Fundargerð stjórnar #207

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2014, mánudaginn 29. september kl. 14:30 var haldinn 207. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Fundinn sátu:  Haraldur Flosi Tryggvason, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir, Kjartan Magnússon, Valdís Eyjólfsdóttir og Björn Bjarki Þorsteinsson.

Einnig sátu fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Í samræmi við starfsreglur stjórnar undirritaði Gylfi Magnússon trúnaðaryfirlýsingu (VLP-130) á fundinum.

2.      Fundargerð 206. stjórnarfundar lögð fram og undirrituð.

3.      Ingvar Stefánsson kynnti tillögu um heimild til að vinna að undirbúningi stofnunar eigin tryggingafélags og áhættugreiningar í því sambandi.

Samþykkt.

4.      Ingvar Stefánsson kynnti stöðu fjármála og breytingar á gjaldeyrisáhættu. Áhættuskýrsla, dags. 1. september 2014, lögð fram og kynnt.

5.      Lögð fram tillaga að svari við erindi innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar, sem frestað var á fundi 202.

Samþykkt.

6.      Ingvar Stefánsson og Bjarni Freyr Bjarnason, forstöðumaður Hagmála kynntu fjárhagsáætlun 2015 og 5 ára áætlun. Umræður. Afgreiðslu frestað til símafundar þann 10. október 2014.

7.      Hólmfríður Sigurðardóttir umhverfisstjóri mætti til fundarins og gerði grein fyrir stöðu umhverfismælikvarða, dags. 25. 9. 2014. Einnig lagðar fram upplýsingar um stöðu mælinga á brennisteinsvetni. Umræður.

8.      Tillaga KM og ÁF frá 23. júní tekin á dagskrá. Umsagnir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 28. ágúst 2014 og HES dags. 19. september 2014 lagðar fram. Stjórn samþykkir að leita eftir rökstuðningi fræðimanna fyrir þörf á frekari mælingum á brennisteinsvetni og tillögum um staðsetningu mæla.

9.      Jafnlaunakönnun+Iðnir. Frestað.

10.  Kynning á öryggismenningu. Frestað.

11.  Svar stjórnar ON vegna trúnaðar á framleiðsluupplýsingum lagt fram.

12.  Kynning á innri endurskoðun. Frestað.

13.  Skýrsla forstjóra lögð fram.

·         Önnur mál.

·         Vinnudagur stjórnar í október.  Frestað.

·         Formaður upplýsti að hann hafi óskað eftir því við innri endurskoðanda að gerð yrði úttekt á gerð kostnaðaráætlunar vegna lagningar Hverahlíðalagnar.

·         Fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um kostnað vegna fyrirhugaðrar gufulagnar frá jarðhitasvæðinu í Hverahlíð að Hellisheiðarvirkjun. Þar komi m.a. fram upplýsingar um þær breytingar sem orðið hafa á kostnaðaráætlunum verkefnisins og skýringar á þeim.

·         Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Hellisheiði er mikilvægt útivistarsvæði sem nýtur sívaxandi vinsælda. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að efnt verði til fundar með útivistarfélögum þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir vegna gufulagnar frá jarðhitasvæðinu í Hverahlíð að Hellisheiðarvirkjun verði kynntar og tekið við ábendingum í því skyni að tryggja að lögnin hafi ekki takmarkandi áhrif á nýtingu svæðisins til framtíðar til útivistar fyrir almenning. Fundurinn verði auglýstur og öllum opinn en helstu útivistarfélögum boðið að senda fulltrúa.

·         Fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Óskað er eftir upplýsingum um arðsemi virkjana Orku náttúrunnar ohf., þ.e. Nesjavallavirkjunar, Hellisheiðarvirkjunar og Andakílsárvirkjunar.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 18:30.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Áslaug Friðriksdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir,

Gylfi Magnússon, Kjartan Magnússon,Valdís Eyjólfsdóttir.