Fundargerð stjórnar #203

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2014, mánudaginn 23. júní kl. 9:00 var haldinn 203. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Fundinn sátu stjórnarmennirnir:  Haraldur Flosi Tryggvason, Kjartan Magnússon, Gylfi Magnússon, Brynhildur Davíðsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir, Ragnar Frank Kristjánsson og Áslaug Friðriksdóttir. Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Einnig var á sama tíma boðaður stjórnarfundur OR-eigna, þar sem staðfest var hlutafjáraukning í samræmi við stofnefnahagsreikninga.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð 202. stjórnarfundar lögð fram og undirrituð.

2.      Rannveig Tanya Kristinsdóttir, forstöðumaður reikningshalds, mætti til fundarins ásamt Pétri Steini Guðmundssyni og Þorsteini Pétri Guðjónssyni frá Deloitte og kynntu hlutafjáraukningu Orkuveitu Reykjavíkur-eigna og Orku náttúrunnar í samræmi við stofnefnahagsreikninga félaganna. Hlutafjáraukningin var samþykkt og viðeigandi skjöl undirrituð.

Kjartan Magnússon mætti til fundarins kl. 9:15.

3.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, mætti til fundarins og kynnti áhættuskýrslu, dags. 1. 6. 2014 og fjárhagsyfirlit. Umræður.

Áslaug Friðriksdóttir mætti til fundarins kl. 10:00.

4.      Bjarni Bjarnason, forstjóri kynnti stöðu umhverfismælikvarða, dags. 20. júní 2014 og minnisblað um framleiðslu virkjana, dags. 20. júní 2014.

Kjartan Magnússon leggur fram eftirfarandi tillögu:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur beinir því til forstjóra að óska eftir því við stjórn Orku náttúrunnar (ON) að leynd verði aflétt af framlögðu yfirliti um framleiðslu virkjana fyrirtækisins frá maí 2013 – maí 2014.

Afgreiðslu tillögunnar frestað og þess óskað að forstjóri afli rökstuðnings fyrir því að trúnaður ríki um efni minnisblaðsins.

5.      Lagðar fram svohljóðandi tillögur til aðalfundar um þóknun starfskjaranefndar og endurskoðunarnefndar:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur leggur til við aðalfund að laun til nefndarmanna í starfskjaranefnd verði fyrir árið 2013 fyrir formennsku 495 þúsund en öðrum nefndarmönnum verði greiddar 330 þúsund kr.  Greiðslur til varamanna verði kr. 31.500 á fund.

Jafnfram samþykkt að heimilt verði að greiða fyrirfram vegna ársins 2014 fyrir formennsku 495 þúsund en öðrum nefndarmönnum verði greiddar 330 þúsund kr.

Jafnframt leggur stjórn Orkuveitu Reykjavíkur til við aðalfund að samþykkt verði að greiða nefndarmönnum í endurskoðunarnefnd vegna ársins 2014 fram að aðalfundi fyrir formennsku 495.000,- en öðrum nefndarmönnum 330.000,- Greiðslur til varamanna verði 31.500,-kr. fyrir hvern fund.

Samþykkt samhljóða.

6.      Undirbúningur aðalfunda dótturfélaga. Lagðar fram tillögur forstjóra um skipan stjórna dótturfélaga.

Samþykkt með 4 atkvæðum. Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir sitja hjá.

Forstjóri kynnti tillögur um þóknun til stjórnarmanna í stjórnum dótturfélaga.

7.      Lagt fram minnisblað starfsmannastjóra, dags. 28. maí 2014. Eftirtaldir kjarasamningar lagðir fram til staðfestingar:

·         Orkuveitu Reykjavíkur og Kjarafélags viðskiptafræðing og hagfræðinga.

·         Orkuveitu Reykjavíkur og Verkfræðingafélags Íslands og kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands.

·         Orkuveitu Reykjavíkur og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Samþykkt samhljóða.

8.      Lögð fram svohljóðandi tillaga varðandi sumarhúsalóðir í landi Nesjavalla:

Í ljósi fram komins minnisblaðs um ríka umhverfis- og rekstrarhagsmuni Nesjavallavirkjunar af eignarhaldi á strandlengjunni fyrir landi Nesjavalla samþykkir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að draga til baka ákvörðun um sölu landsins, sem tekin var á SF 173 og ítrekuð á SF 183. Jafnframt er forstjóra falið að leita leiða til að ljúka nýtingu landsins fyrir sumarhús.

Samþykkt með 4 atkvæðum. Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir sitja hjá og óska bókað:

Við styðjum að fyrri samþykkt stjórnarinnar um sölu umrædds lands verði dregin til baka en teljum ekki rétt að ákvörðun verði tekin að svo stöddu um að ljúka nýtingu landsins fyrir sumarbústaði.

9.      Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu sína um starfsemina milli stjórnarfunda.

10.  Önnur mál.

Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir leggja fram svohljóðandi tillögu:

Útstreymi brennisteinsvetnis frá virkjunum Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu er stærsta umhverfismálið, sem fyrirtækið glímir nú við í rekstri sínum. Í því skyni að bæta vöktun á styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti samþykkir stjórn Orkuveitunnar að setja upp tvær síritandi loftgæðamælistöðvar til viðbótar þeim, sem nú þegar eru staðsettar við Norðlingaholt og á Grensásvegi. Önnur verði staðsett við austurenda byggðar í Breiðholti og hin við austurenda byggðar í Grafarholti-Úlfarsárdal. Birta skal á rauntímagrundvelli loftgæðaupplýsingar á aðgengilegan og skiljanlegan hátt og tryggja þannig að almenningur sé ætíð upplýstur um loftgæði á áhrifasvæði Hellisheiðarvirkjunar, hvort sem um er að ræða almennar upplýsingar fyrir íbúa , viðkvæma hópa eða þá, sem stunda útivist á svæðinu.

Tillögunni frestað og forstjóra falið að afla upplýsinga um það hvernig loftgæðamælingum verður best háttað.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 12:30.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Áslaug Friðriksdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon,

Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Ragnar Frank Kristjánsson.