Fundargerð stjórnar #174

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2012, fimmtudaginn 14. júní kl. 11:00 var haldinn 174. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Björn Bjarki Þorsteinsson, Sóley Tómasdóttir og Auður Hermannsdóttir.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð SF 173 lögð fram og samþykkt. 

2.      Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu um starfsemina milli stjórnarfunda.

3.      Rannveig Tanya Kristinsdóttir, regluvörður Orkuveitu Reykjavíkur mætti á fundinn og gerði grein fyrir tilkynningu til kauphallar vegna fréttar sem birtist á RÚV þann 12. júní sl.  Kynnti einnig gildandi reglur um innherja.

4.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, kynnti stöðu mála varðandi fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur.

5.      Lögð fram svohljóðandi tillaga. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkir, með fyrirvara um staðfestingu eigenda, að heimila forstjóra og framkvæmdastjóra fjármála að gera framvirkan samning (ISDA rammasamning) um íslenskar krónur og evrur við Arion banka.

Ennfremur er samþykkt að heimila forstjóra og framkvæmdastjóra fjármála að undirrita slíkan samning ásamt öllum nauðsynlegum skjölum sem tilheyra slíkum samningi.

Einnig lagður fram samningur við Arion banka og minnisblað Analytica, dags. 22. maí 2012 um gjaldeyrisvarnir EUR á móti ISK og minnisblað Summu um greiðsluflæðisvörn og efnahagsvörn fyrir Orkuveitu Reykjavíkur.

Ingvar Stefánsson, Gísli Björn Björnsson og Kevin Finnegan skýrðu tillöguna og     svöruðu fyrirspurnum

Samþykkt.

6.      Ársskýrsla og Umhverfisskýrsla Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2011 lagðar fram.

7.      Lögð fram að nýju tillaga Kjartans Magnússonar um birtingu upplýsinga um Gagnaveitu Reykjavíkur, sem frestað var á 173. fundi.  Einnig lagt fram minnisblað lögfræðings, dags. 11. júní 2012, þar sem lagt er til að upplýsingarnar verði birtar með eftirfarandi hætti.

Samþykkt.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Undirritaður lýsir yfir ánægju með samþykkt tillögunnar og er hún tvímælalaust skref í rétta átt.  Birting umræddra upplýsinga segir þó ekki alla söguna um fjárfestingar Orkuveitunnar í fjarskiptastarfsemi.  Til þess þarf einnig að upplýsa um skuldir Gagnaveitunnar við Orkuveituna og aðra aðila.  Ekki hefur verið sýnt fram á það með nokkrum hætti að samkeppnisstaða Gagnaveitunnar versni þótt almenningur verði upplýstur um skuldastöðu fyrirtækisins.  Í þessu sambandi er rétt að minna á að enn er óafgreidd tillaga undirritaðs frá 24. ágúst 2011 um að leynd verði aflétt af tillögu um lántökur Gagnaveitunnar og fjármögnun hennar fyrir það ár.  Hefur meirihluti stjórnar hvað eftir annað frestað afgreiðslu tillögunnar og þannig hefur hún hrakhraufast milli stjórnarfunda í næstum tíu mánuði.  Eru slík vinnubrögð óviðunandi með öllu.

8.      Lagt fram bréf Reykjavíkurborgar, dags. 5. júní 2012, þar sem farið er fram á að frestur til að bregðast við erindi stjórnar varðandi Perluna frá 29. maí 2012 verði framlengdur til 22. júní 2012.

Samþykkt.

9.      Lögð fram svohljóðandi tillaga stjórnarformanns:

Miklar framfarir hafa orðið í hönnun og framleiðslu samgöngutækja sem nýta rafmagn í stað annars eldsneytis eða meðfram því.  Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur telur mikilvægt að fyrirtækið hefji að nýju vinnu við að fylgjast með þessari þróun og þeim möguleikum sem í henni felast.  Er forstjóra falið að láta fara fram könnun á þessu og eftir atvikum gera drög að framtíðarstefnu í þessu tilliti.

Samþykkt.

10.  Önnur mál:

·      Elín Smáradóttir lagði fram og kynnti minnisblað um dóma Hæstaréttar í málum Ístaks gegn Orkuveitu Reykjavíkur.

·      Björn Bjarki Þorsteinsson, áheyrnarfulltrúi Borgarbyggðar, óskar bókað:

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur ítrekað lýst yfir þungum áhyggjum af stöðu neysluvatnsmála í Reykholtsdal. Nú er enn eitt árið komin upp sú staða að vatnsskortur er á svæðinu samanber stöðuna undanfarna viku.

Allt frá árinu 2006 hefur legið fyrir samningur á milli sveitarfélagsins og Orkuveitu Reykjavíkur um að fyrirtækið leggi nýja vatnsveitu í Reykholtsdal til að leysa úr þeim vandamálum með neysluvatn sem hafa verið viðloðandi á svæðinu um árabil.

Nú liggur fyrir að Orkuveita Reykjavíkur mun á þessu ári hefja framkvæmdir við nýja veitu sem á að vera tilbúin til notkunar sumarið 2013 samkvæmt tilkynningu sem fyrirtækið sendi út nú í vikunni. Það er afar brýnt að Orkuveitan sinni þessu verkefni af einurð og leyti allra leiða til þess að verkefnið klárist á árinu 2012 þannig að ekki komi til þess að íbúar í Reykholtsdal þurfi að líða fyrir skort á köldu vatni enn eitt árið. Samkvæmt fyrrgreindri tilkynningu sem send var út á framkvæmdum að vera lokið fyrir mitt ár 2013, í því ljósi að nú á árinu 2012 kemur upp vatnsskortur strax í byrjun júní er afar mikilvægt að allt verði gert til þess að framkvæmdum geti lokið sem fyrst og allra helst á yfirstandandi ári.

Stjórn tekur undir fram komnar áhyggjur og beinir því til forstjóra að leita allra leiða til að ljúka framkvæmdum við vatnsveitu í Reykholtsdal í ár.

Fleira gerðist ekki.  Fundi slitið kl. 13:00.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Auður Hermannsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Gylfi Magnússon,

Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.