Fundargerð stjórnar #165

 

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, föstudaginn 18. nóvember kl. 9:00 var haldinn 165. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

 

1.      Fundargerðir  162., 163. og 164. fundar stjórnar lagðar fram til samþykktar.

2.      Forstjóri lagði fram og greindi frá skýrslu sinni um það sem hæst hefur borið í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur á síðustu fjórum vikum. Umræður.

3.      Samningur um orkusölu til Geogreenhouse.

Sóley Tómasdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:

Stjórn OR samþykkir að fela samninganefnd fyrirtækisins að óska eftir að trúnaði verði létt af samningnum áður en lengra er haldið.

Tillagan borin upp og felld með 5 atkvæðum gegn 1.

Sóley Tómasdóttir vék af fundi og óskar bókað: Þremur árum eftir hrun, undir lok árs 2011 og í sömu viku og svört skýrsla um Orkuveitu Reykjavíkur er gerð opinber, fellir stjórn fyrirtækisins tillögu um að aflétta trúnaði af orkuverði í raforkusölusamningi vegna gróðurhúsaræktunar á Hellisheiði. Krafa almennings um breytt vinnubrögð, aukið lýðræði og gagnsæi er hundsuð og gamaldags íhaldssöm leyndarhyggja ræður enn för hjá stjórn fyrirtækisins.

Meirihluti stjórnar telur greinilega að leyndin þjóni hagsmunum Orkuveitunnar, enda hefur komið fram að krafa viðsemjanda fyrirtækisins um trúnað sé ekki afdráttarlaus. Þannig er ljóst að leyndarhyggjan eru tekin framyfir sanngirnis- og lýðræðissjónarmið.

Fyrirhugaður samningur markar að mörgu leyti tímamót. Hér er um spennandi nýsköpunarverkefni að ræða sem vonandi mun gefast vel fyrir samfélagið allt. Það er sorglegt að meirihlutinn skuli ekki nýta það tækifæri sem hér gefst til breyttra starfshátta í anda „sjálfbærs gagnsæis“ sem boðað hefur verið af hálfu meirihluta Besta flokks og Samfylkingar. Sömuleiðis skal minnt á nýja og breytta stefnu Landsvirkjunar sem Orkuveitan ætti að taka sér til fyrirmyndar. Þar er stefnt að samfélagslega ábyrgari viðskiptaháttum en áður hafa tíðkast, þar sem meðal annars er miðað að því að upplýsa um orkuverð.

Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur alla tíð talað fyrir gagnsæi sem forsendu sanngjarnra viðskiptahátta. Orkuveita Reykjavíkur er í eigu borgarbúa sem eiga skýlausa kröfu um upplýsingar af þessum toga til að geta metið gildi og gæði samningsins. Sem fulltrúi Reykvíkinga í stjórn fyrirtækisins neitar undirrituð að taka við upplýsingum sem ætlast er til að haldið verði leyndum fyrir borgarbúum – en varða hagsmuni þeirra með ríkum hætti. Að því sögðu víkur fulltrúi Vinstri grænna af fundi og tekur ekki þátt í afgreiðslu samningsins.

Forstjóri lagði fram og Jakob S. Friðriksson formaður samninganefndar OR og Jóhannes Karl Sveinsson, hrl., kynntu drög að samningi Orkuveitu Reykjavíkur og Geogreenhouse um sölu á raforku, heitu og köldu vatni til ylræktarvers á Hellisheiði.

Eftirfarandi tillaga lögð fram, tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur heimilar forstjóra að undirrita samning við Geogreenhouse um sölu á raforku, heitu og köldu vatni, (Power Heat and Water Purchase Agreement ) dags. í dag.

Samþykkt með 5 atkvæðum. Stjórn óskar þess að við kynningu á verkefninu verði arðsemi samningsins fyrir Orkuveitu Reykjavíkur kynnt.

 

Kjartan Magnússon óskar bókað: Undirritaður samþykkir tillöguna enda er hún í góðu samræmi við eftirfarandi stefnumörkun fyrrverandi meirihluta stjórnar Orkuveitunnar frá 13. marz 2008: ,,Meirihluti stjórnar OR telur tímabært að huga að fjölbreyttari kostum í heildsölu á raforku til stórkaupenda, ekki síst á grundvelli áhættudreifingar í rekstri og með tilliti til umhverfissjónarmiða."

 

4.      Lögð fram áhættustefna Orkuveitu Reykjavíkur. Umræður. Frestað og óskað formlegra umsagnar rýnihóps eigenda.

5.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, lagði fram og kynnti drög að áhættuskýrslu, dags. 31. 10. 2011, ásamt Óskari Haraldssyni frá Summu. Umræður.

6.      Lögð fram svohljóðandi tillaga um lánalínur:

 Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra eða framkvæmdastjóra fjármála eða forstöðumanni fjár- og áhættustýringar að ganga til samninga og undirrita samninga og önnur nauðsynleg skjöl um yfirdráttarlán á veltureikningum, viðskiptasamninga við íslenskar fjármálastofnanir um lánalínur, rekstrarlánasamninga og veltilánalínur allt að fjárhæð 8 milljarðar króna.

Heimildin nær einnig til undirritunar allra annarra skjala er ráðstafanir þessar kalla á. Heimildin gildir til 31. desember 2012.

Samþykkt.

7.      Ingvar Stefánsson, Rannveig Tanya Kristinsdóttir og Hlynur Sigurðsson endurskoðandi, kynntu drög að 9 mánaða uppgjöri. Umræður.

8.      Sala eigna.

·        Úlfljótsvatn. Lögð fram og kynnt svohljóðandi tillaga varðandi sölu á jörðinni Úlfljótsvatni, ásamt kauptilboði Skátahreyfingarinnar og Skógræktarfélags Íslands:

Í ljósi langrar sögulegrar hefðar fyrir nýtingu Úlfljótsvatns og þess að jörðin verði áfram nýtt í almannaþágu samþykkir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fyrir sitt leyti að heimila forstjóra að taka tilboði Skátahreyfingarinnar og Skógræktarfélags Íslands í jörðina Úlfljótsvatn ásamt bæjarhúsum, eins og eigninni er lýst í meðfylgjandi greinargerð og tilboði. Heimildin nær einnig til frágangs nauðsynlegra skjala. Samþykkt þessi er með þeim fyrirvara að borgarráð Reykjavíkur geri ekki athugasemdir við gjörninginn.

Samþykkt.

Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga Kjartans Magnússonar frá fundi 162 um Úlfljótsvatn.  Tillögunni fylgir greinargerð.

 

Í tilefni þess að 100 ár eru um þessar mundir liðin frá upphafi skipulagðs skátastarfs á Íslandi og 70 ár frá upphafi skátastarfs að Úlfljótsvatni, samþykkir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að kanna hvort skátahreyfingin hafi áhuga á að fá Úlfljótsvatnsbýlið undir starfsemi sína. Með skátahreyfingunni er átt við Skátasamband Reykjavíkur og Bandalag íslenskra skáta. Jafnframt verði tryggt að það svæði, sem skátahreyfingin nýtir að Úlfljótsvatni í þágu starfsemi sinnar og almannaheilla, verði ekki selt til þriðja aðila á almennum markaði.

 

·        HS veitur. Lögð fram svohljóðandi tillaga. Tillögunni fylgir greinargerð.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra að setja hlutabréf í HS Veitum í söluferli.

Samþykkt með 5 atkvæðum. Sóleyjar Tómasdóttur situr hjá og óskar bókað: Fulltrúi Vinstri grænna ítrekar mikilvægi þess að veitustarfsemi sé á hendi hins opinbera og mun ekki fallast á að selja hlutinn til einkaaðila. Þar sem ekkert liggur fyrir um mögulega kaupendur, og ekki útilokað að tilboð berist frá opinberum aðilum situr fulltrúinn hjá við afgreiðslu málins.

 

·        Perlan. Stjórnarformaður gerði grein fyrir stöðu mála.

9.      Lögð fram svohljóðandi tillaga um sölu hlutafjár í Metani hf. Tillögunni fylgir greinargerð. Einnig var farið yfir umfjöllun um forsendur sölu Metans hf., sem fram koma í skýrslu forstjóra frá SF 157, 1. júní sl.:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra að selja hlutafé Orkuveitu Reykjavíkur í Metan hf. Þá samþykkir stjórnin fyrir sitt leiti að hlutafé REI í sama félagi verði einnig selt.

Samþykkt og þess óskað að á næsta fundi verði lagt fram minnisblað um stöðu Metans hf., sbr. upplýsingar í skýrslu forstjóra frá SF157.

10.  Lagðar fram svohljóðandi tillögur að breytingum á starfsreglum stjórnar, varðandi endurskoðunarnefnd:

 Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir eftirfarandi breytingar á starfsreglum stjórnar:

1. Út úr grein 3.1 fellur eftirfarandi setning:

Stjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með reikningshaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins.

2. Inn í starfsreglurnar kemur ný grein, merkt, 3.4, sem hljóðar svo:

Stjórn skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með reikningshaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Til að sinna þessu hlutverki er starfandi endurskoðunarnefnd á vegum stjórnar Orkuveitunnar.

Skipan endurskoðunarefndar er með þeim hætti að einn endurskoðunarnefndarmaður er stjórnarmaður í Orkuveitunni og tveir endurskoðunarnefndarmenn eru ekki í stjórn Orkuveitunnar.

Skipan stjórnarmanns í endurskoðunarefndina skal samþykkt með meirihluta atkvæða.

Skipan tveggja manna í endurskoðunarnefndina, sem ekki eru í stjórn Orkuveitunnar, skal samþykkt samhljóða.

Starfsreglur endurskoðunarnefndar eru hluti af starfsreglum þessum.

3. Inn í starfsreglurnar kemur ný grein, merkt 6.4, í stað neðanmálsgreinar i, sem fellur út:

Enn fremur er innri endurskoðanda heimilt að sitja stjórnarfundi og hefur þar málfrelsi, nema að stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum.

4. Starfsreglur endurskoðunarnefndar, eins og þær voru lagðar fyrir 161. stjórnarfund eru samþykktar.

Frestað.

 

11.  Lagt fram bréf bæjarstjóra Hveragerðis til stjórnar, dags. 26.10.2011, varðandi niðurdælingu affallsvatns við Húsmúla.

12.  Lögð fram svohljóðandi tillaga um lokun kyndistöðvar á Bæjarhálsi. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að rekstri kyndistöðvar að Bæjarhálsi verði hætt og starfsleyfi stöðvarinnar skilað. Samþykkt.

13.  Gagnaveita Reykjavíkur, birting upplýsinga. Kynning og afgreiðsla tillögu KM. Frestað.

14.  Birting nafna umsækjenda um stjórnunarstöður. Tillaga KM. Frestað.

15.  Ráðning framkvæmdastjóra fjármála – greinargerð forstjóra. Frestað.

16.  Uppsagnir í tengslum við skipulagsbreytingar – greinargerð forstjóra. Frestað.

17.  Lagt fram erindi borgarstjórans í Reykjavík, dags. 2. nóvember 2011 um kjör Gísla Marteins Baldurssonar sem varamanns í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í stað Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur.

18.  Önnur mál.

1)      Innri endurskoðandi lagði fram minnisblað um greiningu á frávikum í starfsemi innri endurskoðunar frá stöðlum Alþjóðasamtaka innri endurskoðenda. Greiningin er hluti af umbótaverkefni í stjórnarháttum Orkuveitunnar, sbr. minnisblað innri endurskoðanda frá 17. maí 2011 um stjórnarhætti fyrirtækisins og tengd efni.

 

 

Fleira gerðist ekki.  Fundi slitið kl. 12:40.

 

Haraldur Flosi Tryggvason,

Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon,

Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.