Fundargerð stjórnar #161

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, föstudaginn 23. september kl. 13:00 var haldinn 161. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Gylfi Magnússon, Brynhildur Davíðsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

1.      Fundargerð 160. fundar stjórnar lögð fram.

2.      Forstjóri lagði fram og greindi frá skýrsla sinni um það sem hæst hefur borið í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur frá 160. fundi stjórnar.

3.      Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála, kom á fundinn og kynnti skýrslu um framvindu aðgerðaáætlunar Orkuveitu Reykjavíkur og eigenda. Umræður.

4.      Ingvar Stefánsson kynnti drög að áhættustefnu fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, ásamt Óskari Haraldssyni frá Summu. Umræður.

5.      Ingvar Stefánsson, ásamt Höskuldi Hlynssyni og Yngva Harðarsyni frá Analytica, kynnti svohljóðandi tillögu um áhættuvarnir í áli og vöxtum:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra og framkvæmdastjóra fjármála að gera framvirkan álverðssamning og vaxtaskiptasamning (ISDA rammasamning).

Ennfremur er samþykkt að heimila forstjóra og framkvæmdastjóra fjármála að undirrita slíkan samning ásamt öllum nauðsynlegum skjölum sem tilheyra slíkum samningi með fyrirvara um endanlegt samþykki stjórnar.

Samþykkt.

6.      Helga Harðardóttir, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG mætti á fundinn og kynnti tillögur innri endurskoðanda um endurskoðunarnefnd og starfsreglur stjórnar.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að endurskoðunarnefnd verði skipuð á næsta fundi stjórnar. Stjórnarformaður geri tillögu að tilnefningu í samráði við aðra stjórnarmenn á milli funda.

Kjartan Magnússon vék af fundi kl 12:00.

7.      Hjördís Sigursteinsdóttir, Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri mætti á fundinn og kynnt rannsókn á launum hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Umræður.

Stjórn felur forstjóra að móta tillögur um hvernig brugðist verði við staðfestum kynbundnum launamun innan fyrirtækisins. Hann kynni hið fyrsta fyrir stjórn tillögur um hvernig kynbundnum launamun verði útrýmt.

8.      Lögð fram tillaga að fundadagatali stjórnar. Samþykkt.

 

Klukkan 13 var fundi frestað til kl 20:00 mánudaginn 26. september 2011.

 

9.      Sala eigna. Lagt fram og undirritað umboð til forstjóra til að ganga frá skjölum vegna sölu þeirra eigna sem stjórn hefur samþykkt að skuli seldar. Jafnframt lagt fram og undirrituð heimild til forstjóra vegna veðleyfis fyrir almannavarnaskýli í Mosfellsdal, sem selt var að fenginni heimild stjórnar á fundi nr. 156.

Hálfdan Gunnarsson, sviðsstjóri aðfanga- og samningastjórnunar mætti á fundinn og gerði grein fyrir tillögum varðandi sölu eigna. Lögð var fram svohljóðandi tillaga, ásamt greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur veitir forstjóra heimild til að samþykkja hæstu kauptilboð ásamt því að undirrita kaupsamninga, skilyrt veðleyfi og önnur nauðsynleg skjöl tengd sölu á eftirfarandi eignum:

·               Hótel Hengill, fastanúmer 222-4985, landnúmer 209139. Samþykkt.

·                Hvammur og Hvammsvík, landnúmer 126107, 126106, 126108, í heild ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber. Samþykkt.

·                Rafstöðvarvegur 9, fastanúmer 2044091, landnúmer 217467. Samþykkt með 5 atkvæðum. Sóley Tómasdóttir situr hjá og óskar bókað: Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur getur ekki fallist á að selja fasteign við Rafstöðvarveg 9 undir skrifstofu- og atvinnustarfsemi. Fasteignin er á viðkvæmu svæði og fyrirhuguð notkun væntanlegra eigenda samræmist ekki núverandi skipulagi. Fulltrúinn telur ótækt að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykki söluna með fyrirvara um breytt skipulag og setji þannig þrýsting á breytta landnotkun á svæðinu.

 

Í tengslum við sölu á Hvammi og Hvammsvík var einnig lögð var fram svohljóðandi tillaga:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur veitir forstjóra heimild til að kaupa og undirrita kaupsamning á landspildu, sem auðkennd er hjá Fasteignaskrá Íslands með landnúmeri 126108 og sumarbústað sem á spildunni stendur og auðkenndur er hjá Fasteignaskrá Íslands með fastanúmeri 208-6116.  Samþykkt.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga varðandi vatnsveitu í Bæjarsveit. Tillögunni fylgir greinargerð og uppdráttur:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra að undirrita viðauka við samning um kaup og rekstur Vatnsveitu Borgarfjarðarsveitar varðandi yfirtöku Borgarbyggðar á rekstri, réttindum, skyldum, gögnum og gæðum vatnsveitu Bæjarsveitar. Samþykkt.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga varðandi Orkuskólann Reyst hf.:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur veitir forstjóra heimild til að undirrita kaupsamning vegna kaupa á hálfum hlut Háskóla Íslands í Orkuskólanum Reyst hf. eða 16.66% hlutafjár í skólanum. Kaupverð hins keypta er kr. 1.

Jafnframt veitir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur forstjóra heimild til að selja Íslenskum Orkurannsóknum 5% hlut í Orkuskólanum Reyst hf. fyrir 1 kr.

Frestað og óskað kynningar á starfsemi Orkuskólans Reyst á næsta stjórnarfundi .

 

10.  Lagt fram minnisblað Elínar Smáradóttur hdl., dags. 23. september 2011, sem óskað var eftir á 160. fundi vegna tillögu Kjartans Magnússonar og Júlíusar Vífils Ingvarssonar varðandi aðgang að upplýsingum um lán Landsbanka Íslands til Gagnaveitu Reykjavíkur. Frestað og óskað frekari upplýsinga frá Gagnaveitu Reykjavíkur.

11.  Önnur mál:

a.       Lagt fram yfirlit um starfsemi REI. Hálfdan Gunnarsson kynnti og svaraði spurningum. Umræður.

b.      Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi, lagði fram og kynnti álit sitt, dags. 31. maí 2011, varðandi birtingu nafna umsækjenda um starf framkvæmdastjóra fjármála sem frestað var á 159. fundi. Kjartan Magnússon leggur fram eftirfarandi tillögu:

Lagt er til að stjórnarmenn Orkuveitu Reykjavíkur fái í hendur lista með nöfnum umsækjenda um starf framkvæmdastjóra fjármála félagsins eins og óskað var eftir á stjórnarfundi fyrir rúmum fjórum mánuðum eða 20. maí sl.  Frestað.

c.       Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri mætti á fundinn og kynnti framlagt minnisblað um væntanlega umsögn Orkuveitu Reykjavíkur um drög að þingsályktunartillögu um áætlun um verndun og orkunýtingu landsvæða. Umræður. Tillaga að umsögn verði kynnt stjórn á næsta fundi.

d.      Jakob Sigurður Friðriksson mætti á fundinn og kynnti framlagt minnisblað um ylræktarver á Hellisheiði.

e.       Lögð fram svohljóðandi tillaga Kjartans Magnússonar. Tillögunni fylgir greinargerð:

Í tilefni þess að 100 ár eru um þessar mundir liðin frá upphafi skipulagðs skátastarfs á Íslandi og 70 ár frá upphafi skátastarfs að Úlfljótsvatni, samþykkir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að kanna hvort skátahreyfingin hafi áhuga á að fá Úlfljótsvatnsbýlið undir starfsemi sína. Með skátahreyfingunni er átt við Skátasamband Reykjavíkur og Bandalag íslenskra skáta. Jafnframt verði tryggt að það svæði, sem skátahreyfingin nýtir að Úlfljótsvatni í þágu starfsemi sinnar og almannaheilla, verði ekki selt til þriðja aðila á almennum markaði. Frestað.

 

 

Fleira gerðist ekki.  Fundi slitið kl. 22:50.

 

 

Haraldur Flosi Tryggvason,

Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon,

Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.