Fundargerð stjórnar #162

 

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, föstudaginn 21. október kl. 9:00 var haldinn 162. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon, Jóhann Ársælsson, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

1.      Fundargerð 161. fundar stjórnar lögð fram.

2.      Forstjóri lagði fram og greindi frá skýrslu sinni um það sem hæst hefur borið í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur frá 161. fundi stjórnar. Umræður.

3.      Áhættuvarnir. Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála og Yngvi Harðarson frá Analytica, kynntu efni samnings við ING. Samningurinn lagður fram ásamt minnisblaði um helstu efnisatriði hans.

Samningurinn samþykktur með 5 atkvæðum. Jóhann Ársælsson situr hjá.

4.      Lán frá Lánasjóði sveitarfélaga. Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, lagði fram og kynnti eftirfarandi tillögu. Tillögunni fylgir greinargerð.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra og/eða framkvæmdastjóra fjármála að ganga frá og undirrita lánasamninga við LS allt að fjárhæð kr. 1.600.000.000 og allt að fjárhæð EUR 10.000.000 (um kr. 1.600.000.000 á gengi dagsins) vegna ABK verkefna(fráveituverkefni, Akranes, Borgarbyggð og Kjalarnes), sbr. meðfylgjandi greinargerð. Lánið er með veði í tekjum eigenda og því háð samþykki þeirra.

Samþykkt með 5 atkvæðum.

Sóley Tómasdóttir situr hjá og óskar bókað:

Vegna skamms fyrirvara situr fulltrúinn hjá en mun taka afstöðu á síðari stigum.

5.      Sala eigna.

Lögð fram svohljóðandi tillaga varðandi sölu á hlutabréfum í HS-Veitum, tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra að setja hlutabréf í HS Veitum í söluferli. Frestað til næsta fundar.

Staða mála varðandi sölu á Perlunni kynnt. Tilboðsfrestur rann út 18. október sl. Umræður.  Forstjóra falið að vinna áfram að málinu.

6.      Skipting OR um næstu áramót. Eiríkur Hjálmarsson og Hlynur Sigurðsson kynntu stöðu mála varðandi undirbúning lögboðinnar uppskiptingar Orkuveitu Reykjavíkur. Umræður.

7.      Rammaáætlun.

Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri, kynnti drög að umsögn Orkuveitu Reykjavíkur um drög að þingsályktunartillögu um áætlun um verndun og orkunýtingu landsvæða (Rammaáætlun).

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna gerir alvarlegar athugasemdir við verklag og efni umsagnar fyrirtækisins vegna þingsályktunartillögu um áætlun um verndun og orkunýtingu landssvæða. Það er með öllu óásættanlegt að umsagnir við lagafrumvörp séu unnar og sendar af hálfu stjórnenda fyrirtækisins án aðkomu og samþykkis stjórnar. Umsögn um rammaáætlun er stórpólitískt og stefnumótandi viðfangsefni og á ekki að vera í höndum starfsfólks Orkuveitunnar, enda ber því að vinna í samræmi við stefnu og áherslur stjórnar hverju sinni.

Skipulagsstofnun hefur kveðið skýrt á um að bygging Bitruvirkjunar myndi hafa veruleg neikvæð og óafturkræf áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Í kjölfar þess álits var ákveðið í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að hætta við framkvæmdir á svæðinu og stendur sú ákvörðun enn. Ekkert bendir til þess að framkvæmdir framtíðarinnar myndu hafa minni áhrif og ekkert bendir til þess að stórbrotið landslag á svæðinu komi til með hafa minna gildi sem ósnortið til framtíðar.

Það er því ómögulegt að fallast á tillögu um að Bitra verði færð úr verndarflokki í biðflokk. Þvert á móti ætti að fara fram á að gengið yrði lengra í verndun Hengilssvæðisins. Má þar helst nefna Innstadal sem er ómetanlegt náttúrusvæði og ætti helst heima með Bitru í verndarflokki.

Fulltrúi Vinstri grænna áréttar að umsögn sú sem hér hefur verið lögð fram er ekki unnin með vilja allrar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og fer fram á að bókun þessi verði send með umsögninni.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ítrekar að engin áform eru að svo stöddu um byggingu Bitruvirkjunar.

8.      Orkuskólinn Reyst.

Edda Lilja Sveinsdóttir lagði fram og kynnti upplýsingar um kaup og sölu hluta í Reyst, sem óskað var eftir á 161. fundi. Svohljóðandi tillaga lögð fram að nýju:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur veitir forstjóra heimild til að undirrita kaupsamning vegna kaupa á hálfum hlut Háskóla Íslands í Orkuskólanum Reyst hf. eða 16.66% hlutafjár í skólanum. Kaupverð hins keypta er kr. 1.

Jafnframt veitir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur forstjóra heimild til að selja Íslenskum Orkurannsóknum 5% hlut í Orkuskólanum Reyst hf. fyrir 1 kr.

Samþykkt með 5 atkvæðum. Brynhildur Davíðsdóttir situr hjá.

9.      Endurskoðunarnefnd.

Lögð fram eftirfarandi tillaga um skipan í endurskoðunarnefnd:

Skipan tveggja endurskoðunarnefndarmanna í endurskoðunarnefndina, sem ekki eru í stjórn Orkuveitunnar, skal samþykkt samhljóða.

Samþykkt.

10.  Lokun kyndistöðvar á Bæjarhálsi. Forstjóri lagði fram og kynnti svohljóðandi tillögu. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að rekstri kyndistöðvar að Bæjarhálsi verði hætt og starfsleyfi stöðvarinnar skilað.

Frestað.

11.  Gagnaveita Reykjavíkur, birting upplýsinga.  Birgir Rafn Þráinsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur lagði fram upplýsingar, sem óskað var eftir á 161. fundi í tengslum við tillögu Kjartans Magnússonar um aðgang að upplýsingum um lán Landsbanka Íslands til Gagnaveitu Reykjavíkur.

Frestað.

12.  Lögð fram svohljóðandi tillaga Kjartans Magnússonar um Úlfljótsvatn, sem frestað var á 161. fundi. Tillögunni fylgir greinargerð.

Í tilefni þess að 100 ár eru um þessar mundir liðin frá upphafi skipulagðs skátastarfs á Íslandi og 70 ár frá upphafi skátastarfs að Úlfljótsvatni, samþykkir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að kanna hvort skátahreyfingin hafi áhuga á að fá Úlfljótsvatnsbýlið undir starfsemi sína. Með skátahreyfingunni er átt við Skátasamband Reykjavíkur og Bandalag íslenskra skáta. Jafnframt verði tryggt að það svæði, sem skátahreyfingin nýtir að Úlfljótsvatni í þágu starfsemi sinnar og almannaheilla, verði ekki selt til þriðja aðila á almennum markaði.

Frestað og forstjóra falið að skoða málið og gefa stjórn yfirlit yfir óseldar eignir, þ.m.t. Úlfljótsvatn.

13.   Lögð fram svohljóðandi tillaga Kjartans Magnússonar, sem frestað var á 161. fundi:

Lagt er til að stjórnarmenn Orkuveitu Reykjavíkur fái í hendur lista með nöfnum umsækjenda um starf framkvæmdastjóra fjármála félagsins eins og óskað var eftir á stjórnarfundi fyrir rúmum fjórum mánuðum eða 20. maí sl.

Frestað.

14.  Forstjóri lagði fram greinargerð um ráðningu framkvæmdastjóra fjármála.

Frestað.

15.  Uppsagnir í tengslum við skipulagsbreytingar – greinargerð forstjóra.

Frestað.

16.  Önnur mál.

·         Umræður um uppsagnir sem urðu sl. mánaðamót.

 

Fleira gerðist ekki.  Fundi slitið kl. 13:10.

 

Haraldur Flosi Tryggvason,

Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon,

Jóhann Ársælsson, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.