Fundargerð stjórnar #167

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, föstudaginn 16. desember kl. 9:00 var haldinn 167. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Stillholti á Akranesi.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Ragnar Frank Kristjánsson og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sátu fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri, og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerðir SF 165 og 166 lagðar fram.

2.      Forstjóri gerði grein fyrir minnisblaði sínu um starfsemi OR milli stjórnarfunda. Umræður.  Einnig lögð fram og kynnt Upplýsinga- og skjalaúttekt Gagnavörslunnar ehf., dags. í desember 2011.

3.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála gerði grein fyrir stöðu aðgerðaáætlunar, plansins, eftir 3. ársfjórðung 2011.

4.      Ingvar Stefánsson  lagði fram og kynnti drög að áhættustefnu Orkuveitu Reykjavíkur. Frestað og beiðni um formlega umsögn rýnihóps eigenda ítrekuð.

5.      Ingvar Stefánsson  lagði fram og kynnti áhættuskýrslu, minnisblað um stöðu áhættuvarna og upplýsingar frá fjármálasviði. Umræður.

6.      Eftirfarandi tillögur um breytingar á starfsreglum stjórnar vegna endurskoðunarnefndar lagðar fram:

1.  Út úr grein 3.1 fellur eftirfarandi setning:

Stjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með reikningshaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins.

2. Inn í starfsreglurnar kemur ný grein, merkt, 3.4, sem hljóðar svo:

Stjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með reikningshaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Til að sinna þessu hlutverki er starfandi endurskoðunarnefnd á vegum stjórnar Orkuveitunnar.

Skipan endurskoðunarefndar er með þeim hætti að einn endurskoðunarnefndarmaður er stjórnarmaður í Orkuveitunni og tveir endurskoðunarnefndarmenn eru ekki í stjórn Orkuveitunnar.

Skipan stjórnarmanns í endurskoðunarefndina skal samþykkt með meirihluta atkvæða.

Skipan tveggja manna í endurskoðunarnefndina, sem ekki eru í stjórn Orkuveitunnar, skal samþykkt samhljóða.

Starfsreglur endurskoðunarnefndar eru hluti af starfsreglum þessum.

3. Inn í starfsreglurnar kemur ný grein, merkt 6.4, í stað neðanmálsgreinar i, sem fellur  út:

Enn fremur er innri endurskoðanda heimilt að sitja stjórnarfundi og hefur þar málfrelsi, nema að stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum.

4. Starfsreglur endurskoðunarnefndar, eins og þær voru lagðar fyrir 161. stjórnarfund eru samþykktar.

Samþykkt.

7.      Formaður lagði fram og kynnt eftirfarandi tillögu um samkomulag við Skógræktarfélag Reykjavíkur:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að veita samtals 9 mkr. til Skógræktarfélags Reykjavíkur vegna verkefna í Heiðmörk á árunum 2011 og 2012, sbr. hjálagt minnisblað Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem undirritað var með fyrirvara um samþykki stjórnar þann 30. nóvember 2011.

Samþykkt.

8.      Lögð fram og kynnt eftirfarandi tillaga varðandi forkaupsrétt hlutafjár í Keili.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að falla frá forkaupsrétti í Keili – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, sbr. framlagt erindi fjármálastjóra félagsins.

Samþykkt.

9.      Lagt fram bréf Snæbjörns Björnssonar til stjórnar, dags. 28. nóvember 2011.

Forstjóra falið að svara erindinu.

10.  Gagnaveita Reykjavíkur, birting upplýsinga. Tillaga Kjartans Magnússonar frá 160. fundi lögð fram að nýju:

Í samræmi við markmið um gegnsæi í vinnubrögðum og eðlilega upplýsingagjöf til almennings, samþykkir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að leynd verði aflétt af tillögu ásamt greinargerð um lán Landsbanka Íslands til Gagnaveitu Reykjavíkur dags.  20. júní 2011 og minnisblaði um fjármögnun Gagnaveitunnar fyrir árið 2011. Umrædd gögn voru lögð fyrir stjórnarfund Orkuveitunnar 23. júní sl. Tillagan var samþykkt á umræddum stjórnarfundi en var þó ekki birt orðrétt í fundargerð fundarins. Er jafnframt samþykkt að úr því verði bætt.  

Frestað og óskað eftir gögnum fyrir næsta fund.

11.  Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga Kjartans Magnússonar um nöfn umsækjenda um stjórnunarstöður:

Lagt er til að stjórnarmenn fái í hendur lista með nöfnum umsækjenda um starf framkvæmdastjóra fjármála félagsins eins og óskað var eftir á stjórnarfundi fyrir rúmum fjórum mánuðum eða 20. maí sl.

Listinn lagður fram í samræmi við ákvörðun stjórnarformanns.

12.  Lögð fram og kynnt greinargerð forstjóra um ráðningu framkvæmdastjóra fjármála, dags. 17. október 2011.

13.  Lögð fram og kynnt greinargerð forstjóra um uppsagnir í tengslum við skipulagsbreytingar, dags. 1. nóvember 2011.

14.  Lagt fram erindi borgarstjórans í Reykjavík, dags. 2. nóvember 2011 varðandi nýjan varamann í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Gísli Marteinn Baldursson kemur í stað Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur.

15.  Önnur mál.

·           Lögð fram drög að umsögn Orkuveitu Reykjavíkur um atvinnumálastefnu Reykjavíkur.

·           Boðun eigendafundar. Lögð fram eftirfarandi tillaga:

 Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að fela formanni að boða til eigendafundar í fyrirtækinu sbr. erindi sveitarstjóra Borgarbyggðar þar sem fram kemur ósk sveitarstjórnar Borgarbyggðar um að slíkur fundur verði haldinn, sem samþykkt var á fundi hennar 8. desember sl.

Samþykkt.

·           Lögð fram eftirfarandi tillaga Kjartans Magnússonar og Sóleyjar Tómasdóttur:

Óskað er eftir því að stjórnarmenn OR fái án tafar afhent fullnægjandi gögn vegna sölu Perlunnar í Öskjuhlíð, þ.e. upplýsingar um öll tilboð sem borist hafa í eignina og útfærslur einstakra tilboðsgjafa. Á stjórnarfundi 21. október sl. fengu stjórnarmenn afar takmarkaðar upplýsingar um málið á grundvelli þess að tilboðsfrestur hefði runnið út þremur dögum fyrr. Var þá sagt að vinna þyrfti betur úr tilboðum áður en þau yrðu lögð fyrir stjórn en rætt um að það yrði gert svo fljótt sem auðið væri. Síðan hafa verið haldnir fimm stjórnarfundir án þess að umrædd gögn hafi verið lögð fram, sem er óviðunandi.

Samþykkt.

Haraldur Flosi Tryggvason og Brynhildur Davíðsdóttir óska bókað:

Við samþykkjum tillögu um að stjórn verði kynnt staða mála varðandi sölu Perlunnar en leggjum áherslu á að vel hefur verið staðið að ferlinu af hálfu starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur. Sérstaklega hefur staðið á undanfarið vegna árshlutareiknings og fjárhagsáætlunargerðar og málið því tafist.

Kjartan Magnússon óskar gagnbókað:

Undirritaður á ekki von á öðru en að starfsmenn Orkuveitunnar hafi unnið vel að málum vegna sölu Perlunnar en getur ekki dæmt um það þar sem engin gögn hafa verið lögð fyrir stjórn þar að lútandi. Sú fullyrðing stjórnarmanna Samfylkingar og Besta flokksins að vel hafi verið staðið að málum bendir til að þeir séu betur upplýstir um málið en aðrir stjórnarmenn, sem væri í hæsta máta óeðlilegt. Meirihluta stjórnar var í lófa lagið að leggja umrædd gögn fyrir stjórnina enda rann tilboðsfrestur út 18. október.

Fleira gerðist ekki.  Fundi slitið kl. 12:45.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir,

Kjartan Magnússon, Ragnar Frank Kristjánsson, Sóley Tómasdóttir.