Fundargerð stjórnar #172

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2012, miðvikudaginn 25. apríl kl. 13:30 var haldinn 172. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Björn Bjarki Þorsteinsson og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sátu fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerðir SF 169 og 170 lagðar fram og samþykktar að nýju vegna misritunar.  Í lið 8 í SF 169 sagði í lið 8 „verðmat KPMG“ en á að vera „verðmat HF Verðbréfa“.  Sama leiðrétting á lið 5 í SF 170.  Fundargerð SF 171 lögð fram til kynningar. 

2.      Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu um starfsemina milli stjórnarfunda.

Umræður.

3.      Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga stjórnarformanns, dagsett 16.03.2012 um umboð forstjóra til að hefja að nýju viðræður við Norðurál Helguvík ehf., sem frestað var á 171. fundi.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur veitir forstjóra fyrirtækisins umboð til viðræðna við fulltrúa íslenskra lífeyrissjóða, og eftir atvikum Norðurál Helguvík ehf., um samning sem feli m.a. í sér að stofnað verði sérstakt fyrirtæki með þátttöku Orkuveitunnar um byggingu orkuvers á Hverahlíðarsvæðinu og sölu þess fyrirtækis á orku til Norðuráls að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Í samningsforsendum skal m.a. tryggt að ekkert framsal eigi sér stað á eignarrétti að orkuauðlindum, sem og að tryggt verði að eignarhald á öllum mannvirkjum og rekstri þeirra falli til Orkuveitunnar að nánar skilgreindum tíma liðnum. Samningar, ef til þess kemur, skulu háðir fyrirvara um samþykki stjórnar Orkuveitunnar og eigenda Orkuveitunnar.

Sóley Tómasdóttir leggur fram eftirfarandi tillögu:

Þar sem hér er verið að opna á einkavæðingu á hluta af starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og þar með eðlisbreytingu á fyrirtækinu er eðlilegt að hún verði borin undir sveitarstjórnir eigendasveitarfélaganna áður en hún verður samþykkt.  Lagt er til að henni verði vísað til borgar- og bæjarstjórna.

Tillaga ST borin upp og felld með 4 mótatkvæðum gegn atkvæði Sóleyjar Tómasdóttur.

Formaður óskar bókað:

Með vísan til fyrirvara um samþykki eigenda í tillögunni er ótímabært að leita samþykkis eigenda á þessum tímapunkti. Hins vegar sé eðlilegt að forstjóri kynni eigendum málið.

Tillaga formanns borin upp og samþykkt með 5 atkvæðum gegn atkvæði Sóleyjar Tómasdóttur, sem óskar bókað:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur ákveðið að nýta Dag umhverfisins til að taka stærsta skref sem stigið hefur verið af hálfu fyrirtækisins í þágu stóriðjustefnunnar. Ekki á aðeins að halda áhættusömum áformum um virkjun í Hverahlíð til streitu, heldur á að ganga svo langt að einkavæða hluta Orkuveitunnar til að þau nái fram að ganga.

Fyrirsláttur meirihlutans um að ekki sé um einkavæðingu að ræða þar sem lífeyrissjóðirnir eru í almannaeigu stenst ekki, enda hafa lífeyrissjóðirnir ekki sömu skyldur gagnvart umhverfi og samfélagi og eigendasveitarfélögin auk þess sem ekki er útséð um að þeir verði einu hluthafarnir á móti OR. Þess utan er lítill áhugi meðal eigenda lífeyrissjóðanna, hins títtnefnda almennings, fyrir áhættufjárfestingum í virkjunum ef marka má könnun sem kynnt var í tilefni dagsins í fjölmiðlum í dag.

Nú þegar hefur Orkuveitan farið svo geyst í virkjunum á Hellisheiði að mörg og stór vandamál hafa hrannast upp. Bág efnahagsstaða fyrirtækisins ætti öllum að vera orðin kunn, en hún er að stórum hluta tilkomin vegna þessara framkvæmda. Auk þess er ekki vitað hvernig fyrirtækið hyggst standast þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð um brennisteinsútblástur, jafnvel þótt ekki komi til nýrra virkjana og vandinn við niðurdælingu affallsvatns er jafnframt óleystur. Jarðhitavirkjanir eiga sér ekki langa sögu og krefjast meiri varúðar en sýnd hefur verið fram til þessa. Skiptar skoðanir eru um það hvort núverandi nýting geti talist sjálfbær – og varasamt að auka þar við áður en lengri reynsla hefur fengist.

Það vakti von í brjósti margra þegar núverandi meirihluti sagðist myndu sveigja af stóriðjustefnu í upphafi kjörtímabilsins og ekki síður þegar borgarfulltrúar Besta flokksins fjölmenntu í Norræna húsið í baráttu sinni fyrir opinberu eignarhaldi á HS-Orku. Nýtt og ferskt afl gaf fyrirheit um nýja nálgun og kjark til að standa með náttúru og umhverfi. Því sætir það furðu að sömu fulltrúar séu nú tilbúnir til að hefja einkavæðingarferli á hluta af rekstri Orkuveitu Reykjavíkur til að standa við samning fortíðar um raforkusölu til álbræðslu í Helguvík.

Það er staðföst trú fulltrúa Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að nú verði að horfast í augu við staðreyndir og rifta samningnum við Norðurál. Í samningnum er gerður fyrirvari um fjármögnun, en fullljóst er að Orkuveitan mun aldrei geta fjármagnað framkvæmdir í Hverahlíð. Slíkt krefst pólitísks hugrekkis og staðfestu sem því miður er ekki til staðar hjá núverandi meirihluta.

4.      Lögð fram að nýju tillaga Kjartans Magnússonar frá SF 169 varðandi að þau gögn sem lögð eru fram á fundum stjórnar, verði opinber með sama hætti og gögn sem lögð eru fram í stjórnsýslu eigendasveitarfélaga fyrirtækisins. Einnig lagt fram minnisblað lögfræðings OR, dags. 22. apríl 2012, þar sem lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu að hún taki til lögbundinna verkefna og sérleyfisstarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur, en ekki til samkeppnisstarfsemi fyrirtækisins.

Samþykkt.

5.      Innri endurskoðandi Orkuveitu Reykjavíkur, Guðmundur I. Bergþórsson og Sigríður Ármannsdóttir, formaður endurskoðunarnefndar komu á fundinn.

·        Sigríður Ármannsdóttir kynnti erindi endurskoðunarnefndar til stjórnar, dags. 20. apríl 2012, vegna samskipta við innri og ytri endurskoðendur eigenda OR. Samþykkt að fela forstjóra að leita samþykkis eigenda fyrir því að endurskoðunarnefnd, innri endurskoðandi og ytri endurskoðendur fái fulla heimild til þess að afhenda viðeigandi gögn vegna sölu REI á hlutum í Enex Kína og Envent til endurskoðunarnefnda, innri endurskoðenda og ytri endurskoðendur eigenda og eiga samskipti og samstarf við þessa aðila. Jafnframt er forstjóra falið að leita samþykkis eigenda fyrir því hvernig samskiptum framangreindra aðila skuli háttað almennt.

·        Innri endurskoðandi lagði fram og kynnti álit innri endurskoðanda á innra eftirliti Orkuveitu Reykjavíkur árið 2011, dags. 12. mars 2012.

·        Innri endurskoðandi lagði fram og kynnti ársskýrslu og endurskoðunarbréf innri endurskoðunar 2011.

·        Innri endurskoðandi lagði fram og kynnti minnisblað, dags. 23. apríl 2012 um niðurstöðu úr ytra gæðamati á starfsemi innri endurskoðunar.

·        Innri endurskoðandi lagði fram og kynnti þriggja ára áætlun innri endurskoðunar OR 2012-2016. Áætlunin var lögð fram til staðfestingar stjórnar og samþykkt.

6.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála mætti á fundinn ásamt Kevin Finnegan og kynnti fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur.

·        Dexia. Lögð fram eftirfarandi tillaga. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur heimilar forstjóra eða framkvæmdastjóra fjármála að endursemja um greiðsluröð við Dexia bankann samkvæmt meðfylgjandi greinargerð. Heimildin nær einnig til undirritunar allra skjala er ráðstafanir þessar kalla á. Forstjóra falið að kynna eigendum breytingarnar.

Samþykkt.

·       

[Þrír liðir teknir út tímabundið vegna trúnaðar.]

Depfa. Lögð fram eftirfarandi tillaga. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur heimilar forstjóra eða framkvæmdastjóra fjármála að endursemja um greiðsluröð og myntbreytingu við Depfa bankann samkvæmt meðfylgjandi greinargerð. Heimildin nær einnig til undirritunar allra annarra skjala er ráðstafanir þessar kalla á. Forstjóra falið að kynna eigendum breytingarnar.

Samþykkt.

·        Arion. Lögð fram eftirfarandi tillaga. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur heimilar forstjóra eða framkvæmdastjóra fjármála að ganga til samninga um gjaldeyrisvarnir við Arion banka samkvæmt meðfylgjandi greinargerð. Þegar gengið hefur verði frá samningum verður niðurstaðan lögð fyrir stjórn til endanlegrar samþykktar.

Samþykkt.

·        Rekstrarlánalínur. Lögð fram eftirfarandi tillaga. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra eða framkvæmdastjóra fjármála að ganga til samninga við íslenskar fjármálastofnanir um framlengingu á lánalínum að fjárhæð 8 milljörðum til ársloka 2014.

Heimildin nær einnig til þess að undirrita samninga og önnur nauðsynleg skjöl tengd þessum samningum.

       Samþykkt með fyrirvara um staðfestingu á ábyrgð eigenda.

·        Áhættuskýrsla: Lögð fram og kynnt áhættuskýrsla OR, dags. 31. mars 2012.

·        Vegna láns frá Lánasjóði sveitarfélaga, sem samþykkt var í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur á 162 fundi þann 21. október 2011 er lögð fram eftirfarandi tillaga að bókun vegna kröfu Lánasjóðs sveitarfélaga:

„Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð EUR 6.200.000 til að endurfjármagna fráveituverkefni á Akranesi, Borgarnesi og Kjalarnesi sem fellur undir lánshæf verkefni sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Heildarfjárþörf verkefnisins er 5,8 milljarðar kr. Ábyrgð eigenda nemur því ekki hærra hlutfalli en 80% af fjárþörf verkefnisins.

Voru skilmálar lánveitingarinnar og lánskjör nánar kynnt og rædd á fundinum.

Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu láns þessa, ásamt vöxtum, og kostnaði standa einfaldar hlutfallslegar ábyrgðir allra eigenda sem eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð sbr. heimild í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 139/2001 um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 138/2011, og setja þau til tryggingar tekjur sínar nánar til tekið framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og útsvarstekjur sbr. 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Komi til vanskila er lánveitanda heimilt að ganga að framangreindum tekjum að undangengnum árangurslausum innheimtuaðgerðum gegn lántakanda. Lánveitandi skal þá tilkynna um vanskilin til ábyrgðaraðila og veita þeim 14 daga frest til að koma láninu í skil.

Stjórnin veitir jafnframt hér með f.h. Orkuveitu Reykjavíkur, Bjarna Bjarnasyni, forstjóra, kt. 040656-2359 og Ingvari Stefánssyni, framkvæmdastjóra fjármála, kt. 240466-4499, fullt og ótakmarkað umboð til þess að skrifa undir lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, og önnur þau skjöl sem nauðsynleg eru til að lánssamningurinn taki gildi. Jafnframt er Bjarna Bjarnasyni, forstjóra, kt. 040656-2359 og Ingvari Stefánssyni, framkvæmdastjóra fjármála, kt. 240466-4499, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda fyrir hönd Orkuveitu Reykjavíkur hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengist lánssamningi þessum.”

Samþykkt með 5 atkvæðum. Kjartan Magnússon situr hjá.

7.      Lögð fram Umhverfisskýrsla Orkuveitu Reykjavíkur 2011.  Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri kom á fundinn og kynnti skýrsluna.  Umræður.  Skýrslan samþykkt og undirrituð.

8.      Lagt fram minnisblað, dags. 23. apríl 2012 um brennisteinsvetni frá jarðvarma-virkjunum.  Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri, kynnti.  Umræður.

9.      Lagt fram minnisblað forstjóra, dags. 23. apríl 2012, varðandi sumarhúslóðir í landi Nesjavalla.  Einnig lagt fram minnisblað, dags. 22.12.2003 og deiliskipulag svæðisins. Jafnframt lagt fram erindi Tómasar Þorvaldssonar, hdl., dags, 25. apríl 2012, f.h. lóðarleiguhafa.

Frestað.

10.  Lagt fram að nýju erindi frá fundi nr. 170 um heimild til verðhækkunar veiðileyfa í Elliðaám og lengingu veiðitímabils.  Tekið af dagskrá þ.s. svar hefur ekki borist frá Reykjavíkurborg.

11.  Lögð framyfirlýsing Garðars K. Vilhjálmssonar, hdl. vegna kauptilboðs hæstbjóðenda í Perluna.  Kjartan Magnússon óskar bókað:

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins átelur harðlega óviðunandi vinnubrögð borgar-stjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins vegna sölu Perlunnar.  Vegna umfangs og eðlis málsins var ljóst frá upphafi að vinna þyrfti að framgangi þess í náinni samvinnu Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar enda um stórt mál að ræða, sem snertir skipulag, umhverfismál og ferðaþjónustu.  Með óvönduðum vinnubrögðum hefur meirihlutinn klúðrað söluferlinu og valdið Orkuveitunni og Reykjavíkurborg álitshnekki.

Ekki verður annað séð en að hæstbjóðandi hafi unnið að málinu í góðri trú í samræmi við þá viljayfirlýsingu, sem undirrituð var af stjórnarformanni og forstjóra Orkuveitunnar í október sl.  Málið tók síðan nýja stefnu 25. janúar þegar skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti að hefja undirbúning að opinni hönnunarsamkeppni að framtíðarnýtingu Öskjuhlíðar.  Hæstbjóðandi hefur nú fallið frá tilboði sínu og í yfirlýsingu gagnrýnt harðlega þá stjórnsýslu, sem stunduð er hjá Reykjavíkurborg.  M.a. kemur fram að hæstbjóðandinn leitaði ítrekað eftir fundi með formanni borgarráðs Reykjavíkur, sem jafnframt er formaður eigendanefndar Orkuveitunnar, en án árangurs.


Um leið og tilboð í Perluna voru opnuð 18. október 2011, kom í ljós að þau voru öll með fyrirvara um að heimiluð yrði frekari uppbygging við þetta þekkta kennileiti borgarinnar, sem jafnframt er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins.  Eðlilegt hefði verið að borgaryfirvöld hefðu þá þegar tekið skýra afstöðu til hugmynda hæstbjóðanda um uppbyggingu á svæðinu, m.a. með tilliti til stefnu borgarinnar í skipulagsmálum, ferðaþjónustu og umhverfismálum en ekki síður í ljósi lögfræðilegra álitaefna varðandi útboðið.  Ekkert af þessu var gert en meirihlutinn kaus hins vegar að vinna að málinu mánuðum saman án þess að halda stjórn Orkuveitunnar upplýstri með tilhlýðilegum hætti.  Undirrituðu forstjóri og stjórnarformaður m.a. viljayfirlýsingu um framgang málsins, sem fólu í sér skuldbindingar gagnvart hæstbjóðanda, eftir að hann hafði kynnt þeim hugmyndir sínar um uppbyggingu á lóðinni.  Var umrædd viljayfirlýsing ekki lögð fram á stjórnarfundi OR  fyrr en 21. desember eftir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna höfðu sérstaklega óskað eftir upplýsingum um málið.  Á þeim stjórnarfundi flutti undirritaður tillögu um að málinu yrði komið í eðlilegan farveg í samstarfi við borgarlögmann og önnur embætti borgarinnar, sem ljóst væri að umrædd uppbyggingaráform heyrðu undir.  Meirihluti stjórnar OR felldi tillöguna og framlengdi þannig það sleifarlag, sem hefur því miður einkennt meðferð málsins.

12.  Önnur mál.

·        Næstu fundir: Stjórnarfundur föstudaginn 25. maí kl. 12:30 og 14. júní kl. 11:00-13:00. Aðalfundur kl. 13:00-14:00 og opinn ársfundur kl. 14.00-16:00 þann 14. júní.  Starfsdagur stjórnar ákveðinn miðvikudagur 30. maí 2012.

·        Starfsáætlun stjórnar. Formaður gerði grein fyrir undirbúningi fyrir starfsdag og starfsreglur stjórnar. Verður nánar kynnt síðar.

·        Lagt fram minnisblað forstjóra, dags. 28. mars 2012 sem svar við fyrirspurn Kjartans Magnússonar varðandi fjárframlög til Gagnaveitu Reykjavíkur.

·        Lagt fram minnisblað forstjóra, dags. 23. apríl 2012 sem svar við fyrirspurn Sóleyjar Tómasdóttur varðandi áfallinn kostnað við Hverahlíðarvirkjun.

·        Lagt fram minnisblað forstöðumanns auðlindarannsókna, dags. 18. apríl 2012 sem svar við fyrirspurn Sóleyjar Tómasdóttur varðandi afkastagetu háhitasvæða.

·        Kjartan Magnússon lagði fram eftirfarandi fyrirspurn: Óskað er eftir yfirliti um öll innkaup fyrirtækisins á vörum og þjónustu, sem fram fóru án útboðs á síðasta ári og námu meira en einni milljón króna.

·         

Fleira gerðist ekki.  Fundi slitið kl. 17:30

Haraldur Flosi Tryggvason,

Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.