Fundargerð stjórnar #156

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, föstudaginn 20. maí kl. 9:00 var haldinn 156. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Elín Blöndal, Jóhann Ársælsson, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sátu fundinn Bjarni Bjarnason forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson innri endurskoðandi OR.

Fundarritari var Eiríkur Hjálmarsson.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð 155. fundar stjórnar lögð fram og staðfest.

2.      Lagt fram minnisblað forstjóra um starfsemina dags. 17.5.2011.

Forstjóri gerði grein fyrir minnisblaðinu.  Umræður.

Kjartan Magnússon óskaði bókað:

Óskað er eftir því að stjórn fái upplýsingar um umsækjendur stöðu framkvæmdastjóra fjármála OR. Frá því fyrrverandi framkvæmdastjóra fjármála var sagt upp fyrir fjórum mánuðum, hefur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagt þunga áherslu á að í starfið veldist einstaklingur með mikla kunnáttu í fjármögnun fyrirtækja og hefði helst alþjóðlega reynslu á því sviði enda er Orkuveitan að miklu leyti fjármögnuð á alþjóðlegum lánamarkaði. Við ráðningu núverandi forstjóra var um það rætt að mikilvægt væri að auka verulega kunnáttu á áðurnefndu sviði innan fyrirtækisins.

Vegna þeirrar vinnu, sem nú á sér stað innan fyrirtækisins vegna hugsanlegs vatnsútflutnings í tankskipum, telur undirritaður rétt að jafnræðis verði gætt gagnvart þeim íslensku aðilum, sem sett hafa sig í samband við Orkuveituna vegna slíkra hugmynda á undanförnum árum.

Unnið er að því að breyta fyrirkomulagi húsnæðismála OR, sem m.a. felur í sér að austurhluti skrifstofuhluta Orkuveituhússins verður rýmdur, með það að markmiði að leigja hann út, og starfsemi þar flutt í vesturhluta hússins. Undirritaður hefur fengið ábendingar frá sérfróðum aðilum um að mun hagkvæmara hefði verið að standa þannig að verkefninu að heilar hæðir í húsinu yrðu rýmdar þannig að eftir breytingar yrði starfsemi OR t.d. á 3-4 heilum hæðum en ekki sex hálfum hæðum. Sem fyrr segir er ætlunin að leigja út það húsnæði sem losnar og liggur í augum uppi að fyrir stóra leigutaka hlýtur að vera ákjósanlegra að leigja heilar hæðir í slíku húsi undir starfsemi sína fremur en hálfar. Svo virðist sem táknrænt gildi fremur en hagkvæmni hafi ráðið þeirri ákvörðun að rýma allan austurhluta hússins fremur en heilar hæðir. Undirritaður telur að standa hefði átt að umræddum breytingum með þeim hætti að hagkvæmni réði þar för en ekki „symbólismi.“

3.      Skipulag OR.

Bjarni Snæbjörn Jónsson, ráðgjafi kom á fundinn og kynnti ásamt forstjóra endurskoðun skipurits. Lögð fram glærukynning á grunni skipurits veitustarfseminnar auk eldri skipurita dags. 19.8.2010 og 1.3.2011.

Umræða.  Afgreiðslu frestað.  Forstjóra falið að leggja fram endanlega tillögu til stjórnar á fundi að hálfum mánuði liðnum.

4.      Ársfjórðungsuppgjör OR.

Lagður fram samandreginn árshlutareikningur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur 1. janúar til 31. mars 2011, dags. í dag.

Hlynur Sigurðsson, lögg. endurskoðandi frá KPMG, Ingi J. Erlingsson, framkvæmdastjóri fjármála og Rannveig Tanya Kristinsdóttir, sviðsstjóri reikningshalds komu á fundinn og gerðu grein fyrir árshlutauppgjörinu.

Björn Bjarki Þorsteinsson vék af fundi kl. 11:20.

Árshlutareikningurinn samþykktur og áritaður af stjórn og forstjóra.

5.      Lögð fram sh. tillaga forstjóra dags. 17.5.2011.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra að undirrita samninga um sölu eftirtalinna eigna, sbr. samþykkt stjórnar OR 15. apríl sl. á tilboðum í eignirnar.

Skemma við Andakílsárvirkjun (söluverð 5,34 mkr.)

Árnes, starfsmannahús við Andakílsárvirkjun (söluverð 16,157 mkr.)

Berserkseyri og Berserkseyri ytri (söluverð 75,0 mkr.)

Almannavarnarskýlið í Mosfellsdal (söluverð 27,2 mkr.)

Jafnframt samþykkir stjórn þá breytingu á verklagi við sölu eigna að með því að stjórn samþykki bindandi kauptilboð í eignir öðlist forstjóri umboð til undirritunar kaupsamninga í samræmi við tilboð.

Samþykkt.

6.      Lögð fram sh. tillaga forstjóra dags. 17.5.2011.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra að hefja undirbúning að sölu Perlunnar og fasteigna við Bæjarháls, sbr. aðgerðaáætlun OR og eigenda frá 23. mars sl.

Samþykkt að heimila forstjóra að hefja undirbúning að sölu fasteigna við Bæjarháls.

Stjórnarformaður óskar bókað:

Óskað er skoðunar á því hvort rétt sé að fá utanaðkomandi fagaðila að eignasölu hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

7.      Önnur mál.

a.       Sóley Tómasdóttir lagði fram fyrirspurn um brennisteinsmengun og óskaði minnisblaðs forstjóra um málið.

b.      Lagt fram erindi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar dags. 18.4.2011.

Vísað til forstjóra.

c.       Forstjóri gerði grein fyrir sölu REI, dótturfélags OR, á hlut þess í Iceland America Energy fyrir hluti í Nevada Geothermal sem nú stendur tæpt.

d.      Forstjóri upplýsti að Háskóli Íslands hefur slitið samstarfi við OR og Háskólann í Reykjavík á vettvangi REYST orkuskólans og að HR hafi tekið við nemendum skólans.

e.       Lagt fram minnisblað Jakobs S. Friðrikssonar framkvæmdastjóra virkjana og sölu, dags. 19.5.2011, til forstjóra um áhrif mistaka Hagstofu Íslands við útgáfu byggingarvísitölu á fjárhagsáætlun OR 2011.

Ákveðið var að gera ekki sérstakan endurreikning á gjaldskrám, sem fylgja árlegum breytingum á vísitölu byggingakostnaðar.

Næsti fundur ákveðinn 3. júní 2011 kl. 9:00.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 12:10.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Elín Blöndal, Jóhann Ársælsson,

Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.