Fundargerð stjórnar #189

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2013, föstudaginn 21. júní kl. 9:00 var haldinn 189. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir og Björn Bjarki Þorsteinsson.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð stjórnarfunda 187 og 188 lagðar fram, undirritaðar og staðfestar.

2.      Fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur.

·      Lögð fram svohljóðandi tillaga um framlengingu rekstrarlánalína, tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir, með fyrirvara um staðfestingu eigenda, að heimila forstjóra eða framkvæmdastjóra fjármála að ganga til samninga við íslenskar fjármálastofnanir um framlengingu á lánalínum að fjárhæð 8 milljörðum til ársloka 2016.

Heimildin nær einnig til þess að undirrita samninga og önnur nauðsynleg skjöl tengd þessum samningum.

Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, kynnti tillöguna. Umræður.

Samþykkt.

·      Lögð fram svohljóðandi tillaga um sölu á skuldabréfi Magma Energy Sweden AB. Tillögunni fylgir greinargerð og kauptilboð, dags. 20. júní 2013:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að taka tilboði B frá Landsbréfum, dags. 20. júní 2013, með fyrirvara um samþykki endanlegra skjala.

Ingvar Stefánsson og Hálfdan Gunnarsson kynntu tilboðið. Umræður.

Samþykkt með fyrirvara um samþykki eigenda með 5 atkvæðum. Kjartan Magnússon situr hjá.

·      Ingvar Stefánsson, Bjarni Freyr Bjarnason forstöðumaður Hagmála og Páll Erland, framkvæmdastjóri virkjana og sölu kynntu hugmyndir að fjármagnsskipan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur eftir væntanlega uppskiptingu félagsins og áætlun Virkjana og sölu til ársins 2024.

·      Lagt fram erindi til eigenda, dags. 21.6. 2013, um túlkun Orkuveitu Reykjavíkur um umboð og heimildir skv. lögum, sameignarsamningi, aðgerðaáætlun OR og eigenda og í eigendastefnu hvað fjármálagerninga varðar. Umræður. Afgreiðslu frestað.

3.      Lögð fram svohljóðandi tillaga um um ferli við undirbúning sölu Gagnaveitu Reykjavíkur:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að ferli við sölu Gagnaveitu Reykjavíkur verði þannig að á tímabilinu júní til september 2013 verði unnið að endurfjármögnun félagsins. Á tímabilinu ágúst til desember 2013 verði unnið að undirbúningi sölu og að söluferlið sjálft verði á tímabilinu janúar til mars 2014.

Samþykkt með 5 atkvæðum. Sóley Tómasdóttir greiðir atkvæði gegn tillögunni og óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna ítrekar andstöðu sína við sölu Gagnaveitu Reykjavíkur. Fjarskipti verða æ mikilvægari þáttur í lýðræðissamfélagi, þar sem gagnsæ og upplýst umræða byggir að stórum hluta á rafrænum gögnum. Gagnaveita er því orðin að slíkri grunnþjónustu að ekki er réttlætanlegt að hið opinbera fríi sig ábyrgð og feli einkaaðilum að annast hana.

Einnig lögð fram svohljóðandi tillaga um fjárhagslega endurskipulagningu Gagnaveitu Reykjavíkur í tengslum við áður samþykkt söluferli. Tillögunni fylgir greinargerð:

Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) samþykkir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) að breyta skuld GR við OR í hlutafé fyrir allt að 4 milljörðum. Heimildin er veitt með því skilyrði að mismunur hlutafjárbreytingar og skuldar við OR verði greiddur til OR og með fyrirvara um samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar.

Ingvar Stefánsson og Reynir Jónsson frá Deloitte kynntu tillöguna.

Sóley Tómasdóttir óskar eftir minnisblaði um áhrif tillögunnar á fjárhagslega stöðu Orkuveitu Reykjavíkur.

Samþykkt með 4 atkvæðum. Sóley Tómasdóttir og Kjartan Magnússon sitja hjá.

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Það kann vel að vera að þörfin fyrir endurfjármögnun Gagnaveitunnar sé til staðar og að hér sé um skynsamlegan gjörning að ræða. Fulltrúi Vinstri grænna situr þó hjá þar sem markmiðið virðist fyrst og fremst vera að auka söluhæfni fyrirtækisins en fulltrúinn er alfarið á móti sölunni eins og áður hefur komið fram.

4.      Lögð fram svohljóðandi tillaga um slit á REI. Tillögunni fylgir greinargerð:

Í ljósi þess að öll meginverkefni REI hafa verið seld, samþykkir stjórn að félagið verði lagt niður og undirbúningur slitameðferðar hafinn. Forstjóra OR er falið að tilkynna félaginu ákvörðun um slit þess.

Hálfdan Gunnarsson, framkvæmdastjóri REI, rakti stöðu verkefna félagsins og skýrði tillöguna. Umræður.

Samþykkt samhljóða.

5.      Hengillinn.

·      Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri lagði fram og kynnti vöktunar- og viðbragðsáætlun vegna umhverfismála á Hengilssvæðinu. Stjórn óskar eftir því að á hverjum stjórnarfundi verði gerð grein fyrir stöðu umhverfismælikvarða.

·      Framtíðarsýn um rekstur Hellisheiðarvirkjunar. Sveinbjörn Björnsson, ráðgjafi, mætti á fundinn, gerði grein fyrir sýn hans á jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu og svaraði spurningum stjórnarmanna um efnið.

Fjallað um jarðhitageymi og gufuöflun í Henglinum og niðurdæling jarðhitavatns og lögð fram samantekt um stöðu og valkosti varðandi gufuöflun fyrir Hellisheiðarvirkjun, dags. 21. júní 2013. Einnig lögð fram svör, dags. 21. júní 2013, við spurningum Kjartans Magnússonar, sem fram komu á upplýsingafundi stjórnar OR þann 11. júní 2013.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Undirritaður þakkar fyrir framlögð svör við spurningum um stöðu jarðhitamála á Hellisheiði m.t.t. forðafræði og niðurdælingar dags. 11. júní. Ekki verður hjá því komist að gera alvarlegar athugasemdir við það hvernig staðið hefur verið að upplýsingagjöf til stjórnar fyrirtækisins í þessu mikilvæga máli, sem varðar rekstrargrundvöll mestu fjárfestingar í sögu þess. Veturinn 2011-2012 óskaði undirritaður ítrekað eftir því að stjórnin fengi kynningu á forðafræði jarðhitasvæða fyrirtækisins en án árangurs. Á stjórnarfundi 16. október 2012 lagði undirritaður síðan fram formlega bókun með ósk um að stjórn fengi ýtarlega kynningu á forðafræði jarðhitasvæða fyrirtækisins og helstu álitaefnum þar að lútandi. Sjö mánuðir liðu þar til slík kynning fór loks fram, á stjórnarfundi 17. maí sl. Í ljósi síðustu atburða er algerlega óviðunandi að svo lengi hafi dregist að kynna stjórn uggvænlega sýn yfirstjórnar fyrirtækisins á stöðu jarðhitamála á Hellisheiði. Þær rannsóknir, sem liggja til grundvallar þeim yfirlýsingum sem forstjóri fyrirtækisins hefur gefið á undanförnum vikum var hins vegar kynnt á innanhússmálþingi fyrir starfsmenn Orkuveitunnar 7. maí sl.

·      Brennisteinsvetni. Forstjóri fjallaði um brennisteinsvetni frá jarðhitavirkjunum, brennisteinsvandann á Hellisheiði og mögulegar lausnir. Stjórn leggur áherslu á að skoðun á þeim möguleika að byggja útblástursháf við Hellisheiðarvirkjun verði sett í forgang og hraðað sem kostur er en aðrir möguleikar verði skoðaðir samhliða.

·      Svanbjörn Thoroddsen og Gunnar Tryggvason frá KPMG mættu á fundinn og kynntu stöðu mála varðandi undirbúning samninga um Hverahlíðarvirkjun og tillögur KPMG í því sambandi. Umræður.

·      Lagt fram minnisblað lögfræðings OR, dags. 13. júní 2013, um skuldbindingar OR í tengslum við orkuframleiðslu Hellisheiðarvirkjunar, sem óskað var eftir á upplýsingafundi stjórnar OR þann 11. júní sl.

6.      Hrafnabjargavirkjun, sala á hlut OR til Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur. Frestað.

7.      Ársskýrsla regluvarðar. Frestað.

8.      Tillaga að gjaldskrá vatnsveitu. Frestað.

9.      Stefna, markmið og mælikvarðar lagðir fram.

Formaður starfskjaranefndar lagði til að gerð yrði svohljóðandi breytingu á starfskjarastefnu: Úr 5. gr. falli orðin „og starfsmenn“. Greinin verði svohljóðandi:

„Ekki skal gera samninga við stjórnendur, sem fela í sér starfslokagreiðslur umfram skyldur þess samkvæmt lögum og kjarasamningum, nema með samþykki stjórnar“.

Samþykkt.

10.  Skýrsla forstjóra um starfsemina á milli stjórnarfunda lögð fram.

11.  Önnur mál.

·         Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að fela forstjóra að láta vinna varaáætlun vegna neysluvatns, ef til þess kæmi að núverandi vatnsból yrði fyrir mengun eða skemmdum af einhverjum toga.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 15:45.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir,

Kjartan Magnússon, Björn Bjarki Þorsteinsson, Sóley Tómasdóttir.