Fundargerð stjórnar #185

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2013, föstudaginn 5. apríl kl. 9:00 var haldinn 185. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir og Ragnar Frank Kristjánsson.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð SF 184 lögð fram, samþykkt og árituð.

2.      Lögð fram skýrslan „Raforkuöflun fyrir almenna markaðinn með sérstöku tilliti til aðildar að Hrafnabjargavirkjun hf.“, dags. 19. mars 2013.

Einnig lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sem frestað var á SF178. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur heimilar forstjóra að ganga til samninga við meðeigendur OR í Hrafnabjargavirkjun hf. með það að markmiði að þeir eignist hlut Orkuveitunnar og að hún gangi þar með alfarið út úr félaginu. Endanlegt samkomulag þar um verði lagt fyrir stjórn OR til samþykktar.

Samþykkt með 5 atkvæðum. Kjartan Magnússon situr hjá og óskar bókað:

Rafmagnsöflun í þágu almennings er grundvallaratriði í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. Um helmingur af rafmagnssölu OR á almennan markað kemur nú frá Landsvirkjun, samkvæmt sérstökum samningum, hinn þýðingarmesti er svokallaður tólf ára samningur, sem rennur út í árslok 2016. Verði sá samningur endurnýjaður, má búast við verulegri verðhækkun á raforkunni samkvæmt yfirlýstri stefnu Landsvirkjunar. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að Orkuveitan leiti nýrra leiða til orkuöflunar í því skyni að tryggja almenningi á Stór-Reykjavíkursvæðinu hagstætt orkuverð til framtíðar. Í slíkri vinnu kemur sterklega til álita að Orkuveitan auki orkuvinnslu sína og dragi úr rafmagnskaupum frá Landsvirkjun.

Í skýrslu forstjóra um málið, sem lögð var fram á fundinum, kemur skýrt fram að Orkuveitan þurfi að auka orkuvinnslu sína og/eða halda áfram að kaupa raforku af þriðja aðila til að fullnægja umræddri þörf. Athyglisvert er að í skýrslunni er einnig nefndur sá kostur að Orkuveitan dragi sig í hlé af almenna markaðnum, a.m.k. sem nemur orkukaupum af Landsvirkjun og láti öðrum markaðinn eftir.

Orkuveitan byggir eigin rafmagnsvinnslu nánast alfarið á jarðgufuvirkjunum. Nýting jarðgufu er hins vegar ekki áhættulaus eins og komið hefur betur í ljós að undanförnu. Margvísleg rök hníga að því að vatnsaflsvirkjanir eða safn jarðgufuvirkjana og vatnsaflsvirkjana sé mun heppilegri kostur til að þjóna almennum markaði en jarðgufuvirkjanir einar og sér. Komist stjórn Orkuveitunnar að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið þurfi að auka orkuvinnslu sína eftir 2016, hlýtur að koma til álita, ekki síst út frá áhættusjónarmiðum, að slíkt verði gert með vatnsafli til að tryggja sveigjanleika í vinnslu.

Athugun málsins hefur leitt í ljós að mikil óvissa ríkir um hvernig Orkuveitan muni fullnægja raforkuþörf fyrir almennan markað eftir árið 2016. Ljóst er að vinna þarf ötullega að því á næstunni að skilgreina tiltæka kosti og taka ákvörðun með það að leiðarljósi að tryggja almenningi raforku á hagstæðu verði. Takist það ekki skapast hætta á að Orkuveitan þurfi að sæta afarkostum í raforkukaupum, sem gæti haft í för með sér verulega hækkun á raforkuverði til almennings.

Við slíkar aðstæður er óráðlegt að meirihluti stjórnar Orkuveitunnar gefi frá sér möguleika á þátttöku í slíku verkefni og fækki þar með orkuöflunarkostum fyrirtækisins til framtíðar.

Undirritaður gerir alvarlega athugasemd við fyrirhuguð vinnubrögð við sölu á ráðandi hlut Orkuveitunnar í Hrafnabjargavirkjun hf. Við sölu á slíkum hlut er eðlilegt að þannig sé staðið að málum að söluverð verði hámarkað í gagnsæju söluferli í stað þess að gengið verði beint til samninga við meðeigendur Orkuveitunnar í umræddu félagi.

3.      Brynhildur Davíðsdóttir, formaður starfskjaranefndar, lagði fram og kynnti tillögu að  starfsreglum nefndarinnar. Tillagan borin upp, samþykkt með 5 atkvæðum og undirrituð. Kjartan Magnússon situr hjá og óskar bókað:

Undirritaður telur að ekki þurfi að skipa sérstaka pólitíska nefnd til að fjalla um starfskjaramál fyrirtækisins og sérstaklega um kjör forstjóra og stjórnarmanna, með þeim kostnaði sem slíku fylgir.

Vakin er athygli á því að í drögum að starfsreglum starfskjaranefndar, sem lagðar voru fyrir síðasta stjórnarfund, segir í 3. grein um hæfis- og hæfniskörfur nefndarmanna að grundvallarviðmið sé að þeir  séu óháðir OR og að innan starfskjaranefndar skuli vera haldbær þekking á starfskjaramálum. Í nýjum drögum, sem voru lagðar fyrir fundinn í dag og nú hafa verið samþykkt, er ekki lengur að finna áðurnefnt ákvæði um óhæði, sem er óheppilegt. Einn nefndarmanna hefur unnið verkefni fyrir Orkuveituna og virðist ætlunin vera sú að hann vinni launuð verkefni fyrir nefndina á sama tíma og hann situr í henni. Undirritaður hefur efasemdir um að nefndarmaður, sem fjallar um starfskjör stjórnenda og leggur fram tillögur til stjórnar þar að lútandi, vinni um leið launuð verkefni í þágu fyrirtækisins og sé þar með háður því.

Einnig lögð fram verkefnistillaga um starfskjaraúttekt, dags. 15. mars 2013. Samþykkt með 5 atkvæðum. Kjartan Magnússon situr hjá.

4.      Lögð fram svohljóðandi tillaga varðandi undanþágu frá upplýsingalögum fyrir Gagnaveitu Reykjavíkur. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavík samþykkir að leggja til við eigendur  fyrirtækisins að þeir að óski eftir því að forsætisráðherra taki ákvörðun um að veita Gagnaveitu Reykjavíkur undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna, þar sem fyrirtækið starfar eingöngu á samkeppnismarkaði.

Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir leggja fram svohljóðandi tillögu:

                   Stjórn Orkuveitunnar samþykkir að áður en fyrirliggjandi tillaga verður afgreidd, verði stjórnarmenn fyrirtækisins upplýstir um hvaða upplýsingar um rekstur Gagnaveitu Reykjavíkur það eru, sem talið er mikilvægt að haldið verði leyndum fyrir almenningi.

Tillagan borin upp og felld. Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir greiddu atkvæði með tillögunni en aðrir stjórnarmenn greiddu atkvæði gegn henni.

Fyrri tillagan borin upp og samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2 atkvæðum Kjartans Magnússonar og Sóleyjar Tómasdóttur. Jafnframt samþykkt að óska eftir ítarlegri kynningu fyrir stjórn á þeim upplýsingum sem talið er að ekki skuli opinberaðar.

5.      Forstjóri kynnti stöðu og horfur varðandi nýtingu og förgun á jarðhitagastegundum frá rekstri jarðvarmavirkjana Orkuveitu Reykjavíkur.

6.      Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga Kjartans Magnússonar frá 183 stjórnarfundi:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur felur forstjóra að kanna möguleika á að nýta losunarefni frá Hellisheiðarvirkjun til frekari framleiðslu með það að markmiði að draga stórlega úr mengun frá virkjuninni, auka endurvinnslu og skapa verðmæti. T.a.m. verði metnir kostir þess að nýta koltvísýring frá virkjuninni til framleiðslu á eldsneyti.

Afgreiðslu tillögunnar frestað og óskað nánari upplýsinga um málið, s.s. um samanburð kostnaðar og ávinnings af mismunandi leiðum og um umhverfismál.

7.      Ánægjuvogin 2012.

Tekið af dagskrá.

8.      Lögð fram skýrsla forstjóra.

9.      Önnur mál.

·         Lagðir fram nýlegir héraðsdómar um vatnsgjöld.

·         Lagt fram erindi um málverk af fyrrverandi hitaveitustjóra.

Tekið af dagskrá.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 11:00

Haraldur Flosi Tryggvason,

Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir,

Kjartan Magnússon, Ragnar Frank Kristjánsson, Sóley Tómasdóttir.