Fundargerð stjórnar #171

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2012, föstudaginn 16. mars kl. 9:00 var haldinn 171. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Regin Mogensen, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Ragnar Frank Kristjánsson og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sátu fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri, og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð SF 170 lögð fram og samþykkt.

2.      Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu um starfsemina milli stjórnarfunda.   

Umræður.

Samþykkt einróma að fela endurskoðunarnefnd stjórnar að láta fara yfir ferli við undirbúning sölu á hlutum REI í Enex Kína ehf. og EnVent ehf.

3.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála mætti á fundinn ásamt Rannveigu Tönyu Kristinsdóttur, forstöðumanni reikningshalds og endurskoðendunum Auðuni Guðjónssyni og Hlyni Sigurðssyni frá KPMG.

Gylfi Magnússon, sem sæti á í endurskoðunarnefnd stjórnar, gerði grein fyrir skýrslu endurskoðunarnefndar og þeim ábendingum sem þar koma fram.

Ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2011 lagður fram ásamt endurskoðunarskýrslu ársins.  Endurskoðendur kynntu reikninginn, skýrslu stjórnar og áritun endurskoðenda og fóru yfir endurskoðunarskýrslu.

Ársreikningur borinn upp, staðfestur og áritaður.

Sóley Tómasdóttir bar upp svohljóðandi fyrirspurn:

Athygli vekur að bókfært verð í ársreikningi á framkvæmdum Orkuveitunnar í Hverahlíð er um 6 milljarðar króna, sem er mun hærra en komið hefur fram í umræðum um verkefnið fram til þessa, en í kynningu forstjóra þann 3. febrúar 2012 kom fram að fjárfest hefði verið í verkefninu fyrir 4,3 milljarða króna.

Óskað er eftir sundurliðun á þessum kostnaði og minnisblaði um þá útreikninga sem þar liggja að baki. Auk þess er óskað eftir uppfærðri kostnaðaráætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Hverahlíð miðað við aðstæður í íslensku efnahagslífi í dag, en núverandi áætlun gerir ráð fyrir kostnaði upp á u.þ.b. 29 milljarða króna samkvæmt áðurnefndri kynningu forstjóra.

4.      Lögð fram svohljóðandi tillaga: 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur staðfestir í samræmi við ákvæði 1. mgr. 130. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti ráðningu Rannveigar Tönyu Kristinsdóttur í starf regluvarðar fyrirtækisins og ráðningu Brynju Kolbrúnar Pétursdóttur sem staðgengils regluvarðar.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Samþykkt.

5.      Lagt fram erindisbréf innri endurskoðanda. Gylfi Magnússon kynnti.

Samþykkt.

6.      Lögð fram svohljóðandi tillaga um endurskoðaðan lánasamning Gagnaveitu Reykjavíkur:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila framkvæmdastjóra fjármála Orkuveitu Reykjavíkur að framlengja lánasamning við Gagnaveitu Reykjavíkur frá 8. mars 2007 um allt að 7 ár eða til 1. maí 2019. Á lánstímanum verða vaxtaskilmálar lánsins endurskoðaðir m.t.t. væntra vaxtakjara GR á almennum lánsfjármarkaði að undangengnu samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar.

Samþykkt að heimila framlengingu á lánasamningnum um 18 mánuði. Kjartan Magnússon situr hjá.

7.      Lögð fram að nýju tillaga Kjartans Magnússonar frá fundi nr. 169 varðandi að þau gögn sem lögð eru fram á fundum stjórnar, verði opinber með sama hætti og gögn sem lögð eru fram í stjórnsýslu eigendasveitarfélaga fyrirtækisins.

Vísað til umsagnar lögfræðings OR.

8.      Farið yfir stöðu mála varðandi fyrirhugaða virkjun við Hverahlíð og lögð fram svohljóðandi tillögu stjórnarformanns:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur veitir forstjóra fyrirtækisins umboð til viðræðna við fulltrúa íslenskra lífeyrissjóða, og eftir atvikum Norðurál Helguvík ehf., um samning sem feli m.a. í sér að stofnað verði sérstakt fyrirtæki með þátttöku Orkuveitunnar um byggingu orkuvers á Hverahlíðarsvæðinu og sölu þess fyrirtækis á orku til Norðuráls að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Í samningsforsendum skal m.a. tryggt að ekkert framsal eigi sér stað á eignarrétti að orkuauðlindum, sem og að tryggt verði að eignarhald á öllum mannvirkjum og rekstri þeirra falli til Orkuveitunnar að nánar skilgreindum tíma liðnum. Samningar, ef til þess kemur, skulu háðir fyrirvara um samþykki stjórnar Orkuveitunnar og eigenda Orkuveitunnar.

Frestað.

9.      Lögð fram svohljóðandi tillaga forstjóra,dags. 14. 3. 2012 um gjaldskrá í dreifbýli Rangárveitu. Tillögunni fylgir greinargerð.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir tillögu að gjaldskrá fyrir hitaveitu í dreifbýli Rangárveitu, sem taki gildi frá og með 1. apríl næstkomandi.

Samþykkt.

Hrönn Ríkharðsdóttir vék af fundi kl 11:50.

10.  Lagt fram svohljóðandi tillaga vegna aukningar á hlutafé í Netorku

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Netorku verði aukinn, enda verði ekki um fjárútlát að ræða af hálfu fyrirtækisins.

Samþykkt

11.  Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála og Kevin Finnegan, ráðgjafi, kynntu ítarlega möguleika varðandi fjármögnun OR til lengri og skemmri tíma og lausafjárskipan fyrirtækisins og gerðu grein fyrir samskiptum við lánadrottna.

12.  Önnur mál

·        Rætt um fundadagatal stjórnar fram að aðalfundi.

·        Forstjóri gerði grein fyrir óformlegum óskum sem fram hafa komið um að Orkuveita Reykjavíkur leggi fram rannsóknargögn sem aflað hefur verið vegna áður fyrirhugaðra framkvæmda REI í Djibouti.

·        Lagt fram svarbréf Vegagerðarinnar vegna fyrirspurnar varðandi mögulega ísingu í Hveradalabrekku.

·        Sóley Tómasdóttir lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

Í skýrslu Orkustofnunar frá 2009 eftir Jónas Ketilsson o.fl. um mat á vinnslugetu háhitasvæða er lagt mat á rafafl háhitasvæða til 50 ára samkvæmt áætlaðri flatarvinnslugetu. Þar kemur fram að áætluð vinnslugeta Hengilssvæðisins er um 710 MW af rafafli í 50 ár miðað við 50% líkindi. Þá er tekið meðaltal af reynslu frá fjórum jarðhitasvæðum og er Hengilssvæðið eitt þeirra. Í sömu skýrslu kemur fram miðað við reynsluna frá Hengilssvæðinu sjálfu er flatarvinnslugetan líklega nokkuð ofan við meðaltalið (6 MW/km2 í stað 5 MW/km2). Því má ætla að vinnslugeta svæðisins sé um 850 MW af rafafli í 50 ár miðað við 50% líkindi. Þetta jafngildir um 425 MW af rafafli í 100 ár, 213 MW í 200 ár og 142 MW í 300 ár.

Orkuveita Reykjavíkur framleiðir nú 303 MW af raforku í Hellisheiðarvirkjun og 120 MW í Nesjavallavirkjun, samtals 423 MW. Samkvæmt þessum tölum er Hengilssvæðið nálægt því að vera fullvirkjað miðað við 100 ára nýtingartíma.

Í matsskýrslu fyrir Hverahlíðarvirkjun kemur fram að þar er ætlunin að framleiða allt að 90 MW af raforku. Þar sem Hverahlíð er ótvírætt hluti af Hengilssvæðinu vakna spurningar um hversu skynsamleg slík framkvæmd getur talist. Endurnýjanleiki jarðhitaauðlindarinnar er mjög hægur og af þeim sökum er jafnvel talið eðlilegt að líta á einstök jarðhitakerfi sem varmanámur.

Því er spurt:

1. Hvaða upplýsingar liggja fyrir hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem réttlæta áform um að byggja Hverahlíðarvirkjun?

2. Hafa komið fram einhverjar áreiðanlegar upplýsingar eftir tiltölulega skamman rekstur orkuvera á Nesjavöllum og Hellisheiði sem réttlæta áform um frekari orkuvinnslu á Hengilssvæðinu?

3. Liggur fyrir áætlun um það hvernig Orkuveitan hyggst uppfylla heitavatnsþörf höfuðborgarsvæðisins næstu aldirnar?

Fleira gerðist ekki.  Fundi slitið kl. 13:10.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon,

Ragnar Frank Kristjánsson, Regin Mogensen, Sóley Tómasdóttir.