Fundargerð stjórnar #168

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, miðvikudaginn 21. desember kl. 18:00 var haldinn 168. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sátu fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri, og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð SF 167 lögð fram og samþykkt.

2.      Jóhannes Karl Sveinsson, hrl. gerði grein fyrir þeim upplýsingum sem fyrir liggja varðandi niðurstöðu gerðardóms í máli Norðuráls Helguvíkur gegn HS Orku og mögulegum áhrifum á Orkuveitu Reykjavíkur. Umræður.

Einnig var upplýst um mál HS Orku gegn Norðuráli og Orkuveitu Reykjavíkur, sem vísað var til gerðardóms þann 16. desember sl.

3.      Formaður stjórnar og forstjóri röktu feril varðandi sölu Perlunnar og upplýsingagjöf til stjórnar og fjölmiðla. Umræður.

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur gerir alvarlegar athugasemdir við að stjórn fyrirtækisins hafi ekki verið upplýst um söluferli Perlunnar, jafnvel þótt spurt hafi verið um málið bæði formlega og óformlega á fundum undanfarna mánuði. Líkur standa til að fulltrúar meirihluta borgarinnar í stjórn hafi verið betur upplýstir á þessum tíma, eða a.m.k. stjórnarformaðurinn sem skrifar undir viljayfirlýsingu sem vottur þann 24. nóvember sl. Þrátt fyrir það þótti ekki ástæða til að upplýsa stjórn um framvinduna.

Fulltrúinn ítrekar jákvæða afstöðu sína til sölu Perlunnar. Hún stendur þó á viðkvæmum stað í Reykjavík og frekari uppbygging á lóðinni er varhugaverð. Ólíklegt verður að teljast að verkáætlun tilboðsgjafa geti staðist, enda lúta fyrirvararnir bæði að aðal- og deiliskipulagsbreytingum sem myndu taka umtalsvert lengri tíma en gert er ráð fyrir. Ennfremur er ólíklegt að  skipulagsyfirvöld í Reykjavík fallist á hugmyndirnar.

Á undanförnum árum hafa margir aðilar lýst áhuga á uppbyggingu í Öskjuhlíð sem ekki hefur verið samþykkt. Vinstri græn telja mikilvægt að svæðið sé skoðað heildstætt og telja æskilegt að fram fari hugmyndasamkeppni um nýtingu svæðisins áður en lengra er haldið og munu beita sér fyrir því á vettvangi skipulags- og borgarráðs Reykjavíkur.

Eðlilegast hefði verið að stjórn hefði fengið upplýsingar um stöðu mála í skýrslu forstjóra sem lagðar eru fram á hverjum stjórnarfundi. Nú þegar farið hefur verið yfir málið er nauðsynlegt að vinnubrögð og samskipti stjórnar og stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur verði tekin til endurskoðunar til að tryggja gagnkvæmt traust. Til þess verður stjórn að vera upplýst og meðvituð um starfsemi fyrirtækisins og framvindu mála hverju sinni.

Haraldur Flosi Tryggvason óskar bókað:

Söluferli Perlunnar hefur verið opið og vandað þar sem þessi skref hafa verið stigin:

31. janúar 2011

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti að selja Perluna

23. júní 2011

Borgarráð samþykkti samhljóða fyrir sitt leyti að eignin færi í sölu

3. september 2011

Perlan auglýst

18. október 2011

Tilboð opnuð

21. október 2011

Stjórn OR var upplýst um tilboðsfjárhæðir á fundi hennar.

Forstjóra falið að vinna áfram að málinu.

24. nóvember 2011

Eftir viðræður var ákveðið að gefa hæstbjóðenda frest til 31. mars til að aflétta fyrirvörum. Um það snýst viljayfirlýsingin og að ekki verði rætt við aðra bjóðendur á meðan.

Samkvæmt verklagi um sölu á eignum Orkuveitu Reykjavíkur þarf stjórn að samþykkja fyrirvaralaust kauptilboð eða frágenginn kaupsamning. Hvorugt liggur fyrir og er endanleg sala Perlunnar því óafgreidd af hálfu stjórnar.

Í ljósi þessa tel ég að forstjóri hafi haft fullt umboð til að skrifa undir það samkomulag sem gert var við hæstbjóðendur þann 24. nóvember. Það var eðlilegt skref í söluferlinu enda miðaði það einungis að því að undirbúa og afla forsendna fyrir ákvörðun af hálfu stjórnar Orkuveitunnar.

Kjartan Magnússon leggur fram eftirfarandi tillögu:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að upplýst verði opinberlega um tilboðsgjafa og fjárhæðir þeirra sex tilboða, sem bárust í Perluna. Einnig verði upplýst um helstu hugmyndir og fyrirvara, sem tengjast umræddum tilboðum, þannig að almenningi verði ljóst með hvaða hætti þau fela í sér breytingar á deiliskipulagi og hugsanleg kaup á byggingarrétti í Öskjuhlíð.

Frestað til næsta fundar og lögfræðingi falið að kanna lögmæti þess að veita viðkomandi upplýsingar.

Kjartan Magnússon leggur fram eftirfarandi tillögu:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur felur forstjóra að leita eftir ráðgjöf hjá borgarlögmanni, Skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar, Framkvæmda og eignasviði og Umhverfis- og samgöngusviði áður en frekari vinna fer fram og frekari ákvarðanir verða teknar vegna sölu Perlunnar í Öskjuhlíð. M.a. verði óskað eftir því að þessir aðilar gefi álit sitt á því hvernig staðið hefur verið að málinu fram að þessu og veiti jafnframt leiðbeiningar um hvernig best sé að standa að framhaldi þess. Fyrirliggjandi tilboð verði metin í samstarfi við þessa aðila og skoðað hve miklar breytingar hvert þeirra hefur í för með sér með tilliti til hugsanlegra breytinga á deiliskipulagi og sölu byggingarréttar á svæðinu. Við frekari framvindu málsins verði tryggt að vandaðri stjórnsýslu verði fylgt í hvívetna og ástundað víðtækt samráð við skipulagsyfirvöld og aðra aðila innan borgarkerfisins, sem málið varðar.

Tillagan felld með 5 atkvæðum gegn einu atkvæði Kjartans Magnússonar.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins átelur harðlega vinnubrögð stjórnarformanns og forstjóra vegna sölu Perlunnar í Öskjuhlíð. Fullyrðingum stjórnarformanns um að söluferlið hafi verið vandað er vísað á bug. Á stjórnarfundi 21. október sl. fengu stjórnarmenn afar takmarkaðar upplýsingar um málið á grundvelli þess að tilboðsfrestur hefði runnið út þremur dögum fyrr. Var þá sagt að vinna þyrfti betur úr tilboðum áður en þau yrðu lögð fyrir stjórn en rætt um að það yrði gert svo fljótt sem auðið væri. Síðan hafa verið haldnir fimm stjórnarfundir án þess að umrædd gögn væru lögð fram. Nú hefur komið í ljós að 24. nóvember undirrituðu forstjóri og stjórnarformaður viljayfirlýsingu um málið þar sem samþykkt var að hefja viðræður við einn aðila á grundvelli tilboðs hans. Ámælisvert er að stjórnarformaður og forstjóri kusu að leggja umrædda viljayfirlýsingu ekki fyrir stjórn Orkuveitunnar, hvorki til kynningar né samþykktar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna tóku málið upp á stjórnarfundi 16. desember og lögðu þá fram tillögu um að stjórnarmenn fengju án tafar fullnægjandi gögn vegna sölu Perlunnar, þ.m.t. upplýsingar um öll tilboð, sem borist hefðu í eignina og útfærslur einstakra tilboðsgjafa. Með ólíkindum er að í umræðum um málið á þeim fundi, skyldu stjórnarformaður og forstjóri ekki upplýsa aðra stjórnarmenn um umrædda viljayfirlýsingu og að viðræður stæðu yfir við einn aðila á grundvelli hennar, heldur kjósa að leyna yfirlýsingunni áfram.

Rétt er að upplýst verði opinberlega um tilboðsgjafa og fjárhæð tilboða sem fyrst ásamt helstu fyrirvörum, sem bjóðendur gera vegna hugsanlegra breytinga á skipulagi og kaupum á byggingarrétti. Harmað er að meirihluti stjórnar fyrirtækisins skuli hafna þeirri hugmynd að leitað verði ráðgjafar hjá skipulagsyfirvöldum og frekari ákvarðanir ekki teknar án samráðs við þá aðila innan borgarkerfisins, sem málið varðar. Vegna fullyrðingar í bókun stjórnarformanns skal tekið fram að hvergi kemur fram í umræddri viljayfirlýsingu að markmiðið með þeim tímafresti, sem tilboðsgjafa er þar veittur, sé að hann falli frá fyrirvörum sínum varðandi skipulagsbreytingar og kaup á byggingarrétti. Nánast útilokað er að þau tímamörk, sem fram koma í viljayfirlýsingunni standist, og því er vandséð hvernig vinna eigi áfram að málinu á grundvelli hennar.

Haraldur Flosi Tryggvason óskar bókað:

Formaður telur að efni viljayfirlýsingarinnar skýri best tilgang hennar og svari því sem fram kemur í bókunum um málið.  Því er lagt til að viljayfirlýsingin verði birt á heimasíðu fyrirtækisins eða öðrum viðeigandi stað.

4.      Önnur mál.

Lögð fram eftirfarandi tillaga um sölu eigna vegna Rafstöðvarvegar 9:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur veitir forstjóra heimild til að samþykkja kauptilboð ásamt því að undirrita kaupsamninga, skilyrt veðleyfi og önnur nauðsynleg skjöl tengd sölu á eftirfarandi eign:

·                Rafstöðvarvegur 9, fastanúmer 2044091, landnúmer 217467.

Tillagan samþykkt með 5 atkvæðum gegn atkvæði Sóleyjar Tómasdóttur, sem óskar bókað:

Með samþykkt kauptilboðsins er Orkuveita Reykjavíkur óbeint að stuðla að breyttu deiliskipulagi í Elliðaárdal, á svæði sem er afar mikilvægt með tilliti til umhverfis, lífríkis og útivistarmöguleika almennings.  Ekki fer vel á því að koma fyrir á þessu svæði líkamsrækt með herbúðasniði, hávaða og yfirbragði sem því fylgir, bílastæðaþröng og mikilli umferð.  Betur hefði farið á því að finna kaupanda með heppilegri starfsemi í sátt við mannlíf, sögu og náttúrulegt umhverfi. Fulltrúi Vinstri grænna greiðir því atkvæði gegn samþykktinni.

Fleira gerðist ekki.  Fundi slitið kl. 20:15.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon,

Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.