Fundargerð stjórnar #155

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, föstudaginn 15. apríl kl. 9:00 var haldinn 155. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Aðalsteinn Leifsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sátu fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi OR.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð 154. fundar stjórnar lögð fram og staðfest.

2.      Forstjóri lagði fram og kynnti skýrslu forstjóra til stjórnar.  Umræður.

3.      Forstjóri lagði fram og kynnti tillögu sína um skipan samninganefndar vegna orkusölusamninga við stórnotendur.  Umræður.  

Samþykkt með 4 atkvæðum.  Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir sitja hjá.

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitunnar gerir athugasemdir við kynjahlutfall í samninganefnd fyrirtækisins sem í sitja fjórir karlar og ein kona. Nauðsynlegt er að gæta jafnræðis við skipan í svo mikilvægar nefnd, enda kemur hún til með að vinna að hagsmunum beggja kynja. Fulltrúinn situr því hjá við afgreiðslu málsins og skorar á stjórnendur fyrirtækisins að hafa kynjasjónarmið að leiðarljósi í ráðningum og annarri ákvarðanatöku til framtíðar.

4.      Innri endurskoðandi lagði fram og kynnti samantekt gagna vegna rekstrarúttektar stjórnenda frá júlí 2010 og lokaskýrslu vegna málsins ásamt minnisblaði. Umræður. Afgreiðslu málsins frestað til næsta fundar. Stjórnarformaður mun afhenda fulltrúum eigenda samantekt og lokaskýrslu innri endurskoðanda.

5.      Formaður stjórnar lagði fram og kynnti eftirfarandi tillögu:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að fela forstjóra að leiða könnunarviðræður við Landsamtök lífeyrissjóða um hugsanlega aðkomu þeirra að eignarhaldi og/eða fjármögnun Hverahlíðarvirkjunar. Forstjóri skal upplýsa stjórn reglulega um gang viðræðnanna.

Umræður. Sóley Tómasdóttir leggur fram eftirfarandi frestunartillögu:

Þar sem tillagan opnar á eignarhald annarra en íbúa eigendasveitarfélaganna er um stórkostlega stefnubreytingu að ræða. Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir því að boðað verði til eigendafundar hið fyrsta og tillagan tekin til umræðu þar áður en stjórn tekur afstöðu til hennar.

Tillaga Sóleyjar borin upp og felld með 4 atkvæðum gegn 1. Kjartan Magnússon situr hjá.

Haraldur Flosi Tryggvason, Aðalsteinn Leifsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir og Björn Bjarki Þorsteinsson óska bókað:

Við teljum sjálfsagt að halda eigendafund um málið hið fyrsta en leggjum áherslu á að forstjóri fái umboð stjórnar til könnunarviðræðna nú þegar.

Sóley Tómasdóttir gagnbókar:

Það hefur áður og ítrekað komið upp að mikilvægt sé að taka ákvarðanir á gráu svæði gagnvart stjórnsýsluháttum, enda ýmsir hagsmunir taldir vera í húfi. Þess háttar vinnubrögð hafa ítrekað komið stjórnarmönnum, fyrirtækinu og almenningi í koll og eiga sjálfsagt sinn þátt í þeirri stöðu sem nú er verið að glíma við. Það er miður að ný stjórn Orkuveitunnar beiti slíkum vinnubrögðum í stað þess að bæta það sem þarf.

Tillaga formanns stjórnar borin upp og samþykkt með 5 atkvæðum gegn 1.

Sóley Tómasdóttir greiðir atkvæði gegn tillögunni og óskar bókað:

Samþykkt tillögunnar markar miður gleðileg tímamót í sögu Orkuveitu Reykjavíkur, bæði stjórnarháttum og stefnu. Ljóst er að verið er að opna á einkavæðingu á starfsemi fyrirtækisins, og það án þess að umræða hafi farið fram af hálfu eigenda eða í bæjar- og byggðaráðum. Það er óásættanlegt með öllu. Fyrirtækið gegnir mikilvægri grunnþjónustu og á sem slíkt að vera í eigu og lúta forræði almennings eins og lög og fyrri stefnumörkun kveður skýrt á um.

Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur getur ekki heldur fallist á að hefja viðræður við lífeyrissjóðina um fjármögnun Hverahlíðarvirkjunar. Nú er nauðsynlegt að staldra við, læra af reynslunni og rétta kúrsinn frá stóriðjustefnu og útrás þar sem skattfé almennings var varið í óarðbær stóriðjuverkefni og bankainnistæðum í óarðbærar erlendar fjárfestingar.

Þó þegar hafi verið lagðir u.þ.b. 4 milljarðar króna í undirbúning Hverahlíðarvirkjunar er ljóst að hátt á þriðja tug milljarða þarf til að hún verði að veruleika. Orkuveita Reykjavíkur hefur enga burði til að bæta slíkum upphæðum í lánasafn sitt og ekki verður séð að ríkir almannahagsmunir krefjist þess.

Í núverandi stöðu væri ábyrgt, sjálfsagt og eðlilegt að rifta orkusölusamningum við Norðurál á forsendum fyrirvara í þeim um arðsemi og fjármögnun.

6.      Forstjóri lagðir fram og kynnti beiðni kauphallar, Nasdaq OMX um skýringar vegna upplýsingar um fjárhagsstöðu og svarbréf Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 15. apríl 2011. Umræður.

7.      Fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, heimildir til afhendingar. Lagt fram minnisblað Elínar Smáradóttur, dags. 11. apríl 2011, og svohljóðandi tillaga Kjartans Magnússonar, dags. 13. apríl 2011:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að leynd verði aflétt af fundargerðum stjórnar félagsins frá stofnun þess, 1. janúar 1999 til 1. febrúar 2008. Jafnframt verði umræddar fundargerðir gerðar almenningi aðgengilegar á heimasíðu fyrirtækisins.

Afgreiðslu frestað og óskað eftir áliti lögfræðings fyrirtækisins um heimildir stjórnar til að taka ákvarðanir um að aflétta trúnaði af eldri fundargerðum.

Stjórn samþykkir samhljóða að varamenn skuli hafa sama aðgang að gögnum og aðalmenn í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, enda hvíla sömu trúnaðarskyldur á þeim.

8.      Elín Smáradóttir lagði fram og kynnti minnisblað, dags. 13. apríl 2011 um upplýsingar og skýringar til ESA vegna aðgerðaáætlunar OR og eigenda um fjármögnun.

9.      Forstjóri lagði fram og kynnti eftirfarandi tillögur um eignasölu:

·         Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að veita forstjóra heimild til að setja eftirfarandi eignir í söluferli: Aðveitustöð við Austurbæjarskóla, Rafstöðvarveg 9 (Minjasafn OR) ásamt Hvammsvík og Hvammi.

 Samþykkt.

·         Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra að ganga til samninga í samræmi við hæsta boð í Almannavarnaskýlið í Mosfellsdal. Kaupsamningur verði lagður fyrir stjórn í samræmi við verklýsingu VLF-011. Samþykkt.

10.  Sóley Tómasdóttir ítrekar ósk sína um að umsagnir um lagafrumvörp og svar Norðuráls varðandi orkuverð verði tekin á dagskrá stjórnar.

11.  Stjórnarformaður kynnti tillögu að fundadagatali stjórnar 2011-2012, miðað við að stjórnarfundir verði haldnir mánaðarlega.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 11:35.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Aðalsteinn Leifsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir,

 Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.