Fundargerð stjórnar #153

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, miðvikudaginn 23. mars kl. 08:00 var haldinn 153. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn:  Haraldur Flosi Tryggvason, Aðalsteinn Leifsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi OR.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð 152. fundar stjórnar lögð fram og staðfest.

2.      Aðgerðaáætlun OR og eigenda vegna fjárhagsvanda fyrirtækisins ásamt fjárhagsáætlun 2011 og endurskoðuð fimm ára áætlun 2012-2016.

Forstjóri kynnti aðgerðaáætlun og þær breytingar sem orðið hafa á henni frá 152. fundi.

Einar Pálmi Sigmundsson, kynnti minnisblað HF Verðbréfa um breytingar frá samþykktri fjárhagsáætlun OR frá október 2010 til nýrrar áætlunar 1. mars 2011.

Ingi Jóhannes Erlingsson, fjármálastjóri OR, lagði fram og kynnti áætlunina.

Svanbjörn Thoroddsen kynnti yfirferð KPMG á aðgerðaáætlun OR.

Forstjóri lagði fram og kynnti svohljóðandi tillögu að aðgerðaáætlun OR og eigenda vegna fjárhagsvanda fyrirtækisins.  Tillögunni fylgir greinargerð:

Í ljósi fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur og með vísan til samþykktar stjórnar 10. janúar 2011 um samráð við eigendur um fjármögnun fyrirtækisins, samþykkir stjórn að grípa til eftirtalinna aðgerða með það að markmiði að leysa fjárþörf fyrirtækisins og tryggja rekstur þess til framtíðar:

1.             Fresta fjárfestingum um 15 milljarða króna á árabilinu 2011-2016 og lækka aðrar fjárfestingar um 1,3 milljarða króna.

2.             Lækka rekstrarkostnað um 5 milljarða króna á sama árabili.

3.             Auka tekjur samtals um 8 milljarða króna á árabilinu 2011-2016.

4.             Selja eignir fyrir 10 milljarða króna.

5.             Taka víkjandi lán hjá eigendum samtals að fjárhæð 12 milljarðar króna á árunum 2011 og 2013.

Stjórn OR veitir forstjóra umboð, að fengnu samþykki eigenda á áætluninni, til að ráðast í aðgerðir, sbr. meðfylgjandi greinargerð og tillögur.

Stjórn OR óskar eftir því við eigendur Orkuveitu Reykjavíkur; sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð, að

·                áætlunin verði samþykkt,

·                fallið verði frá ákvæðum um gjaldskrá í samningum um uppbyggingu og rekstur fráveitu frá desember 2005,

·                ofangreind lántaka OR verði heimiluð,

·                að heimila lánveitingu sveitarfélaganna í samræmi við eignarhlut hvers þeirra, enda verði rekstraráætlun þeirri sem aðgerðaáætlunin byggir á fylgt, og að

·                framkvæmdastjórar sveitarfélaganna fái umboð til að hrinda aðgerðaáætluninni í framkvæmd, sbr. meðfylgjandi greinargerð.

Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttur leggja fram eftirfarandi tillögu:

Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir óska eftir frestun málsins í ljósi hraðrar málsmeðferðar og ónógrar kynningar gagnvart minnihluta borgarstjórnar. Sá tími, sem stjórnarmönnum hefur verið gefinn til að fara yfir umfangsmikil gögn þessa mikilvæga máls, er of skammur til að ætlast megi til að menn taki upplýsta og rökstudda ákvörðun. Á þessum fundi hafa t.d. verið lögð fram ný gögn í málinu frá HF verðbréfum, sem rétt er að stjórnarmenn rýni áður en ákvörðun verður tekin. Þá hefur verið farið yfir ný gögn frá KPMG á tjaldi og er óskað eftir að stjórnarmenn fái þau í hendur til frekari skoðunar áður en ákvörðun verður tekin. Þá er óskað eftir því að ársreikningur OR fyrir árið 2010 verði kynntur fyrir stjórn áður en fyrirliggjandi aðgerðaáætlun verður samþykkt. Umræddur ársreikningur er grundvallarplagg varðandi rekstur fyrirtækisins og áætlanagerð til næstu ára og því er mikilvægt að stjórnin hafi hann undir höndum áður en afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um rekstur fyrirtækisins til næstu ára.

Tillagan borin undir atkvæði og felld með 4 atkvæðum.

Tillaga forstjóra um aðgerðaáætlun OR og eigenda vegna fjárhagsvanda fyrirtækisins ásamt fjárhagsáætlun 2011 og endurskoðuð fimm ára áætlun 2012-2016 borin upp. Samþykkt með 4 atkvæðum.  Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir sitja hjá.

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Nauðsyn þess að styrkja rekstrarhæfi Orkuveitu Reykjavíkur verður ekki dregin í efa, né heldur mikilvægi þess að eigendur leggi sitt af mörkum til að svo megi verða. Áætlun um slíkt krefst mikils og ítarlegs undirbúnings, ekki aðeins af hálfu stjórnenda, heldur einnig kjörinna fulltrúa. Sú áætlun sem hér liggur fyrir hefur verið unnin með miklum hraði og tekið talsverðum breytingum milli umræðna án þess að stjórnarmenn hafi fengið öll þau gögn sem óskað hefur verið eftir. Sérstaklega er brýnt að þær eignir sem til stendur að selja verði tilgreindar og að sameiginlegur skilningur verði bókaður um almannahlutverk og kjarnastarfsemi fyrirtækisins til framtíðar. Fulltrúi Vinstri grænna getur ekki tekið þátt í þeim asa sem hér er viðhafður og situr því hjá við afgreiðslu málsins.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Margvíslegar ástæður eru fyrir fjárhagsvanda Orkuveitu Reykjavíkur. Skuldavanda fyrirtækisins má ekki síst rekja til skuldbindinga, sem gerðar voru á árunum 2003-2006. Þá var af kappi fremur en forsjá, mörkuð stefna um miklar fjárfestingar í veitustarfsemi, virkjunum og verkefnum utan kjarnastarfsemi, sem voru að miklu leyti fjármagnaðar með lánsfé. Sumar þessar fjárfestingar standa undir sér en aðrar ekki og hafa þær reynst fyrirtækinu þungar í skauti.

Í fyrirliggjandi drögum að áætlun Orkuveitu Reykjavíkur og eigenda hennar vegna fjárhagsvanda fyrirtækisins er gert ráð fyrir margvíslegum aðgerðum í því skyni að leysa endurfjármögnun þess til næstu ára. Áætlunin er lögð fram þar sem ekki hefur tekist að tryggja fjármögnun fyrirtækisins með lántöku á undanförnum mánuðum og miðað við þær aðstæður eiga ýmsar tillögur í fyrirliggjandi áætlunardrögum rétt á sér. Hins vegar getur undirritaður ekki greitt atkvæði með þeim vegna hraðrar málsmeðferðar og ónógrar kynningar gagnvart minnihluta borgarstjórnar. Er óskað eftir að úr því verði bætt áður en endanleg ákvörðun verður tekin um umrædda lánveitingu á vettvangi borgarráðs og borgarstjórnar.

Undirritaður átelur harðlega að ársreikningur Orkuveitunnar fyrir árið 2010 skuli ekki vera kynntur fyrir stjórn fyrirtækisins áður en slík áætlun er samþykkt. Staðfest hefur verið að ársreikningurinn er tilbúinn til kynningar og staðfestingar í stjórn en framlagningu hans hefur verið frestað tvisvar. Er ótrúlegt að framlagning ársreikningsins sé tafin og mikilvægum upplýsingum þannig haldið frá stjórnarmönnum á sama tíma og þess er krafist að þeir samþykki áður viðamikla aðgerðaáætlun í miklum flýti, þar sem afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um rekstur og efnahag fyrirtækisins til næstu ára.

Þegar litið er til einstakra ákvarðana í áætluninni telur undirritaður rétt að fresta fjárfestingum fyrirtækisins og draga úr rekstrarkostnaði eins og aðstæður leyfa á því tímabili, sem áætlunin nær til. Þá er einnig rétt að selja eignir fyrir a.m.k. 10 milljarða króna að því tilskyldu að viðunandi verð fáist. Æskilegt er að Orkuveitan eigi kost á víkjandi láni hjá eigendum á árunum 2011 og 2013 í ljósi nýrra fregna um að erlendir viðskiptabankar hyggist að svo stöddu ekki standa við fyrri áform sín um að styðja við endurfjármögnun Orkuveitunnar á góðum kjörum.

Undirritaður átelur hins vegar harðlega þau vinnubrögð meirihluta stjórnar að samþykkja miklar gjaldskrárhækkanir á almenning vegna fráveitu og hitaveitu áður en umfjöllun um málið hefur átt sér stað hjá eigendum. Ótækt er að taka slíkar ákvarðanir nú þar sem nauðsynlegar upplýsingar um forsendur og afleiðingar slíkra hækkana liggja ekki fyrir.

Lagt fram minnisblað Lex frá 15. mars 2011 um samkeppnisréttarleg álitaefni vegna fyrirhugaðra gjaldskrárhækkana OR á fráveitu og heitu vatni.

Forstjóri lagði fram og kynnti svohljóðandi tillögu um hækkun gjaldskrár fráveitu. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að hækka gjaldskrá fráveitu um 45% frá og með 1. maí næstkomandi og verði gjaldskráin sem hér segir:

Fast gjald
[kr. á matseiningu á ári]

Breytilegt gjald
[kr. á fermetra á ári]

Reykjavík

7.465,37

288,16

Akranes

7.465,37

288,16

Borgarbyggð

9.891,60

381,74

Samþykktin er gerð með fyrirvara um að eigendur fyrirtækisins afsali sér gjaldskrárskuldbindingu þeirri sem felst í samningum um sameiningu fráveitu eigendasveitarfélaganna og OR frá 15. desember 2005.

Jafnframt er felld úr gildi samþykkt stjórnar OR frá 138. stjórnarfundi um innheimtu aukafráveitugjalds.

Tillaga forstjóra um hækkun gjaldskrár fráveitu borin upp. Samþykkt með 4 atkvæðum. Fyrirvari er gerður um að komið verði til móts við íbúa í Borgarbyggð vegna frestana fráveituframkvæmda í sveitarfélaginu. Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir sitja hjá.

Forstjóri lagði fram og kynnti svohljóðandi tillögu um hækkun gjaldskrár hitaveitu. Tillögunni fylgir greinargerð:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að hækka gjaldskrá hitaveitu um 8% frá og með 1. maí næstkomandi. Hækkunin nái hvorki til tengigjalda né jaðarveitna.

Hitaveitugjaldskráin verði sem hér segir:

Taxti

Tegund

Skýring

Verð

Grunnur

H1

Einingarverð

Upphitun

104,34

kr/m3

V1

Einingarverð

Snjóbræðsla

104,34

kr/m3

V2

Einingarverð

Fiskeldi

52,15

kr/m3

V3

Einingarverð

Íþróttavellir, utanhúss.

78,34

kr/m3

V4

Einingarverð

Iðnaðarvatn í framleiðsluferla

52,15

kr/m3

A

Fast verð

A: 15 mm til 20 mm

34,41

kr/dag

B

Fast verð

B: 25 mm til 50 mm

71,88

kr/dag

C

Fast verð

C: 65 mm og stærri

145,67

kr/dag

Snjóbræðsla

SR

Fast verð

437,08

kr/dag

SR1

Lágverð

Mælt þegar útihiti er hærri en – 5°C

52,15

kr/m3

SR2

Háverð

Mælt þegar útihiti er lægri en – 5°C

156,49

kr/m3

SRB

Daggjald

Fyrir hvern m2 snjóbræðsluflatar

0,13

kr/m2

Tillaga forstjóra um hækkun gjaldskrár hitaveitu borin upp. Samþykkt með lögbundnum fyrirvörum með 4 atkvæðum.

Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir sitja hjá.

3.    Ráðningarferli forstjóra.  Lagt fram svar innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar, dags. 21. mars 2011, við beiðni stjórnar OR frá 4. mars 2011, þar sem óskað var skoðunar á ráðningarferli forstjóra.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Undirritaður telur rétt að umsækjendur um starf forstjóra OR verði upplýstir um að innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar hafi til skoðunar umrætt ráðningarferli með tilliti til laga, reglugerða og góðra stjórnsýsluhátta og að þeim verði bent á að hafi þeir athugasemdir við ferlið, geti þeir komið þeim athugasemdum á framfæri við hann.

Aðalsteinn Leifsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Haraldur Flosi Tryggvason og Hrönn Ríkharðsdóttir óska bókað:

Undirrituð bera fyllsta traust til innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar og telja ekki ástæðu til íhlutunar í hans störf.

Kjartan Magnússon bókar andsvar:

Undirritaður treystir innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar til að skoða umrætt ráðningarferli og þykir miður ef það er tilgangurinn með bókun meirihluta stjórnar að gefa annað í skyn. Málið snýst um hvort ekki sé rétt að upplýsa þá umsækjendur, sem hafa nú þegar gert athugasemdir við ráðningarferlið eða kunna að vilja gera slíkar athugasemdir, að innri endurskoðandi hafi nú tekið það til skoðunar og því geti þeir beint slíkum athugasemdum til hans, sem aðilar málsins. Undirritaður hefur fengið nokkrar slíkar athugasemdir frá umsækjendum, sem hann mun nú beina til innri endurskoðanda og treystir því að aðrir stjórnarmenn eða stjórnendur fyrirtækisins geri það einnig, sé um slík tilvik að ræða.

4.    Önnur mál.

Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, lagði fram og kynnti skýrslu rýnihóps stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um rekstrarúttekt sem gerð var sumarið 2010.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 11:00.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Aðalsteinn Leifsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson,

 Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.

Fundargerð: