Fundargerð stjórnar #179

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2012, föstudaginn 23. nóvember kl. 9:00 var haldinn 179. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Brynhildur Davíðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir og Ragnar Frank Kristjánsson.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð SF 178 lögð fram, samþykkt og árituð.

2.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, Rannveig Tanya Kristinsdóttir og Auðunn Guðjónsson, endurskoðandi, komu til fundarins og fóru yfir og skýrðu samandreginn árshlutareikning Orkuveitu Reykjavíkur 1. janúar til 30. september 2012.

Umræður.  

Einnig lögð fram skýrsla endurskoðunarnefndar Orkuveitu Reykjavíkur frá nóvember 2012, sem Gylfi Magnússon kynnti.  

Reikningurinn borinn upp, samþykktur samhljóða og undirritaður.

3.      Bjarni Snæbjörn Jónsson, ráðgjafi kom til fundarins og ræddi undirbúning vinnudags um stefnumörkun stjórnar.  Ákveðið að vinnudagur stjórnar verði föstudaginn 7. desember n.k.

4.      Kjarakönnun Orkuveitu Reykjavíkur.

Þórður S. Óskarsson og Kristján Einarsson frá Intellecta og Sólrún Kristjánsdóttir, starfsmannastjóri OR, kynntu könnun sem gerð hefur verið á launakjörum starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur.

5.      Lögð fram eftirfarandi tillaga forstjóra um boðun eigendafundar.  Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að boðað verði til eigendafundar þann 30. nóvember 2012.

Samþykkt.

6.      Lögð fram drög að umhverfisstefnu Orkuveitu Reykjavíkur ásamt eftirfarandi tillögu:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir meðfylgjandi tillögu að umhverfis- og auðlindastefnu 30. nóvember 2012.

Umræður.  Samþykkt með breyttu orðalagi.

7.      Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga forstjóra, sem frestað var á fundi 178, varðandi Hrafnabjargavirkjun.  Tillögunni fylgir greinargerð.  

Frestað. Kjartan Magnússon óskar bókað:

Undirritaður telur varhugavert að Orkuveitan gefi frá sér möguleika á þátttöku í slíku verkefni að óathuguðu máli. Rétt er að málið fái mun meiri umfjöllun með tilliti til framtíðarhagsmuna fyrirtækisins áður en ákvörðun verður tekin. Mikilvægt er að ekki verði rasað um ráð fram heldur allir þættir málsins metnir með ýtarlegum og faglegum hætti. Þetta sjónarmið fela ekki í sér endanlega afstöðu til þess hvort umræddur virkjanakostur sé ákjósanlegur enda hefur rannsóknarleyfi enn ekki verið gefið út og umhverfismat ekki farið fram. Undirritaður telur brýnt að eftirfarandi atriði verði skoðuð sérstaklega og mikilvægum spurningum í sambandi við þau svarað áður en ákvörðun verður tekin:

1.  Um helmingur af rafmagnssölu OR fyrir almennan markað kemur frá Landsvirkjun samkvæmt sérstökum samningum, svokölluðum tólf ára samningum, sem renna út eftir fjögur ár. Forstjóri hefur bent á að mikilvægt sé að Orkuveitan undirbúi tímanlega hvernig staðið verði að því að fullnægja raforkuþörf  fyrir almennan markað á starfsvæði félagsins eftir að umræddir samningar renna út. Svara verður þeirri spurningu hvaða kostir séu fyrir hendi að því leyti. Margt mælir gegn því að fyrirtækið gefi frá sér möguleika á þátttöku í umræddu verkefni á meðan þau mál eru til skoðunar.

2.  Líkur eru á að Landsvirkjun hækki raforkuverð verulega á komandi árum eins og forsvarsmenn hennar hafa boðað. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að Orkuveitan skoði það í fullri alvöru að auka orkuvinnslu sína og draga úr rafmagnskaupum frá Landsvirkjun.

3.  Orkuveitan byggir eigin rafmagnsvinnslu nánast alfarið á jarðgufuvirkjunum. Margvísleg rök hníga að því að vatnsaflsvirkjanir eða safn jarðgufuvirkjana og vatnsaflsvirkjana sé mun heppilegri kostur til þess að þjóna almennum markaði en jarðgufuvirkjanir einar og sér. Nýting jarðgufu er ekki áhættulaus eins og þekkt er. Rétt er að skoðað verði hvort æskilegt sé út frá áhættusjónarmiðum að Orkuveitan skoði möguleika á að auka orkuvinnslu með vatnsafli til að tryggja sveigjanleika í vinnslu en gefi þá a.m.k. ekki frá sér að órannsökuðu máli.

4.  Komist stjórn fyrirtækisins að þeirri niðurstöðu að æskilegt sé að selja ráðandi hlut í Hrafnabjargavirkjun, er eðlilegt að þannig sé staðið að málum að söluverð verði hámarkað í gagnsæju söluferli í stað þess að gengið verði beint til samninga við meðeigendur Orkuveitunnar í umræddu félagi.

8.      Lögð fram áætlun endurskoðunarnefndar vegna úttektarskýrslu eigenda.

Frestað.

9.      Lagt fram erindi SVFR, dags. 5. nóvember sl. varðandi verðskrá fyrir veiðileyfi í Elliðaám.  Einnig lögð fram eftirfarandi tillaga forstjóra.  Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir fyrir sitt leyti breytingar á verðskrá í Elliðaám fyrir árið 2013 í samræmi við innsent erinda frá SVFR með þeim fyrirvara að breytingarnar hafi ekki kostnaðarauka í för með sér fyrir OR. Jafnframt er veitt áframhaldandi heimild til þess að lengja veiðitímann til 15. september.

Samþykkt.

10.  Elín Smáradóttir kynnti stöðu samninga við eigendur um fráveitu og gjaldskrár fráveitu. Umræður.

11.  Gylfi Magnússon kynnti tillögur úrbótahóps OR.

Kjartan Magnússon vék af fundi kl. 11:35

 Gísli Marteinn Baldursson, tók sæti á fundinum.

12.  Ingvar Stefánsson kynnti áhættuskýrslu  og fjármögnun OR til lengri og skemmri tíma. Umræður.

13.  Forðafræði jarðhitasvæða OR.

Frestað.

14.  Elín Smáradóttir kynnti umsagnir OR um þingmál.

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna ítrekar fyrri bókanir um mikilvægi þess að umsagnir um frumvörp verði lögð fyrir stjórn sem ber endanlega ábyrgð á stefnu fyrirtækisins. Aðeins þannig er hægt að tryggja að sjónarmið eigenda, sem oft eru mörg, komist til skila.

15.  Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu sína um starfsemi milli stjórnarfunda frá 21. nóvember 2012.  Umræður.  

Einnig lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra Þjónustu frá 19. nóvember 2012 varðandi löginnheimtu vatns- og fráveitugjalda.

Sóley Tómasdóttir lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

Óskað er eftir minnisblaði um þann kostnað sem Orkuveitan hefur borið af rekstri Perlunnar frá upphafi.

Lögð fram samantekt um rekstrarkostnað Perlunnar frá árinu 2001 til september 2012.

16.  Önnur mál.

·         Sóley Tómasdóttir óskar eftir kynningu á fyrirkomulagi mælinga á rafmagni.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 12:55.

Brynhildur Davíðsdóttir

Gísli Marteinn Baldursson, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir,

Ragnar Frank Kristjánsson, Sóley Tómasdóttir.