Fundargerð stjórnar #192

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2013, föstudaginn 20. september kl. 9:00 var haldinn 192. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Brynhildur Davíðsdóttir, Kjartan Magnússon, Gylfi Magnússon, Sóley Tómasdóttir og Jóhann Ársælsson.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð stjórnarfundar 191 lögð fram, undirrituð og staðfest.

2.      Fjárhagsáætlun 2014 og 5 ára áætlun lögð fram til samþykktar. Rætt um forsendur áætlunarinnar varðandi gengisvísitölu, sem koma frá Reykjavíkurborg. Orkuveita Reykjavíkur er hluti samstæðu Reykjavíkurborgar og áætlanir fyrirtækisins því hluti fjárhagsáætlunar borgarinnar, sbr. 1. mgr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Áætlunin borin upp og samþykkt með 4 atkvæðum. Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir sitja hjá.

3.      Ingvar Stefánsson framkvæmdastjóri fjármála gerði grein fyrir stöðu fjármögnunar OR og kynnti framlagaða áhættuskýrslu 30.8.2013. Umræður. Lagt fram og undirritað umboð vegna bankaviðskipta.

4.      Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga um starfsreglur stjórnar. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir eftirfarandi viðbót við grein 9.2. í starfsreglum stjórnar er varðar þagnar- og trúnaðarskyldu: Í þeim tilgangi að varðveita gögn stjórnar fá stjórnarmenn afhentar spjaldtölvur til afnota. Er stjórnarmönnum óheimilt að prenta út eða senda öðrum stjórnargögn, sem þeir fá aðgang að um spjaldtölvur, nema með sérstakri samþykkt stjórnar.

Frestað og forstjóra falið að kanna möguleika varðandi miðlun gagna til stjórnarmanna.

5.      Skúli Skúlason, framkvæmdastjóri Þjónustu OR kynnti árangursvog OR, lagði fram til samþykktar og kynnti tillögur að markmiðum og mælikvörðum varðandi áhættu, arðsemi, heildaránægju, opinber leyfi veitna og virkjana, Planið, rekstraröryggi, slysatíðni, starfsánægju og umfjöllun um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur í fjölmiðlum. Umræður.

Samþykkt samhljóða.

Einnig lagður fram til kynningar mælikvarði um stöðu auðlinda, sem stjórn óskaði eftir að bætt yrði við megin mælikvarða fyrirtækisins.

6.      Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur borist erindi Fly fishing in Iceland, dags. 15. september 2013, þar sem þess er óskað að fyrirtækið fái á leigu veiðirétt Orkuveitu Reykjavíkur í Þingvallavatni.

Samþykkt að auglýsa réttindin til leigu með þeim skilyrðum sem fram koma í meðfylgjandi greinargerð.

Samþykkt með 5 atkvæðum. Kjartan Magnússon situr hjá.

7.      Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga Kjartans Magnússonar, sem frestað var á 191. fundi:

Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Útstreymi brennisteinsvetnis frá virkjunum Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu er stærsta umhverfismálið, sem fyrirtækið glímir nú við í rekstri sínum. Í því skyni að bæta vöktun á styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti samþykkir stjórn Orkuveitunnar að setja upp síritandi loftgæðamælistöð við austurenda byggðarinnar í Grafarholti/Úlfarsárdal.

Einnig lagt fram minnisblað Hildigunnar H. Thorsteinsson, framkvæmdastjóra Þróunar, dags. 17. september 2013 varðandi málið.

Afgreiðslu frestað.

8.      Páll Erland, framkvæmdastjóri Virkjana og sölu, Ásdís Gíslason, markaðsstjóri OR og Kristján Schram frá Íslensku auglýsingastofunni kynntu vinnu við undirbúning tillögu að nafni á nýtt Virkjana- og sölufyrirtæki. Umræður.

Stjórn felur stjórnendum að vinna nánar að málinu og kynna frekari möguleika fyrir stjórn.

9.      Jóhannes Karl Sveinsson, hrl. kom á fundinn og kynnti minnisblað um sviðsmyndir varðandi orkusölusamninga, dags. 19. september 2013. Umræður.

Samþykkt með 5 atkvæðum að fela forstjóra að halda áfram með málið á þeim grundvelli sem þegar hefur verið markaður í formi verkefnafélags með aðkomu lífeyrissjóða. Sóley Tómasdóttir greiðir atkvæði á móti og óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna áréttar þá afstöðu sína að forsendur fyrir samningum við Norðurál um Helguvík séu löngu brostnar og best væri að slíta viðræðum og horfast í augu við þann veruleika sem allra fyrst.

10.  Lögð fram rýni HF Verðbréfa og Lex, dags. 19. september 2013, á samantekt KPMG frá október 2011 varðandi uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur.

11.  Önnur mál:

·         Lögð fram tillaga regluvarðar varðandi viðmið um skráningu aðila á innherjalista.

·         Lagt fram bréf endurskoðunarnefndar OR varðandi útboð ytri endurskoðunar, ódagsett.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 13:00.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Jóhann Ársælsson

 Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.