Fundargerð stjórnar #170

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2012, föstudaginn 17. febrúar kl. 9:00 var haldinn 170. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Jóhann Ársælsson, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sat fundinn Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð SF 169 lögð fram, samþykkt og undirrituð.

2.      Lögð fram skýrsla forstjóra. Ingvar Stefánsson, fjármálastjóri, kynnti skýrsluna í fjarveru forstjóra.

3.      Gildandi starfsreglur stjórnar lagðar fram og undirritaðar.

4.      Lögð fram tillaga forstjóra dags. 17.02.2012 um sölu eignarhluta í Landsneti hf. Hálfdan Gunnarsson mætti á fundinn og kynnti eftirfarandi tillögu. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra að hefja viðræður við Landsvirkjun um sölu á hlut OR í Landsneti hf.

Samþykkt.

5.      Lögð fram svohljóðandi tillaga forstjóra, dags. 18. 01. 2012. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur veitir forstjóra heimild til að ganga til viðræðna við tilboðsgjafa í Hlíðaveitu.

Einnig lagt fram verðmat HF Verðbréfa á Hlíðaveitu, dags. 18. janúar 2012.

Afgreiðslu tillögunnar frestað.  Samþykkt með 5 atkvæðum að fela forstjóra að auglýsa eftir áhugasömum kaupendum að hlut OR í Hlíðaveitu.  Sóley Tómasdóttir situr hjá.

6.      Lagt fram erindi forstjóra dags. 17.01.2012 um heimild stjórnar til að semja við Mitsubishi Heavy Industries og Balcke Dürr um breytingar á gildandi samningi.  Jakob S. Friðriksson mætti á fundinn og kynnti eftirfarandi tillögu. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn OR heimilar forstjóra OR að semja við Mitsubishi Heavy Industries (MHI) og Balcke Durr (BD) um breytingar á gildandi samningi félaganna frá 30. maí 2008 í því skyni að heimila þeim sem seljendum að bjóða og eftir atvikum selja þriðja aðila vélasamstæður þær sem eftir standa í samningi Orkuveitu Reykjavíkur við fyrirtækin, en tryggja um leið möguleika Orkuveitu Reykjavíkur til að viðhalda rétti til tveggja vélasamstæðna án skuldbindingar um kaup.

Samþykkt.

7.      Lögð fram drög að ársreikningi 2011.  Bjarni Freyr Bjarnason, Rannveig Tanya Kristinsdóttir og Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, kynntu drögin og svöruðu fyrirspurnum.

8.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála kynnti heildarsýn á fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur til lengri og skemmri tíma.


Kjartan Magnússon lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

Óskað er eftir því að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fái greinargerð um tiltæka kosti varðandi fjármögnun fyrirtækisins til lengri og skemmri tíma. Í greinargerðinni verði m.a. að finna yfirlit yfir þá aðila, sem leitað hefur verið til eða boðið hafa fyrirtækinu þjónustu sína við endurfjármögnun skulda fyrirtækisins sl. 18 mánuði, og hugmyndir/tillögur þeirra þar að lútandi.

Stjórn samþykkti að fela forstjóra að gera umfjöllun um fjármögnun að föstum lið á dagskrá stjórnarfunda. Jafnframt að skipuleggja vinnudag stjórnar um fjármál fyrirtækisins.

Stjórn óskar jafnframt eftir því að forstjóri gangi eftir svari frá eigendanefnd OR við erindi, dags. 29. júní 2011, sem beint var til hennar varðandi málefni Gagnaveitu Reykjavíkur.

9.      Ingvar Stefánsson lagði fram áhættuskýrslu og kynnti möguleika á áhættuvörnum.

10.  Lögð fram svohljóðandi tillaga um endurskoðun lánasamnings Gagnaveitu Reykjavíkur:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila framkvæmdastjóra fjármála Orkuveitu Reykjavíkur að framlengja lánasamning við Gagnaveitu Reykjavíkur frá 8. mars 2007 um allt að 7 ár eða til 1. maí 2019. Á lánstímanum verða vaxtaskilmálar lánsins endurskoðaðir m.t.t. væntra vaxtakjara GR á almennum lánsfjármarkaði að undangengnu samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Frestað.

11.  Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga forstjóra, dags. 17.1.2012:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur heimilar forstjóra fyrir hönd fyrirtækisins, að færa Háskóla Íslands að gjöf þann búnað sem áður tilheyrði Rafheimum auk eftirstöðva þeirra fjármuna sem Orkuveita Reykjavíkur lagði í Undirbúningsfélag Tilraunahúss, enda haldi HÍ áfram þeirri fræðslu sem stunduð var í Rafheimum.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Einnig lagt fram minnisblað, dags. 30. 01. 2012.

Samþykkt með 4 atkvæðum. Brynhildur Davíðsdóttir og Gylfi Magnússon sitja hjá.

12.  Lagt fram erindi forstjóra dags. 17.02.2012 um hækkun veiðileyfa og lengingu veiðitímabils í Elliðaám.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Samþykkt að vísa málinu til umfjöllunar Reykjavíkurborgar og Landbúnaðarstofnunar.

13.  Lögð fram að nýju frá síðasta fundi tillaga Kjartans Magnússonar:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að gögn, sem lögð eru fram á fundum stjórnar, verði opinber með sama hætti og gögn, sem lögð eru fram í stjórnsýslu eigendasveitarfélaga fyrirtækisins, nema stjórn ákveði annað.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Frestað.

14.  Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga Kjartans Magnússonar og Júlíusar Vífils Ingvarssonar:

Í samræmi við markmið um gegnsæi í vinnubrögðum og eðlilega upplýsingagjöf til almennings, samþykkir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að leynd verði aflétt af tillögu ásamt greinargerð um lán Landsbanka Íslands til Gagnaveitu Reykjavíkur dags. 20. júní 2011 og minnisblaði um fjármögnun Gagnaveitunnar fyrir árið 2011. Umrædd gögn voru lögð fyrir stjórnarfund Orkuveitunnar 23. júní sl. Tillagan var samþykkt á umræddum stjórnarfundi en var þó ekki birt orðrétt í fundargerð fundarins. Er jafnframt samþykkt að úr því verði bætt.

Jafnfram lögð fram að nýju gögn um málið frá stjórnarfundum 158, 160, 161,167 og 169.

Afgreiðslu tillögunnar frestað og forstjóra falið að gera tillögu um hvernig megi birta almenningi upplýsingar um Gagnaveitu Reykjavíkur.

15.  Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga Kjartans Magnússonar:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að upplýst verði opinberlega um tilboðsgjafa og fjárhæðir þeirra sex tilboða, sem bárust í Perluna. Einnig verði upplýst um helstu hugmyndir og fyrirvara, sem tengjast umræddum tilboðum, þannig að almenningi verði ljóst með hvaða hætti þau fela í sér breytingar á deiliskipulagi og hugsanleg kaup á byggingarrétti í Öskjuhlíð.

Einnig lagt fram minnisblað lögfræðings OR um málið og tilboðin sex sem bárust í Perluna.

Samþykkt með þeirri breytingu að ekki verði upplýst um nafn þess tilboðsgjafa sem óskaði trúnaðar.

16.  Lögð fram svohljóðandi tillaga Kjartans Magnússonar:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að fela forstjóra að hafa samband við Vegagerðina til að kanna hvort ísing geti myndast á Suðurlandsvegi vegna gufu frá Hellisheiðarvirkjun og þá hvort bregðast þurfi við með uppsetningu varúðarskilta.

Samþykkt.

17.  Önnur mál.

·         Stjórnarformaður gerði grein fyrir fundi með fulltrúum endurskoðunarnefndar. Samþykkt að óska eftir starfsáætlun endurskoðunarnefndar.

·         Umræður um fundadagatal stjórnar.

·         Formaður las upp áskorun til stjórnar frá formönnum Hins íslenska náttúrufræðifélags,  Landverndar, Samlífs – Samtökum líffræðikennara og Félags náttúrufræðikennara á grunnskólastigi og Félags raungreinakennara um náttúruminjasafn og Perluna.

Fleira gerðist ekki.  Fundi slitið kl. 12:35.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir Gylfi Magnússon,

Jóhann Ársælsson, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.