Fundargerð stjórnar #183

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2013, föstudaginn 15. febrúar kl. 9:00 var haldinn 183. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Brynhildur Davíðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir og Ragnar Frank Kristjánsson.

Einnig sat fundinn Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð SF 182 lögð fram, samþykkt og undirrituð.

2.      Þjónustusamningur um Heiðmörk milli Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Skógræktarfélags Reykjavíkur, dags. 3. janúar 2012 lagður fram að nýju og samþykktur samhljóða.

3.      Lagt fram erindi Tómasar Þorvaldssonar, dags. 14. febrúar 2013 varðandi sumarhúsalóðir í landi Nesjavalla. Stjórn ræddi erindið og ítrekar fyrri ákvörðun um sölu lóðanna en leggur áherslu á að jafnræðis og sanngirni sé gætt og að leigutökum verði boðið að kaupa lóðirnar á markaðsvirði. Kjartan Magnússon situr hjá við afgreiðslu málsins.

4.      Lögð fram Umhverfisskýrsla ársins 2012.  Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri, kynnti skýrsluna. Skýrslan samþykkt samhljóða og undirrituð.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Undirritaður getur ekki tekið undir þá fullyrðingu, sem fram kemur yfirlýsingu stjórnarinnar, að starfsemi á sviði umhverfismála hafi verið með eðlilegum hætti á árinu 2012 en telur að brugðist hafi verið við frávikum með viðunandi hætti.

5.      Samvinnuverkefni um brennisteinsvetni. Bjarni Már Júlíusson og Hólmfríður Sigurðardóttir, kynntu stöðu ásamt verkefnis- og kostnaðaráætlun samvinnuverkefnis um brennisteinsvetni frá jarðvarmavirkjunum.

Kjartan Magnússon leggur fram svohljóðandi tillögu:

„Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur felur forstjóra að kanna möguleika á að nýta losunarefni frá Hellisheiðarvirkjun til frekari framleiðslu með það að markmiði að draga stórlega úr mengun frá virkjuninni, auka endurvinnslu og skapa verðmæti. T.a.m. verði metnir kostir þess að nýta koltvísýring frá virkjuninni til framleiðslu á eldsneyti.“

6.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, og Kevin Finnegan fóru yfir stöðu fjármögnunar Orkuveitu Reykjavíkur. Lögð fram og kynnt áhættuskýrsla OR dags. 31.01.2013. Einnig kynnt óendurskoðaðar bráðabirgðaniðurstöður vegna ársins 2012.

7.      Kynning á vinnustaðagreiningu tekin af dagskrá.

8.      Ingvar Stefánsson, staðgengill forstjóra, lagði fram og kynnti skýrslu um starfsemina frá síðasta fundi.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir því að húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls og Réttarháls verði selt og að starfsemin verði flutt í ódýrara húsnæði. Álitamál er hvort verið sé að selja húsið eða taka dýrt lán því samkvæmt nýsamþykktum samningi þarf Orkuveitan að leigja allt húsið til baka, líka þann hluta þess sem hún notar ekki undir starfsemi sína. Ef litið er svo á að um sölu sé að ræða, er ekki úr vegi að bera ,,söluverðið“, 5,1 milljarð, saman við það sem bygging hússins kostaði á sínum tíma en það eru 9,8 milljarðar króna á núverandi verðlagi. Jafnvel má færa rök fyrir því að húsið hafi verið dýrara því einhver hluti þess var fjármagnaður með erlendum lánum, sem síðan hækkuðu verulega.

Að ýmsu leyti hefur fyrirliggjandi sölusamningur yfirbragð lánssamnings til 10-20 ára og í því ljósi má segja að Orkuveitan sé í raun að taka dýrt lán. Kaupverð er langt undir endurstofnverði og vaxtakjör eru mun lakari en Orkuveitan og Reykjavíkurborg njóta nú á lánum sínum. Í umsögn fjármálastjóra Reykjavíkurborgar um samninginn segir að ef gert sé ráð fyrir að OR nýti kauprétt að húsinu að tíu árum liðnum megi, miðað við fyrirliggjandi forsendur, líta á viðskiptin sem verðtryggt kúlulán, leigugreiðslur sem ígildi vaxtagreiðslna og endurkaup með kaupréttarálagi að tíu árum liðnum sem endurgreiðslu höfuðstóls.

Líta má svo á að ástæðan fyrir því að ,,sala“ Orkuveituhússins var keyrð í gegn með hraði og boðað til aukafundar í borgarstjórn af því tilefni, sé sú að eignasöluhluti aðgerðaáætlunar Orkuveitunnar (plansins) hefur ekki staðist. Af óútskýrðum ástæðum hefur t.a.m. ekki tekist að selja Gagnaveitu Reykjavíkur.

Ekki verður hjá því komist að gera alvarlegar athugasemdir við það hvernig heimasíða Orkuveitunnar hefur verið notuð til umfjöllunar um sölu Orkuveituhússins með birtingu á pistlinum ,,Af hverju að selja höfuðstöðvarnar?“ þar sem skýr og ákveðin afstaða er tekin til viðkvæmra pólitískra álitamála. Slíkir pólitískt efni á ekki erindi á heimasíðu Orkuveitunnar.“

9.      Önnur mál:

Lögð fram svohljóðandi tillaga að gjaldskrá fyrir flutning á metani, tillögunni fylgir greinargerð:

„Gjaldskrá fyrir flutning á metani frá Álfsnesi verður frá 1. apríl 2013, 25 kr/Nm³ án vsk. og breytist í janúar á ári hverju með vísitölu neysluverðs.

Stofngjöld vegna nýtenginga við lögnina verði jöfn raunkostnaði við tenginguna.“

Samþykkt samhljóða.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 11:50.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir,

Kjartan Magnússon, Ragnar Frank Kristjánsson, Sóley Tómasdóttir.