Fundargerð stjórnar #201

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2014, föstudaginn 25. apríl kl. 11:00 var haldinn 201. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Kjartan Magnússon, Gylfi Magnússon, Sóley Tómasdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir og Ragnar Frank Kristjánsson.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð 200. stjórnarfundar lögð fram og undirrituð.

2.      Gísli Björn Björnsson, sérfræðingur í fjár- og áhættustýringu, gerði grein fyrir stöðu fjármögnunar OR og lagði fram áhættuskýrslu, dags. 31. 3. 2014.

3.      Gísli Björn Björnsson lagði fram og kynnti yfirlit yfir stöðu á álmörkuðum og þróun álverðs. Umræður.

4.      Hólmfríður Sigurðardóttir umhverfisstjóri, lagði fram og kynnti yfirlit yfir stöðu umhverfismælikvarða í mars og apríl, dags. 23. apríl 2014. Umræður.

Einnig rætt um lausnir varðandi förgun brennisteinsvetnis og þær rannsóknir sem unnið er að í því sambandi, þ. á m. SulFix og blástur um háf. Stjórn hvetur starfsmenn til að gæta varúðar í starfsemi fyrirtækisins eins og kveðið er á um í umhverfisstefnu.

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Hröð uppbygging jarðavarmavirkjana á Hellisheiði hefur haft mikil áhrif á umhverfi og loftgæði á stóru svæði. Nauðsynlegt er að hafa rík varúðarsjónarmið í huga og beita öllum færum leiðum til að draga úr brennisteinsmengun á svæðinu. Tilraunir sem nú eru í gangi og varða niðurdælingu brennisteinsvetnis eru góðra gjalda verðar en nauðsynlegt er að hraða vinnunni og leita annarra lausna á sama tíma þar sem óvissan um áhrif brennisteinsmengunar á lýðheilsu er óásættanleg fyrir almenning. Uppbygging útblástursháfs mun varla teljast varanleg lausn í anda sjálfbærrar þróunar en engu að síður er brýnt að farið verði í hana, leiði rannsóknir í ljós að slíkur háfur geti haft áhrif á lífsgæði á svæðinu til hins betra.

5.      Lagt fram erindi Waldorf skólans til OR, dags. 11. apríl 2014, varðandi áhrif brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun á umhverfi skólans. Forstjóra falið að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum.

6.      Lögð fram drög að erindi stjórnarformanns til eigendafundar, dags. 25. apríl 2014, um úrvinnslu skýrslu úttektarnefndar eigenda um Orkuveitu Reykjavíkur.

Samþykkt.

7.      Lögð fram svohljóðandi tillaga varðandi sölu fasteignar að Eyjasandi 9, Hellu. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn OR samþykkir að heimila forstjóra að selja fasteign að Eyjasand 9, Hellu (fastanúmer 219-5869) ásamt því að undirrita kaupsamning og afsal eignarinnar og önnur nauðsynleg skjöl í þessu sambandi.

Samþykkt samhljóða

8.      Innkaupayfirlit fyrir árið 2013 lagt fram.

9.      Skýrsla forstjóra til stjórnar um starfsemina milli stjórnarfunda lögð fram og rædd.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 13:00

Haraldur Flosi Tryggvason,

Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon,

Kjartan Magnússon, Ragnar Frank Kristjánsson, Sóley Tómasdóttir.