskjaranefnd Orkuveitu Reykjavíkur leggur til við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að eftirfarandi tillaga verði samþykkt:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur leggur til við aðalfund að laun til nefndarmanna í starfskjaranefnd verði fyrir árið 2014 fyrir formennsku 495 þúsund en öðrum nefndarmönnum verði greiddar 330 þúsund kr. 

Jafnframt samþykkt að frá og með aðalfundi verði heimilt að greiða fyrirfram vegna ársins 2015 kr. 39.028 á fund, og tvöföld sú fjárhæð fyrir formann.

Samþykkt samhljóða.

5.      Trúnaðaryfirlýsingar stjórnarmanna lagðar fram og undirritaðar.

6.      Fyrirkomulag innheimtumála OR, fyrirspurn af SF214.

Frestað.

7.      Forstjóri kynnti umhverfismál virkjanasvæða.

Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir óska bókað:

Við þökkum fyrir fróðlega kynningu á umhverfismálum virkjanasvæða Orkuveitunnar og fögnum þeim árangri sem náðst hefur með rekstri lofthreinsistöðvar Hellisheiðarvirkjunar. Enn skal minnt á tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá september 2013 og júní 2014 um að bæta vöktun á styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti í eystri hverfum borgarinnar með uppsetningu tveggja síritandi loftgæðamælistöðva, annars vegar í Breiðholti en hins vegar í Grafarholti-Úlfarsárdal.

Samkvæmt tillögunum skal birta loftgæðaupplýsingar á rauntímagrundvelli á aðgengilegan og skiljanlegan hátt og tryggja þannig að almenningur sé ætíð upplýstur um loftgæði á áhrifasvæði Hellisheiðavirkjunar, hvort sem um er að ræða almennar upplýsingar fyrir íbúa, viðkvæma hópa eða þá sem stunda útivist á svæðinu. Á tímabilinu hafa fræðimenn tjáð sig um umrædda brennisteinsmengun og haldið fram þeirri skoðun að æskilegt sé að auka loftgæðamælingar í tengslum við hana.

8.      Forstjóri kynnti rekstur dótturfélaga.

9.      Forstjóri lagði fram skýrslu um starfsemina á milli stjórnarfunda.

10.  Önnur mál.

·         Rætt um trúnaðarskyldu stjórnarmanna á stjórnarfundum.

·         Rætt um veitingar á stjórnarfundum og hvort að um skattskyld hlunnindi sé að ræða. Vísað til forstjóra að láta kanna það.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 11:30.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Brynhildur Davíðsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Gylfi Magnússon,

Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir, Valdís Eyjólfsdóttir.