Fundargerð stjórnar #195

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2013, föstudaginn 15. nóvember kl. 9:00 var haldinn 195. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Kjartan Magnússon, Gylfi Magnússon, Sóley Tómasdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir og  Ragnar Frank Kristjánsson.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerðir stjórnarfundar 193 og 194 lagðar fram og undirritaðar.

2.      Auðunn Guðjónsson, endurskoðandi, Ingvar Stefánsson og Rannveig Tanya Kristinsdóttir mættu til fundarins og kynntu 9 mánaða uppgjör Orkuveitu Reykjavíkur.

Gylfi Magnússon gerði grein fyrir skýrslu endurskoðunarnefndar vegna uppgjörsins.

Reikningurinn borinn upp, samþykktur samhljóða og undirritaður.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur beinir þeim tilmælum til stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur að beina kaupum sínum á ráðgjafaþjónustu og annarri þjónustu en endurskoðun til annarra en kjörinna ytri endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis í samræmi við útboðslýsingu lið 1.2. í útboði Reykjavikurborgar á kaupum á endurskoðunarþjónustu.

3.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála gerði grein fyrir stöðu fjármögnunar OR.  Áhættuskýrsla, dags. 31.10.2013, lögð fram og kynnt, sem og stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar vegna 3. ársfjórðungs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga tillaga. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkir að heimila forstjóra eða framkvæmdastjóra fjármála að að semja við Landsbankann hf. um veltilánalínu í erlendum gjaldeyri samkvæmt meðfylgjandi greinargerð. Heimildin nær einnig til undirritunar allra skjala er ráðstafanir þessar kalla á.

Samþykkt samhljóða.

Lagt fram og undirritað umboð til framkvæmdastjóra fjármála og starfsmanns fjár- og áhættustýringar vegna samnings við Landsbankann um eignastýringu.

4.      Lagt fram yfirlit um stöðu umhverfismælikvarða, dags. 15. 11. 2013.

5.      Lögð fram svohljóðandi tillaga að stofnun dótturfélaga í samræmi við niðurstöðu eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur:

Vegna lagaákvæða um uppskiptingu raforkufyrirtækja, sem ganga í gildi 1. janúar 2014, felur stjórn forstjóra að stofna dótturfélög í samræmi við niðurstöðu eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. erindi nefndarinnar dags. 23. október 2013 og hjálagðar samþykktir fyrir félögin.

Þessi samþykkt er gerð með fyrirvara um staðfestingu eigendafundar, sbr. gr. 6.9 í Eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur.

Þá samþykkir stjórn að setja hverju dótturfélaganna eigendastefnu í samræmi við eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir 1. janúar 2014.

Samþykkt með 5 atkvæðum. Sóley Tómasdóttir situr hjá.

6.      Lögð fram tillaga að skipun stjórnamanna dótturfélaga.

Frestað.

7.      Lögð fram svohljóðandi tillaga um boðun reglulegs eigendafundar í nóvember:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur felur forstjóra að boða til reglubundins eigendafundar að höfðu samráði við eigendur.

Samþykkt samhljóða.

8.      Lagður fram og kynntur endurnýjaður samningur við Stangaveiðifélag Reykjavíkur.

Samþykkt samhljóða.

9.      Lögð fram svohljóðandi tillaga varðandi heimild til sölu húseigna að Eyjasandi 9 og Hvolsvegi 1. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn OR samþykkir að heimila forstjóra að setja Kyndistöð á Hvolsvelli og iðnaðarhúsnæði við Eyjasand 9, Hellu í söluferli.

Samþykkt samhljóða.

10.  Lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 1. nóvember 2013 vegna tillögu Kjartans Magnússonar um loftgæðamælistöð, sem frestað var á 193. fundi.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fagnar því að fyrirhugað sé að mæla styrk brennisteinsvetnis í efri byggðum Reykjavíkur.

11.  Innri endurskoðandi lagði fram erindi, dags. 12.11.2013 varðandi úrvinnslu stjórnar á ábendingum úr skýrslu innri endurskoðunar um skýrslu úttektarnefndar Orkuveitu Reykjavíkur. Lagðar fram tillögur stjórnarformanns, sem fram koma í erindinu og eru nánar útfærðar þar, svo breyttar:

·         Að rita bréf til eigenda þar sem ferlinu við úrvinnslu á ábendingunum sem fram komu í skýrslu úttektarnefndarinnar er lýst. Auk þess verði athygli eigenda vakin á ábendingum úttektarnefndarinnar sem undir eigendur falla.

·         Að fara yfir fyrirliggjandi tillögu að starfsreglum stjórnar með tilliti til þeirra ábendinga sem fram koma í skýrslu úttektarnefndarinnar.

·         Að fara yfir starfslýsingu forstjóra með tilliti til þeirra ábendinga sem fram koma í skýrslu úttektarnefndarinnar.

·         Að fara yfir stefnumótun fyrirtækisins með tilliti til þeirra ábendinga sem fram koma í skýrslu úttektarnefndarinnar og skilgreina fjárfestingarstefnu, arðgreiðslustefnu og tekjustefnu Orkuveitunnar. Einnig að skilgreina stefnu móðurfélagsins gagnvart dótturfélögum og reglur um skipan stjórna í þessi félög.

Samþykkt samhljóða.

12.  Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu forstjóra um starfsemina milli stjórnarfunda.

Umræður.

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við þrjú atriði í skýrslu forstjóra; breytt skipulag Ölfuss vegna frekari borana í Hverahlíð, framtíðarsýn fyrirtækisins varðandi nýtingu ólíkra svæða á Hellisheiði og fyrirhugaða sölu á hlut fyrirtækisins í HS Veitum. Öll málin hefðu átt að fá efnislega umræðu sem sérliðir á dagskrá fundarins og eftir atvikum á vettvangi eigenda.

Í skýrslunni er skýrt tekið fram að ekki standi til að fara í frekari boranir í Hverahlíð að svo stöddu, en framganga fyrirtækisins er þó til marks um að tillaga um slíkt verði lögð fyrir stjórn innan tíðar – og að jafnvel sé gert ráð fyrir viðbótarborunum fyrr en nýsamþykkt áætlun um tengingu Hverahlíðar við Hellisheiði gerir ráð fyrir. Auk þess er verið að fara fram á skipulag borhola á fjarsvæði vatnsverndar sem er ótækt. Orkuveitan ætti að ganga fremst í flokki varúðar- og verndarsjónarmiða þegar kemur að neysluvatni.

Framtíðarsýn fyrirtækisins varðandi nýtingu Hellisheiðar og fyrirhuguð ósk um breytingu á Rammaáætlun er einkar undarleg og í andstöðu við afstöðu borgarráðs sem á sínum tíma fagnaði flokkun virkjanakosta á Hellisheiðinni í núverandi Rammaáætlun. Tillaga um nýtingu mikilvægra og dýrmætra svæða eftir allt sem á undan er gengið er í hæsta máta ámælisvert auk þess sem áform um 405MW viðbótarraforkuframleiðslu á Hellisheiði er glapræði. Í ljósi þeirra vandamála sem bæst hafa við þegar þekktar áskoranir í jarðhitanýtingu á undanförnum misserum, væri réttast að setja alla jarðhitakosti á Hellisheiði í bið þar til lausnir hafa fundist og jafnvægi náðst á núverandi vinnslusvæði.

Að lokum er ekki hægt að fallast á sölu á hlut Orkuveitunnar í HS Veitum til Ursusar slhf, enda algert frumskilyrði að veitustarfsemi sé á forræði hins opinbera í velferðarsamfélagi. Eins er í hæsta máta óeðlilegt að meintir faglegir fulltrúar meirihluta borgarstjórnar hafni því að umfjöllun um þennan stórpólitíska gjörning fái til þess bæra umræðu á vettvangi eigenda, heldur afgreiði málið án efnislegrar umræðu.

13.  Önnur mál.

·         Brynhildur Davíðsdóttir og Haraldur Flosi Tryggvason óska eftir skýrslu um það hvaða vinna vegna markaðssetningar hins nýja fyrirtækis átti sér stað fram að kynningu á síðasta stjórnarfundi. Svo sem undirbúningsvinna, staðfærsla fyrirtækisins á markaði og vinna við nýtt nafn framleiðslu- og sölufyrirtækis. Einnig er óskað eftir yfirliti um kostnað vegna þeirrar vinnu, bæði innanhúss sem og aðkeyptri.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 13:00.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir,

Kjartan Magnússon, Ragnar Frank Kristjánsson, Sóley Tómasdóttir.