Fundargerð stjórnar #190

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2013, fimmtudaginn 29. ágúst kl. 13:00 var haldinn 190. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir og Ragnar Frank Kristjánsson.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð stjórnarfundar 189 lögð fram, undirrituð og staðfest.

2.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála OR, Rannveig Tanya Kristinsdóttir, forstöðumaður reikningshalds, Auðunn Guðjónsson og Guðný Helgadóttir, endurskoðendur KPMG, kynntu samandreginn árshlutareikning, 6 mánaða uppgjör. Reikningurinn borinn upp, samþykktur samhljóða og áritaður.

Einnig voru lagðar fram upplýsingar um frávik uppgjörs frá áætlun og skýrsla endurskoðunarnefndar OR, sem Gylfi Magnússon gerði grein fyrir.

3.      Ingvar Stefánsson kynnti stöðu fjármögnunar OR, lagði fram og kynnti stöðu aðgerðaráætlunar, Plansins, og áhættuskýrslu 31.7.2013. Umræður.

4.      Gjaldskrá vatnsveitu. Lögð fram svohljóðandi tillaga um gjaldskrá vatnsveitu. Tillögunni fylgir greinargerð og minnisblað:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að í gjaldskrá fyrir kalt vatn komi nýir liðir fyrir vatn sem afhent er í brunni, þar sem ekki er húsnæði fyrir hendi. Breytingin taki gildi 1. september 2013:

Fast gjald fyrir brunna, háð stærð mælis: Stærð mælis

Fast gjald fyrir brunna¹

Grunnur

15 mm

113,42

kr/dag

20 mm

114,05

kr/dag

25 mm

123,99

kr/dag

32 mm

129,37

kr/dag

40 mm

139,53

kr/dag

50 mm

152,95

kr/dag

80 mm

271,89

kr/dag

100 mm og stærri

281,78

kr/dag

 Samþykkt með 5 atkvæðum. Kjartan Magnússon situr hjá.

5.      Lagt fram samkomulag við Reykjavíkurborg um viðauka við samning um fráveitu varðandi fyrirkomulag innheimtu tengigjalda fráveitu, ásamt svohljóðandi tillögu. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir fyrir sitt leyti fyrirliggjandi viðauka (nr.2) við samning um sameiningu Fráveitu Reykjavíkur og  Orkuveitu Reykjavíkur, varðandi  innheimtu tengigjalda fráveitu í Reykjavík. Innheimt tengigjöld, sbr. 13. gr.laga nr. 9/2009, skulu vera 355.233,- kr. pr. lóð, miðað við vísitölu byggingarkostnaðar í júní 2013, 118,2 stig og breytast í samræmi við breytingar á vísitölunni.

Samþykkt með 3 atkvæðum Haraldar Flosa Tryggvasonar, Brynhildar Davíðsdóttur og Gylfa Magnússonar. Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir sitja hjá.

6.      Lagðir fram til samþykktar samningar við Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur um sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Hrafnabjargavirkjun hf.

Samþykkt með 5 atkvæðum gegn atkvæði Kjartans Magnússonar.  

7.      Lögð fram svohljóðandi tillaga varðandi útistandandi kröfur OR gagnvart Norðuráli vegna raforkusölusamninga. Einnig lagt fram minnisblað Landslaga um málið, dags. 26. ágúst 2013:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur felur forstjóra í samræmi við efni minnisblaðs Landslaga, dags. 26. ágúst 2013 að láta innheimta, eftir atvikum með aðstoð dómstóla, útistandandi kröfur á hendur Norðuráli vegna raforkusölusamninga fyrirtækjanna.

            Samþykkt samhljóða.

8.      Lögð fram svohljóðandi tillaga um tengingu Hverahlíðar við Hellisheiðarvirkjun. Tillögunni fylgir greinargerð:

Til að treysta framleiðslugetu Hellisheiðarvirkjunar felur stjórn Orkuveitu Reykjavíkur forstjóra að ráðast í tengingu virkjunarinnar við borholur í Hverahlíð, enda fáist til framkvæmdarinnar öll tilskilin leyfi og ýtarleg kostnaðaráætlun sýni fram á hagkvæmni framkvæmdarinnar.

Samþykkt með 5 atkvæðum, með fyrirvara um staðfestingu eigenda, sbr. gr. 6.3.6 í eigendastefnu. Sóley Tómasdóttir greiðir atkvæði gegn tillögunni og óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna getur ekki fallist á þá lausn sem hér er kynnt, enda stuðlar hún að áframhaldandi ágengri nýtingu á svæðinu og enn frekari tilraunastarfsemi til viðbótar við allt of hraðar framkvæmdir á undanförnum árum og áratugum. Betur færi á því að Orkuveita Reykjavíkur leitaði leiða til að draga úr raforkuframleiðslu og færðist þannig nær skynsamlegri nýtingu á svæðinu. 

9.      Lögð fram svohljóðandi tillaga um umboð og heimildir varðandi fjármálagerninga:

Með hliðsjón af ákvæðum laga, sameignarsamnings, eigendastefnu og aðgerðaráætlunar vegna fjárhagsvanda (Plansins) telur stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að ákvarðanir um lántöku og aðra fjármálagerninga til rekstrarþarfa fyrirtækisins, sem ekki þurfa ábyrgð eigenda, eru innan við 5% af höfuðstól á ári hverju og teljast ekki óvenjulegar, veigamiklar eða stefnumarkandi, skuli hljóta fullnaðarafgreiðslu í stjórn fyrirtækisins, enda sé framgangur Plansins í samræmi við áætlun.

Samþykkt samhljóða.

10.  Lögð fram svohljóðandi tillaga varðandi samstarf við Nissan og BL um hraðhleðslustöðvar. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að gengið verði til samninga við BL um tilraunaverkefni um uppsetningu og rekstur hraðhleðslustaura á grundvelli meðfylgjandi greinargerðar, enda útilokar samningurinn ekki samstarf við aðra. Verkefninu er ætlað að vera grundvöllur þekkingaröflunar Orkuveitu Reykjavíkur og þróunar á sviði rafvæðingar samgangna.

            Samþykkt samhljóða.

11.  Lagt fram og kynnt yfirlit umhverfisstjóra OR um stöðu umhverfismælikvarða í júní til ágúst 2013.

12.  Lögð fram og kynnt varaáætlun fyrir neysluvatn.

13.  Lagt fram minnisblað um áhrif fjárhagslegrar endurskipulagningar GR á fjárhagslega stöðu Orkuveitu Reykjavíkur, sem Sóley Tómasdóttir óskaði eftir á SF189.

14.  Ársskýrsla regluvarðar lögð fram.

15.  Forstjóri kynnti skýrslu sína um starfsemi fyrirtækisins milli stjórnarfunda.

16.  Önnur mál.

·         Næsti fundur ákveðinn 12. september 2013 kl 13:30.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 16:45.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir,

Kjartan Magnússon, Ragnar Frank Kristjánsson, Sóley Tómasdóttir.