Fundargerð stjórnar #159

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, föstudaginn 12. ágúst kl. 9:00 var haldinn 159. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Gylfi Magnússon, Brynhildur Davíðsdóttir, Jóhann Ársælsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason forstjóri.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð 158. fundar stjórnar lögð fram og staðfest.

2.      Nýr öryggisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Hildur Ingvarsdóttir, mætti á fundinn og kynnti öryggis-, heilsu-, og vinnuumhverfismál fyrirtækisins.

3.      Umboð vegna láns frá Landsbanka Íslands lagt fram og undirritað.

4.      Stjórn samþykkti að veita Ingvari Stefánssyni framkvæmdastjóra fjármála prókúruumboð og fella um leið úr gildi prókúruumboð Inga Jóhannesar Erlingssonar.

5.      Bréf Borgarbyggðar, dags. 8. júlí 2011 varðandi skipan áheyrnarfulltrúa Borgarbyggðar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, Björns Bjarka Þorsteinssonar, lagt fram og kynnt.

6.      Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu til stjórnar um starfsemi fyrirtækisins frá síðasta stjórnarfundi.  Umræður.

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur telur óásættanlegt að framkvæmdastjórn fyrirtækisins sé skipuð fjórum körlum og einni konu. Fyrirtækið er í eigu þriggja sveitarfélaga og þjónustar íbúa þeirra, bæði karla og konur. Því er nauðsynlegt að kynjasjónarmið séu höfð að leiðarljósi í stefnumörkun og allri ákvarðanatöku, en hætt er við að þau verði undir þegar kynjahlutföll eru jafn ójöfn og raun ber vitni.

7.      Drög að 6 mánaða uppgjöri lagt fram.  Rannveig Tanya Kristinsdóttir, Ingi Jóhannes Erlingsson og Bjarni Freyr Bjarnason mættu á fundinn.  Forstjóri og Rannveig Tanya kynntu drögin.  Umræður.  

Forstjóri lagði einnig fram skýrslu um fjárfestingar veitna janúar-júní 2011.

8.    Svohljóðandi tillaga Sóleyjar Tómasdóttur um umsagnir um lagafrumvörp lögð fram:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur telur brýnt að umsagnir fyrirtækisins um lagafrumvörp verði framvegis lögð fyrir stjórn til samþykktar.  Lagasetning er alltaf af pólitískum toga og því óhjákvæmilegt að stjórn fyrirtækisins sem fer með hlutverk stefnumótunaraðila sé upplýst um umsagnir og hafi möguleika á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri sem slík.  Reynist ekki unnt að leggja umsagnirnar fyrir á formlegum fundum verður að veita upplýsingar um málið og gefa fulltrúum í stjórn kost á að gera athugasemdir með rafrænum hætti milli funda.

Samþykkt að vísa málinu inn í umfjöllun um starfsreglur stjórnar, sbr. 10. dagskrárlið. Þar til niðurstaða liggur fyrir um þær skulu umsagnir um lagafrumvörp kynntar stjórn.

9.      Skúli Skúlason, framkvæmdastjóri þjónustu, mætti á fundinn og kynnti eftirfarandi tillögu um aðlögun innheimtu- og lokunarkostnaðar að raunkostnaði.  Einnig kynnt greinargerð um innheimtumál.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykktir neðangreinda breytingu á gjaldskrá:

Lokunargjald verði 7.968 kr. auk virðisaukaskatts, samtals 10.000 kr.

Tekið verði upp gjald vegna lokunartilkynninga, 398 kr. auk virðisaukaskatts, samtals 500 kr.

Hafnað.

10.  Lagðar fram tillögur innri endurskoðanda um endurskoðunarnefnd og starfsreglur stjórnar.

Frestað.

11.  Forstjóri lagði fram og kynnti minnisblað um losun brennisteinsvetnis frá virkjunum, dags. 22. júlí 2011, sem svar við fyrirspurn Sóleyjar Tómasdóttur á SF 156.

12.  Önnur mál.

a.      Sóley Tómasdóttir lagði fram svohljóðandi tillögu:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að láta framkvæma úttekt á kynbundnum launamun hjá fyrirtækinu.  Innri endurskoðanda er falið að fá til þess þar til gerða utanaðkomandi sérfræðinga og leggja tillögur um framkvæmd og kostnað fyrir stjórn á næsta fundi.  Niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en 1. febrúar 2012.

Samþykkt.

b.      Lagt fram og kynnt minnisblað Elínar Smáradóttur, dags. 9. ágúst 2011, varðandi athugun ESA á láni eigenda til OR í tengslum við aðgerðaráætlun um fjármögnun fyrirtækisins.

c.       Forstjóri lagði fram og kynnti yfirlit yfir stöðu eignasölu, dags. 8. ágúst 2011. Umræður.

d.      Lagt fram og kynnt minnisblað Elínar Smáradóttur, dags. 9. ágúst 2011 um nýlega úrskurði og dóma varðandi upplýsingalög, fráveitugjöld, Ístak, Altak og Félagsdóm.  Umræður.

e.       Lagt fram minnisblað innri endurskoðanda, dags. 31. maí 2011, um birtingu nafna umsækjenda um starf framkvæmdastjóra fjármála.

Frestað.

f.       Lagt fram erindi innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar, dags. 31. maí 2011, varðandi skoðun á ferli vegna ráðningar forstjóra OR.  Formaður stjórnar kynnti niðurstöðu skoðunarinnar.  Umræður.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Álit Innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar vegna ráðningar forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur er áfellisdómur yfir vinnubrögðum meirihluta stjórnar fyrirtækisins.  Í álitinu kemur skýrt fram að vinnubrögðum meirihlutans í umræddu ráðningarferli var stórlega ábótavant og ljóst er að ekki stendur steinn yfir steini í fyrri fullyrðingum hans um að ferlið hafi verið faglegt og gagnsætt.  Álitið er enn ein staðfesting á að þær breytingar á verklagi, sem meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur innleitt, hafa ekki orðið til að styrkja stjórnun fyrirtækisins heldur veikja hana.  Sérstaklega er fundið að fundargerðum stjórnar og frágangi þeirra en samkvæmt lögum og reglum er það eitt helsta hlutverk stjórnarformanns að sjá til þess að haldin sé skilmerkileg gerðabók um ákvarðanir stjórnar og það, sem gerist á stjórnarfundum.  Er ljóst að þessi mál færðust mjög til verri vegar undir stjórn nýs meirihluta þrátt fyrir að stjórnarformaður væri ráðinn í fullt starf og laun hans margfölduð frá því sem áður var.

Um þá fullyrðingu meirihluta stjórnar OR að á fundi 19. nóvember sl. hafi stjórnin samþykkt ráðningarferli og skipað hæfisnefnd, segir Innri endurskoðandi að slíkt verði hvorki ráðið af fundargerð fundarins né öðrum gögnum.  Svokölluð hæfisnefnd tók því til starfa án formlegrar ákvörðunar stjórnar og starfaði án formlegs umboðs til 24. janúar þegar skipun hennar var formgerð á stjórnarfundi eftir að alvarlegar athugasemdir höfðu verið gerðar við vinnubrögð meirihlutans í málinu.  Er óskað eftir því að rangar fullyrðingar um ráðningarferlið, sem settar voru inn á heimasíðu OR 8. febrúar sl., verði leiðréttar sem fyrst.

Innri endurskoðandi segir að þau vinnubrögð, að láta starfandi forstjóra OR taka sæti í hæfisnefnd til að meta væntanlegan arftaka sinn, séu ,,mjög óvenjuleg“ og að nær óþekkt sé ,,að fráfarandi forstjóri hlutist þannig til um eða komi að hæfismati á umsækjendum, sem sækja um forstjórastarf.“ Fyrst meirihluti stjórnar kaus að fara þessa óvenjulegu leið er afar ámælisvert að ekki var gengið frá þessari aðkomu sitjandi forstjóra fyrirfram með formlegri samþykkt stjórnar, heldur eftir á eins og meirihlutinn gerði.

Í starfsreglum stjórnar OR segir að nauðsynlegt sé að allar samþykktir, sem gerðar eru, séu örugglega skráðar í fundargerð.  Í áliti innri endurskoðanda kemur fram að alvarlegur misbrestur hafi orðið á þessu í umræddu ráðningarferli og álítur hann að nauðsynlegt sé ,,að skerpa á ritun fundargerða svo að þær beri með sér hvaða ákvarðanir eru teknar á stjórnarfundum.  Fundargerðir framan af ferlinu bera ekki með sér að ráðningarferlið hafi verið samþykkt, hvort hæfisnefnd hafi verið veitt umboð eða hvort skipun hæfisnefndar hafi verið samþykkt.“ Segir að fundarritun stjórnarfunda hafi ekki verið í samræmi við starfsreglur eða góða venju þar um.

g.      Fundadagatal stjórnar.  Forstjóri mun leggja fram endurskoðað fundadagatal á næsta fundi.

Fleira gerðist ekki.  Næsti fundur ákveðinn 26. ágúst 2011 kl. 9:00.

Fundi slitið kl. 12:15.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Gylfi Magnússon,

Jóhann Ársælsson, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.