Fundargerð stjórnar #197

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2013, föstudaginn 13. desember kl. 14:00 var haldinn 197. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn í Stöðvarstjórahúsinu Elliðaárdal.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Kjartan Magnússon, Gylfi Magnússon, Sóley Tómasdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir og Ragnar Frank Kristjánsson.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerðir stjórnarfundar 195 og 196 lagðar fram og undirritaðar.

2.      Bjarni Snæbjörn Jónsson kom á fundinn og ræddi innleiðingu starfsreglna og undirbúning vinnufundar stjórnar um stjórnarhætti og verklag við stjórn samstæðu eftir næstu áramót.

3.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála gerði grein fyrir stöðu fjármögnunar OR.  Áhættuskýrsla, dags. 30.11.2013, lögð fram og kynnt. Einnig kynnt drög að uppfærðu lánshæfismati Moody´s og umboð vegna fjárstýringar undirrituð.

4.      Lagt fram og kynnt yfirlit um stöðu umhverfis- og auðlindamælikvarða, dags. 13. 12. 2013.

5.      Lagður fram til samþykktar kaupsamningur um sölu á hlutabréfum í HS-Veitna milli Ursusar I slhf. sem kaupanda og Reykjanesbæjar, Grindavíkurbæjar, Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs, Sveitarfélagsins Voga og Orkuveitu Reykjavíkur sem seljenda.

Samningurinn samþykktur fyrirvara um staðfestingu eigenda með 5 atkvæðum gegn 1 atkvæði Sóleyjar Tómasdóttur og forstjóra falið að undirrita nauðsynleg skjöl vegna sölunnar.

6.      Lögð fram svohljóðandi tillaga um skipun regluvarðar:

Stjórn samþykkir að Íris Lind Sæmundsdóttir, lögfræðingur, taki við starfi regluvarðar af Rannveigu Tönyu Kristinsdóttur. Einnig er lagt til að Elín Smáradóttir, lögfræðingur taki við af Brynju Kolbrúnu Pétursdóttir, sem staðgengill regluvarðar.

Samþykkt samhljóða.

7.      Lögð fram svohljóðandi tillaga um viðmið við skráningu á innherjalista:

Samkvæmt ákvæði 121. gr. laga nr. 108/2007 skal setja eftirfarandi aðila á innherjalista:

Með innherja er átt við:


1.  fruminnherja, þ.e. aðila sem hefur að jafnaði aðgang að innherjaupplýsingum vegna aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti eða vegna annarra starfa á vegum útgefanda fjármálagerninga,

2. tímabundinn innherja, þ.e. aðila sem telst ekki fruminnherji en býr yfir innherjaupplýsingum vegna eignaraðildar, starfs síns, stöðu eða skyldna, ...

Að auki skulu aðilar fjárhagslega tengdir aðilum skv. tl. 1 og 2 hér að ofan vera skráðir á innherjalista í samræmi við 128. gr. laga nr. 108/2007.

Samkvæmt ákvörðun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur skal regluvörður, til viðbótar við ofangreind lög, styðjast við eftirfarandi viðmið um skráningu aðila á innherjalista:

Á fruminnherjalista skulu að öllu jöfnu vera skráðir stjórnarmenn fyrirtækisins, varamenn þeirra, forstjóri og stjórnendur sem birtir eru í skipuriti, endurskoðendur fyrirtækisins, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar og borgarbókari Reykjavíkurborgar.

Einnig skulu aðrir starfsmenn fyrirtækisins sem hafa víðtækan aðgang að gögnum vera skráðir fruminnherjar, hér er t.d. átt við starfsmenn tölvudeilda, öryggisverði o.þ.h. Regluvörður metur þörf á skráningu slíkra aðila á innherjalista hverju sinni.

Á lista yfir tímabundna innherja skal að öllu jöfnu skrá fulltrúa eigenda og  ráðgjafa sem fá upplýsingar vegna starfa sinna sem gætu haft verðmyndandi áhrif á skuldabréf. Skráning þessara aðila á lista yfir tímabundna innherja fer fram þegar þeir fá aðgang að upplýsingunum.

Samþykkt samhljóða.

8.      Lagt fram minnisblað um vinnu vegna markaðssetningar nýs virkjunar- og sölufyrirtækis. Umræður.

9.      Forstjóri lagði fram og kynnti minnisblað sitt um starfsemi fyrirtækisins milli stjórnarfunda. Umræður.

10.  Önnur mál:

·          Formaður starfskjaranefndar rakti vinnu nefndarinnar varðandi endurskoðun launa forstjóra og innri endurskoðanda. Umræður. Stjórn felur starfskjaranefnd að móta stefnu um kjör stjórnarmanna í fyrirtækjum innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 16:00.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir,

Kjartan Magnússon, Ragnar Frank Kristjánsson, Sóley Tómasdóttir.