Fundargerð stjórnar #178

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2012, föstudaginn 19. október kl. 9:00 var haldinn 178. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Brynhildur Davíðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir, Auður Hermannsdóttir, Jóhann Ársælsson og Ragnar Frank Kristjánsson.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerðir SF 176 og SF 177 lagðar fram, samþykktar og áritaðar.

2.      Birgir Rafn Þráinsson, framkvæmastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, kynnti fjárhag og starfsemi félagsins í samræmi við ákvörðun á 176. stjórnarfundi.

Jafnframt er lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga formanns, sem frestað var á 176. fundi:

Í ljósi ákvörðunar sem tekin var á 172. fundi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur varðandi það að gögn, sem lögð eru fram á fundum stjórnar varðandi lögbundin verkefni og sérleyfisstarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur, en ekki samkeppnisstarfsemi fyrirtækisins skuli birt með sama hætti og gögn sem lögð eru fram í stjórnsýslu eigendasveitarfélaga fyrirtækisins og ákvörðunar sem tekin var á 174. fundi stjórnar um það hvernig upplýsingar um Gagnaveitu Reykjavíkur verði birtar, er lagt til að tillögu Kjartans Magnússonar, sem lögð var fram á 160. fundi stjórnar, um að leynd verði aflétt af tillögu ásamt greinargerð um lán Landsbanka Íslands til Gagnaveitu Reykjavíkur dags. 20. júní 2011 og minnisblaði um fjármögnun Gagnaveitunnar fyrir árið 2011, verði vísað frá.

Samþykkt með 4 atkvæðum.  Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir greiða atkvæði gegn tillögunni.  Kjartan Magnússon óskar bókað:

Sú tillaga, sem nú hefur verið vísað frá af meirihluta stjórnar, var lögð fram fyrir tæpum fjórtán mánuðum eða 24. ágúst 2011 og er dráttur málsins því óviðunandi. Töldu tillöguflytjendur óeðlilegt að fyrirætlanir um áframhaldandi skuldsetningu Gagnaveitunnar vegna nýframkvæmda í fjarskiptalögnum fyrir háar fjárhæðir, yrðu sveipaðar leyndarhjúpi á sama tíma og teflt væri á tæpasta vað vegna niðurskurðar fjárframlaga til viðhalds og endurnýjunar veitukerfa Orkuveitunnar. Í tillögunni var einnig kveðið á um að fundargerð stjórnar Orkuveitunnar frá 23. júní 2011 yrði lagfærð og þar yrði bókuð inn tillaga, sem meirihluti stjórnar samþykkti á þeim fundi, um lán Landsbankans til Gagnaveitunnar. Það eru einnig óviðunandi vinnubrögð að tillaga, sem samþykkt er af meirihluta stjórnar og felur í sér háar fjárskuldbindingar, skuli ekki einu sinni vera bókuð í fundargerð.

3.      Birgir Rafn Þráinsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur lagði fram og kynnti minnisblað um innkaupamál fyrirtækisins, dags. 11.10.2012.  Minnisblaðið er svar við fyrirspurn Kjartans Magnússonar frá 176. fundi.  Umræður.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Í framlögðu minnisblaði um innkaupamál Gagnaveitunnar kemur fram að lágmarksviðmiðunarfjárhæð vegna útboða hjá fyrirtækinu eru aðrar en hjá Orkuveitunni. Undirritaður telur æskilegt að sömu reglur um viðmiðunarfjárhæðir gildi hjá Orkuveitunni og dótturfyrirtækjum hennar. Enda kemur fram í minnisblaðinu að innkaupastefna Gagnaveitunnar og Orkuveitunnar séu að öðru leyti svipaðar.

4.      Formaður lagði til að desemberfundur stjórnar verði haldinn þann 14. desember nk.

Samþykkt.

5.      Lögð fram svohljóðandi tillaga varðandi sölu Gagnaveitu Reykjavíkur.  Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að hefja söluferli á allt að 49% hlutafjár í Gagnaveitu Reykjavíkur, sbr. samþykktir eigenda þar að lútandi.  Forstjóra er falið að velja ráðgjafa við söluna að undangenginni formlegri verðkönnun, þar sem leitað verði tilboða meðal a.m.k. fimm fyrirtækja, sem hafa tilskilin leyfi Fjármálaeftirlitsins skv. lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.  Verðkönnun nái til ráðgjafar og framkvæmdar söluferlisins.  Endanlegar tillögur um tilhögun sölu verði lagðar fyrir stjórn og eigendur Orkuveitu Reykjavíkur.

Samþykkt með 5 atkvæðum gegn atkvæði Sóleyjar Tómasdóttur, sem óskar bókað:

Borgarfulltrúi Vinstri grænna áréttar þá afstöðu sína, að jafnvel þótt Gagnaveita Reykjavíkur heyri ekki undir kjarnastarfsemi fyrirtækisins í nýrri eigendastefnu, þá gegnir hún ekki síður almannahlutverki en önnur veitustarfsemi Orkuveitunnar og á því að vera í eigu og á forræði almennings. Fulltrúi Vinstri grænna greiðir atkvæði gegn því að fyrirtækið verði selt á markaði, að hluta til eða í heild, og mun áfram beita sér fyrir því að þessir mikilvægu innviðir verði gerðir að sameiginlegu grunnneti sem þjónar landsmönnum öllum.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Ég samþykki fyrirliggjandi tillögu enda er hún í samræmi við samþykkt borgarstjórnar en árétta þá skoðun að selja beri öll hlutabréf Orkuveitu Reykjavíkur í Gagnaveitunni. Skoða má mismunandi leiðir til að stuðla að því að Orkuveitan fái sem mest fyrir hlut sinn í slíku söluferli, t.d. með beinni sölu, hugsanlegri sameiningu við önnur fyrirtæki eða hvort rétt sé að selja umrædd hlutabréf í áföngum. Til að hámarka söluandvirðið hefði verið betra að selja a.m.k. ráðandi eignarhlut í Gagnaveitunni en ekki einungis 49% hlut.

6.      Lögð fram svohljóðandi tillaga forstjóra, dags. 19. október 2012, tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur heimilar forstjóra að ganga til samninga við meðeigendur OR í Hrafnabjargavirkjun hf. með það að markmiði að þeir eignist hlut Orkuveitunnar og að hún gangi þar með alfarið út úr félaginu. Endanlegt samkomulag þar um verði lagt fyrir stjórn OR til samþykktar.

Afgreiðslu tillögunnar frestað.

7.      Lagt fram erindi borgarráðs varðandi skýrslu úttektarnefndar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 12.10.2012 og svohljóðandi tillaga stjórnarformanns.  Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að vísa samþykkt borgarráðs frá 11. október 2012 varðandi mat á því hvort þær umbætur sem unnið hefur verið að innan fyrirtækisins nái til allra þeirra þátta sem gagnrýni í skýrslu úttektarnefndar OR beinist að, til endurskoðunarnefndar fyrirtækisins til úrvinnslu fyrir hönd stjórnar. Er þess óskað að nefndin leggi tillögu að verklagi og kostnaðaráætlun vegna verksins fyrir stjórn áður en lengra er haldið.

Samþykkt.

8.      Lögð fram að nýju drög að umhverfisstefnu Orkuveitu Reykjavíkur.
Frestað.  Sóley Tómasdóttur, Brynhildi Davíðsdóttur og Hólmfríði Sigurðardóttur, umhverfisstjóra OR, falið að rýna tillöguna fyrir starfsdag stjórnar.

9.      Lagt fram minnisblað Hólmfríðar Sigurðardóttir, umhverfisstjóra, dags. 16.10.2012, um mat á umhverfisáhrifum jarðhitanýtingar við Gráuhnjúka.  Hólmfríður kynnti þá nálgun að óska eftir formlegu áliti Skipulagsstofnunar um öflun uppbótargufu fyrir Hellisheiðarvirkjun með nýtingu jarðhita við Gráuhnjúka til stuðnings núverandi vinnslu, en leggja hugsanlega nýtingu jarðhita við Gráuhnjúka fyrir 45 MW stækkun Hellisheiðarvirkjunar einungis fyrir stofnunina til kynningar.  Umræður.

10.  Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, kynnti álagspróf, áhættuskýrslu og stöðu fjármögnunar OR.

11.  Lögð fram skýrslan Rafbílar, staða, framtíðarhorfur og sóknarfæri OR, dagsett 17. október 2012.  Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar, kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar.  Umræður.

12.  Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu um starfsemina milli stjórnarfunda.

13.  Önnur mál:

·         Trúnaðarmál:

[Liður tekinn út vegna trúnaðar]

·         Kjartan Magnússon leggur fram svohljóðandi tillögu:

Óskað er eftir að stjórn Orkuveitunnar fái ítarlega kynningu á forðafræði jarðhitasvæða fyrirtækisins og helstu álitaefnum þar að lútandi.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 12:50.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Auður Hermannsdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir, Jóhann Ársælsson,

Kjartan Magnússon, Ragnar Frank Kristjánsson, Sóley Tómasdóttir.