Fundargerð stjórnar #186

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2013, föstudaginn 19. apríl kl. 9:00 var haldinn 186. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Brynhildur Davíðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir og Ragnar Frank Kristjánsson.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

1.      Fundargerð SF 185 lögð fram, samþykkt og árituð.

 

2.      Lögð fram svohljóðandi tillaga að breytingu á gjaldskrá fráveitu. Tillögunni fylgir greinargerð:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að álögð fráveitugjöld skuli að hámarki nema 0,5% af fasteignamati viðkomandi eignar.

Samþykkt samhljóða.

 

3.      Lagðir fram til samþykktar samningar um sölu eignarhlutar í Hrafnabjargavirkjun til Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur og Þingeyjarsveitar.

Samþykkt með 5 atkvæðum. Kjartan Magnússon greiðir atkvæði á móti og óskar bókað:

Undirritaður ítrekar alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð meirihluta stjórnar Orkuveitunnar við sölu á ráðandi hlut hennar í Hrafnabjargavirkjun. Við slíka hlutabréfasölu er eðlilegt að standa þannig að málum að söluverð verði hámarkað i gagnsæju söluferli í stað þess að ganga beint til samninga við meðeigendur Orkuveitunnar í umræddu félagi eins og meirihlutinn hefur nú ákveðið. Þá telur undirritaður einnig eðlilegt að slík sölutillaga færi til umfjöllunar og afgreiðslu hjá eigendasveitarfélögum Orkuveitunnar enda um viðamikið mál að ræða, sem varðar almannaheill.

Vitað er að margir sérfræðingar Orkuveitunnar telja óráðlegt að meirihluti stjórnar hennar gefi frá sér möguleika á þátttöku í slíku verkefni og fækki þar með orkuöflunarkostum fyrirtækisins fyrir almennan markað til framtíðar. Á stjórnarfundi Hrafnabjargavirkjunar ehf. 18. júní sl. er t.d. bókað eftir Bjarna Bjarnasyni forstjóra Orkuveitunnar að hann hafi fullan hug á þessum virkjunarkosti, svo framarlega að vel takist til með umhverfismálin. OR hafi 423 MWe uppsett í jarðgufuvirkjunum, en sáralítið í vatnsafli. Slík virkjun yrði OR mikilvæg viðbót til að anna almenna raforkumarkaðnum hjá OR.  Á stjórnarfundi Hrafnabjargavirkjunar 25. september er aftur bókað um mikilvægi vatnsafls fyrir orkuöflun OR. Hér skal þó skýrlega tekið fram að undirritaður hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort umræddur virkjanakostur sé hagkvæmur eða viðunandi út frá umhverfissjónarmiðum enda á eftir að rannsaka þennan kost og meta til hlítar. Að öðru leyti er vísað til bókunar undirritaðs frá síðasta stjórnarfundi, 5. apríl.

Að gefnu tilefni minnir undirritaður á einróma samþykkt stjórnar Orkuveitunnar frá 15. ágúst 2008 en samkvæmt henni skal leggja allar fundargerðir stjórna þeirra félaga, þar sem OR á fulltrúa í stjórn, fyrir stjórn OR ,,eins fljótt og auðið er eftir stjórnarfundi hvers félags.“ Þegar fundargerðir stjórnar Hrafnabjargavirkjunar ehf. voru sendar stjórnarmönnum OR 5. apríl sl. eftir að undirritaður hafði óskað eftir því sérstaklega, voru sumar fundargerðanna orðnar rúmlega ársgamlar.

 

4.      Lagt fram svar innri endurskoðanda varðandi fyrirspurn um sölu eignarhluta REI í Enex-Kína og EnVent Holding, dags. 17. apríl 2013.

Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi Orkuveitu Reykjavíkur, kynnti niðurstöður. Umræður.

 

5.      Sólrún Kristjánsdóttir, starfsmannastjóri OR mætti á fundinn og kynnti niðurstöður varðandi jafnréttismál, kynjahlutfall stjórnenda og könnun varðandi launamun kynja. Hafsteinn M. Einarsson frá PWC kynnti niðurstöður vinnustaðagreiningar frá desember 2012.

 

6.      Bjarni Snæbjörn Jónsson mætti til fundarins og kynnti áætlun um stefnumörkun stjórnar í samræmi við ákvæði eigendastefnu. Ákveðið að fela ritara stjórnar að vinna áfram með fyrirliggjandi tillögu að starfsreglum með hliðsjón af eigendastefnu fyrir stefnumörkunardag stjórnar, sem haldinn verður í byrjun júní.

 

7.      Ingvar Stefánsson lagði fram og kynnti skýrslu fjár- og áhættustýringar fyrir árið 2012. Einnig lögð fram áhættuskýrsla, dags. 28. mars 2013.

 

Eiríkur Hjálmarsson tók við fundarritun kl. 11:40.

 

8.      Brynjar Stefánsson, forstöðumaður Sölu og markaðsmála, kom á fundinn kynnti niðurstöður Ánægjuvogar fyrir árið 2012.

 

9.      Forstjóri lagði fram skýrslur sínar um starfsemi milli stjórnarfunda.

Umræður.

Við umfjöllun um samskipti við tiltekinn aðila um vindorku, gerði formaður grein fyrir vanhæfi sínu og vék af fundi.

 

10.  Lagt fram til kynningar svar Gagnaveitu Reykjavíkur við ósk um upplýsingar frá 185. fundi.

Fundarritari gerði grein fyrir svarinu.

 

11.  Önnur mál:

·         Forstjóri lagði fram og kynnti minnisblað verkefnisstjóra H2S verkefna dags. 16. apríl um samanburð á kostnaði við hreinsun á brennisteinsvetni.

Umræður.

·         Lagt fram erindi varðandi málverk af fyrrverandi hitaveitustjóra af 184. fundi.

Umræður og málinu vísað til forstjóra.

·         Vatnspóstar.

Sóley Tómasdóttir vakti máls á ástandi vatnspósta og þjónustu við þá. Upplýst var á fundinum að málið væri í farvegi á milli OR og Reykjavíkurborgar. 

 

 
Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 12:50.

 

Haraldur Flosi Tryggvason,

Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir,

Kjartan Magnússon, Ragnar Frank Kristjánsson, Sóley Tómasdóttir.