Fundargerð stjórnar #173

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2012, föstudaginn 25. maí kl. 12:30 var haldinn 173. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Björn Bjarki Þorsteinsson og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð SF 172 lögð fram og samþykkt. 

2.      Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu um starfsemina milli stjórnarfunda.

Umræður. Sérstaklega var rætt um fjölmiðlaumfjöllun varðandi tjarnir vestur af Hellisheiðarvirkjun og gerð grein fyrir stöðu málsins.  

Stjórn bókar:

Fjölmiðlaumfjöllun undanfarið um tjarnarmyndun í grennd við Hellisheiðarvirkjun sýnir að nýting jarðvarma er flókið og vandasamt viðfangsefni sem getur haft margvísleg vandamál í för með sér.  Þar sem oft þarf að bregðast fyrirvaralítið við uppákomum í kjölfar nýtingarinnar er nauðsynlegt að vera stöðugt á varðbergi og gæta ýtrustu varúðar.  Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur leggur ríka áherslu á að mótuð verði vöktunar- og viðbragðsáætlun vegna umhverfismála á svæðinu.

Stjórnin harmar jafnframt óvæginn fréttaflutning vegna málsins, enda ljóst að aldrei vakti fyrir starfsfólki fyrirtækisins að villa um fyrir fjölmiðlum eða almenningi heldur voru þær upplýsingar sem gefnar voru í upphafi málsins veittar með fyrirvörum um að málið hefði ekki verið skoðað í þaula - og voru leiðréttar um leið og skoðun leiddi annað í ljós.

3.      Árshlutareikningur Orkuveitu Reykjavíkur 1. janúar til 31. mars 2012 lagður fram. Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála mætti á fundinn ásamt Auðunni Guðjónssyni og Hlyni Sigurðssyni, endurskoðendum frá KPMG.  Endurskoðendur kynntu árshlutareikninginn og svöruðu fyrirspurnum. Umræður.

Reikningurinn staðfestur og undirritaður.  Einnig lögð fram skýrsla endurskoðunar-nefndar, dags. í maí 2012.

4.      Ingvar Stefánsson kynnti stöðu mála varðandi fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur og lagði fram áhættuskýrslu.  Samþykkt að skipa úrbótahóp í samræmi við áhættustefnu.  Í hópnum verði Gylfi Magnússon, forstjóri og framkvæmdastjóri fjármála.

5.      Forstjóri lagði fram og kynnti svohljóðandi tillögu varðandi fimmta viðauka við samning milli OR og MHI-BD.  Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur heimilar forstjóra til að ganga frá og undirrita samning við Mitsubishi og Balcke Dürr um greiðslur vegna fimmta viðauka við upphaflegan samning um vélakaup frá maí mánuði 2008.

Samþykkt.

6.      Hálfdan Gunnarsson, forstöðumaður innkaupa og Ólafur Þór Leifsson, lögfræðingur mættu á fundinn og kynntu svar við fyrirspurn Kjartans Magnússonar frá 172. fundi varðandi innkaup yfir 1 milljón króna, sem fram fóru án útboðs á árinu 2011.

7.      Lögð fram og kynnt tillaga um breytingu á innkaupareglum Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 25. maí 2012.

Samþykkt.

8.      Lögð fram eftirfarandi tillaga varðandi sölu á aðveitustöð við Austurbæjarskóla. Tillögunni fylgir greinargerð.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir með fyrirvara um samþykkt borgarráðs að heimila forstjóra að undirrita kaupsamning og önnur nauðsynleg skjöl varðandi sölu á Aðveitustöð við Austurbæjarskóla, landnúmer 102528, fastnúmer 200-8536 til Reykjavíkurborgar.

Samþykkt.

9.      Tillaga að umhverfisstefnu. Tekin af dagskrá.

10.  Hálfdan Gunnarsson kynnti svohljóðandi tillögu varðandi sölu Perlunnar, ásamt greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra að auglýsa á ný eftir tilboðum í Perluna þar sem skýrt verður tekið fram að öllum tilboðum sem gerð eru með fyrirvara um skipulagsbreytingar verði hafnað.

Frestað og forstjóra falið að bjóða Reykjavíkurborg Perluna til kaups. Afstaða borgarinnar verði ljós fyrir næsta fund stjórnar þann 14. júní n.k.

11.  Lagt fram erindi borgarráðs, dags. 3. maí 2012 varðandi breytingu á veiðitíma í Elliðaánum.  Stjórn tekur undir samþykkt ráðgjafahóps um Elliðaárnar og samþykkir að lengja veiðitímann um 15 daga í september að því tilskyldu að öllum laxi sé sleppt en synjar ósk um að framlengja laxveiðitímann í Elliðaám um 5 daga í júní.  

Tillaga um hækkun veiðileyfa samþykkt.

12.  Lagt fram minnisblað forstjóra, dags. 23. apríl 2012 varðandi sumarhúsalóðir í landi Nesjavalla og bréf lóðarleiguhafa, dags. 25. apríl 2012. Stjórn samþykkir, með fyrirvara um fjárhagslega hagkvæmni, að fela forstjóra að selja lóðirnar með sama hætti og aðrar eignir Orkuveitu Reykjavíkur, sem ekki falla undir kjarnastarfsemi fyrirtækisins.

13.  Undirbúningur aðalfundar:

·         Lögð fram svohljóðandi tillaga:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að leggja til við aðalfund að ekki verði greiddur arður fyrir árið 2011.  Tillagan er í samræmi við samþykkta aðgerðaáætlun Orkuveitu Reykjavíkur og eigenda, dags. 29. mars 2011.

Samþykkt.

·         Lögð fram svohljóðandi tillaga:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur leggur til við aðalfund að stjórnarlaun ársins 2011 verði kr. 112.500 á mánuði fyrir aðalmann og tvöföld sú fjárhæðir fyrir formann. Greiðslur til varamanna verði kr. 31.500 á fund.

Jafnframt verði heimilt að greiða upp í laun ársins 2012 kr. 112.500 á mánuði fyrir aðalmann og tvöfalt fyrir formann. Greiðslur til varamanna verði kr. 31.500 á fund.

Samþykkt.

·         Lögð fram svohljóðandi tillaga endurskoðunarnefndar:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að leggja til við aðalfund að KPMG hf. endurskoðunarfyrirtæki verði kosið endurskoðunarfélag Orkuveitu Reykjavíkur árið 2012.

Ennfremur er lagt til að aðalfundur heimili að skipt verði um endurskoðunarfélag vegna endurskoðunar ársins 2013 og að undirbúningur verði hafinn að kosningu á löggiltum endurskoðanda eða endur-skoðunarfélagi.

Að undirbúningi loknum verður eigendafundur haldinn til að kjósa löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag fyrir árið 2013.

                        Samþykkt.

·         Lögð fram svohljóðandi tillaga endurskoðunarnefndar:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur leggur til við aðalfund að eigendur samþykki að endurskoðunarnefndir og innri og ytri endurskoðendur eiganda hafi aðgang að gögnum sem tengjast verulegum og áhættusömum þáttum sem hafa áhrif á reikningsskil eigenda.

Aðgangur skal byggt á málefnalegum forsendum og áætlununum sem þessir aðilar vinna eftir til að sinna eftirlitsskyldu sinni með fyrirtækinu.

                        Samþykkt.

·         Lögð fram svohljóðandi tillaga:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að veita stjórnarformanni umboð til boðunar aðalfundar Orkuveitu Reykjavíkur 2012 í samræmi við sameignar-samning og að höfðu samráði við eigendur.

Samþykkt.

14.  Önnur mál.

·         Lagt fram svar, dags. 8. maí 2012, við fyrirspurn Kjartans Magnússonar frá 19. mars 2012 um kostnað vegna Gagnaveitu Reykjavíkur.

Kjartan Magnússon leggur fram svohljóðandi tillögu:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að framlagðar upplýsingar um fjárhæðir allra fjárfestinga og fjárframlaga fyrirtækisins til Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og Línu.nets hf., verði gerðar opinberar.  Eðlilegt er að upplýst sé hversu mikið af fé Orkuveitunnar, sem er fyrirtæki í eigu almennings, hefur á undanförnum árum runnið til uppbyggingar fjarskiptastarfsemi. 

Tillögunni vísað til umsagnar lögfræðings.

·         Erindi Samtaka um söguferðaþjónustu.  Forstjóra falið að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum.

·         Erindi Ásahrepps vegna gjaldskrár.  Forstjóra falið að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum.

Fleira gerðist ekki.  Fundi slitið kl. 16:30.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.