Fundargerð stjórnar #175

 

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2012, fimmtudaginn 23. ágúst kl. 12:00 var haldinn 175. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Björn Bjarki Þorsteinsson og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

1.      Fundargerð SF 174 lögð fram og samþykkt. 

 

2.      Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu um starfsemina milli stjórnarfunda.

Umræður.

Stjórn óskar eftir greinargerð og kynningu á stöðu umsóknar um rannsóknarleyfi vegna Hrafnabjargavirkjunar, ásamt upplýsingum um kostnað, sem lagður hefur verið í verkefnið.

 

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

 

Ljóst er að erindi frá Orkustofnun vegna umsóknar Hrafnabjargavirkjunar um rannsóknarleyfi í Skjálfandafljóti hefur verið í meðförum Orkuveitunnar frá 15. febrúar þar til endurnýjuð umsókn var send inn þann 12. júlí. Málið kom þó aldrei inn á borð stjórnar eða eigenda, þrátt fyrir að nýsamþykkt eigendastefna fyrirtækisins kveði skýrt á um að ákvörðun um að fara inn á óröskuð svæði krefjist samþykkis eigenda. Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn fyrirtækisins gagnrýnir þessi vinnubrögð harðlega.

Hvað umsóknina sjálfa varðar, þá væru frekari virkjanaframkvæmdir til viðbótar við núverandi virkjanir og skuldbindingar óðs manns æði, sér í lagi ef litið er til þeirra fórna sem þarf að færa á svæðinu. Hagsmunir borgarbúa krefjast þess að nú verði látið staðar numið, þótt fyrr hefði verið.

 

Varðandi samning við HF Verðbréf um umsjón með undirbúningi með hugsanlegu söluferli Gagnaveitu Reykjavíkur óskar Kjartan Magnússon bókað:

 

Undirritaður gerir athugasemd við að gengið hafi verið frá samningi og söluþóknun við ákveðinn aðila um að hafa umsjón með sölu á Gagnaveitu Reykjavíkur. Furðulegt er að þannig sé staðið að málum, ekki síst vegna þess að formleg ákvörðun hefur enn ekki verið tekin um umrædda sölu. Æskilegt er að slíkur umsjónaraðili sé valinn úr hópi viðurkenndra fjármálafyrirtækja, sem reynslu hafa af slíkri sölu, á grundvelli útboðs eða a.m.k. með verðkönnun. Óskað er eftir því að umræddur samningur verði ekki samþykktur og umsjónaraðili sölu valinn með viðurkenndum aðferðum, verði ákvörðun tekin um sölu.

 

3.      6 mánaða árshlutareikningur Orkuveitu Reykjavíkur lagður fram.  Auðunn Guðjónsson, endurskoðandi KPMG, Ingvar Stefánsson og Rannveig Tanya Kristinsdóttir kynntu reikninginn og svöruðu fyrirspurnum.  Skýrsla endurskoðunarnefndar, ágúst 2012 lögð fram.  Gylfi Magnússon kynnti efni skýrslunnar.

Reikningurinn staðfestur og áritaður.

 

4.      Jónas Aðalsteinsson, hrl., mætti á fundinn og gerði ásamt Ingvari Stefánssyni og Ívari Erni Lárussyni, grein fyrir stöðu mála varðandi uppgjör gjaldmiðlaviðskipta og gjaldmiðlaskiptasamninga við Glitni.  Einnig lagt fram minnisblað Lex lögmannsstofu, dags. 15. ágúst 2012 um málið.

 

5.      Lögð fram svohljóðandi tillaga endurskoðunarnefndar dags. 16. 8. 2012 um útboð á endurskoðunarþjónustu:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkir, að veita endurskoðunarnefnd fyrirtækisins umboð til að stýra útboði um innkaup á þjónustu löggilts endurskoðenda eða endurskoðunarfélags í samræmi við tillögu stjórnar sem samþykkt var af eigendum á aðalfundi 14. júní 2012. 

Við innkaup á þjónustu löggiltra endurskoðenda eða endurskoðunarfélags skal endurskoðunarnefndin fylgja innkaupareglum Orkuveitu Reykjavíkur en jafnframt hafa samstarf við endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar við innkaupin þar sem markmiðið er að sami löggilti endurskoðandi eða endurskoðunarfélag sinni endurskoðun fyrir Reykjavíkurborg og dótturfyrirtækið Orkuveitu Reykjavíkur.  Sé nauðsynlegt vegna þessa samstarfs að víkja frá innkaupareglum Orkuveitunnar, er endurskoðunarnefndinni það heimilt.

Samþykkt.

 

6.      Lögð fram svohljóðandi tillaga vegna sölu Magma skuldabréfs, tillögunni fylgir greinargerð:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra að setja skuldabréf að fjárhæð USD 67.891.888, útgefið af Magma Energy Sweden, með gjalddaga þann 14. desember 2016 í söluferli.

Samþykkt.

 

7.      Drög að umhverfisstefnu lögð fram.  Tekið af dagskrá.

 

8.      Lagt fram erindi Borgarráðs dags. 21. júní 2012, þar sem þess er óskað að söluferli Perlunnar verði frestað til 1. september 2012.

Samþykkt.

 

9.      Lögð fram svohljóðandi tillaga, dags. 17. ágúst 2012 varðandi aðgang stjórnvalda í Djibouti að jarðhitarannsóknargögnum REI, tillögunni fylgir greinargerð:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir fyrir sitt leyti að stjórnvöldum í Djibouti verði veittur endurgjaldslaus aðgangur að rannsóknargögnum sem REI lét vinna í tengslum við þátttöku og aðstoð fyrirtækisins við uppbyggingu jarðvarmavirkjunar í Djibouti, enda verði öllum samningum við Djibouti og IFC lokið án frekari útgjalda fyrir REI.

Samþykkt með 5 atkvæðum.  Kjartan Magnússon situr hjá.

 

Hrönn Ríkharðsdóttir vék af fundi kl. 15.00.

 

10.  Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála kynnti stöðu mála varðandi fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur og lagði fram áhættuskýrslu ásamt skýringum.

 

11.  Samningar um fráveitu og uppbygging gjaldskrár.  Tekið af dagskrá.

 

12.  Eigendastefna.  Lagt fram minnisblað, dags. 15. ágúst sl.  Tekið af dagskrá.

 

 

 

13.  Lagt fram fundadagatal stjórnarfunda fram að næsta aðalfundi, sem verði haldinn í apríl 2013.

Frestað.

 

14.  Önnur mál:

·         Lagt fram minnisblað lögfræðings OR, dags. 20. ágúst 2012 varðandi tillögu KM frá 24 ágúst 2011, sbr. bókun á 174. fundi þann 14. júní 2012.  Frestað.

 

·         Kjartan Magnússon lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:

 

Í apríl 2008 hafði Orkuveitan ásamt Reykjavíkurborg frumkvæði að því að settir voru upp orkupóstar á bílastæðum þar sem rafbílaeigendum gafst kostur á að hlaða rafmagnsbíla endurgjaldslaust.  Markmið framtaksins var að hvetja almenning og fyrirtæki til að kynna sér kosti rafmagnsbíla til notkunar í borgarumferðinni. Óskað er eftir upplýsingum um framkvæmd verkefnisins og að skoðað verði með hvaða hætti sé unnt að auka þjónustu við rafbílaeigendur í góðu samstarfi við þá aðila, sem nú vinna að rafbílavæðingu samgangna hérlendis.

 
 
Fleira gerðist ekki.  Fundi slitið kl. 15:30.

 

Haraldur Flosi Tryggvason,

Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon,

Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.