Fundargerð stjórnar #191

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2013, fimmtudaginn 12. september kl. 13:30 var haldinn 191. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Brynhildur Davíðsdóttir, Kjartan Magnússon, Gylfi Magnússon, Auður Hermannsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson og Hrönn Ríkharðsdóttir.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð stjórnarfundar 190 lögð fram, undirrituð og staðfest.

2.      Fjárhagsáætlun. Bjarni Bjarnason kynnti þróun tímaramma fjárhagsáætlunar Orkuveitu Reykjavíkur. Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála kynnti forsendur fjárhagsáætlunar 2014 og 5 ára áætlunar og fjárhagsáætlun móðurfélags árið 2014. Að því loknu kynntu framkvæmdastjórar áætlanir sinna sviða og helstu áherslur þeirra árið 2014. Hildigunnur Thorsteinsson kynnti áætlun Þróunar fyrir árið 2014 ásamt áætlun og útkomuspá ársins 20013. Páll Erland kynnti sömu áætlanir, útkomuspá og helstu áherslur Virkjana og sölu. Inga Dóra Hrólfsdóttir kynnti áætlanir, útkomuspá og heldur áherslur Veitna. Skúli Skúlason kynnti áætlanir, útkomuspá og helstu áherslur Þjónustu. Að lokum kynnti Ingvar Stefánsson áætlanir og útkomuspár vegna sameiginlegs kostnaðar og fjármálasviðs auk helstu áherslna fjármálasviðs.

Umræður.

Afgreiðslu fjárhagsáætlunar frestað til næsta fundar.

3.      Önnur mál

·         Lagt fram bréf Orkuveitu Reykjavíkur til Norðuráls Grundartanga, dags. 11. september 2013.

·         Kjartan Magnússon og Júlíus Vífill Ingvarsson lögðu fram svohljóðandi tillögu og fyrirspurnir:

Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Útstreymi brennisteinsvetnis frá virkjunum Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu er stærsta umhverfismálið, sem fyrirtækið glímir nú við í rekstri sínum. Í því skyni að bæta vöktun á styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti samþykkir stjórn Orkuveitunnar að setja upp síritandi loftgæðamælistöð við austurenda byggðarinnar í Grafarholti/Úlfarsárdal.

Frestað og forstjóra falið að afla upplýsinga um kostnað og mat á því hvort að mælir á þessum stað bæti upplýsingaöflun.

Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Hinn 22. marz sl. ákvað meirihluti stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að selja Orkuveituhúsið við Bæjarháls en gera um leið samning við kaupanda hússins um að leigja það til baka samkvæmt leigusamningi til tuttugu ára. Óskað er eftir upplýsingum hvort kaupandi hafi staðið við kauptilboðið.

Forstjóri svaraði því til að enn hafi ekki verið gengið frá kaupsamningi.

Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins

Hinn 21. júní ákvað meirihluti stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að taka tilboði í svonefnt Magma-skuldabréf, sem er í eigu fyrirtækisins. Samkvæmt tilboðinu ætlaði tilboðsgjafi að ganga frá fjármögnun kaupanna fyrir 30. ágúst sl. og inna útborgun af hendi. Óskað er eftir upplýsingum um hvort kaupandi hafi staðið við kauptilboðið.

Forstjóri svaraði því til að frestur hafi verið framlengdur um einn mánuð.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 15:30.

Brynhildur Davíðsdóttir,

Auður Hermannsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir,

Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon.