Fundargerð stjórnar #151

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, föstudaginn 4. mars kl. 09:00 var haldinn 151. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn: Haraldur Flosi Tryggvason, Brynhildur Davíðsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Elín Blöndal, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Einnig sat fundinn Bjarni Bjarnason, forstjóri.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Breyting á stjórn OR. Lögð fram samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur frá 1. mars 2011 um kosningu Elínar Blöndal sem varamanns í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.

2.      Fundargerðir stjórnar 31. jan., 4. feb., 7. feb. og 1. mars 2011 (fundir 147-150) lagðar fram og undirritaðar.

3.      Lögð fram og kynnt endurskoðuð fjárhagsáætlun ársins 2011 og 5 ára áætlun. Ingi Jóhannes Erlingsson og Bjarni Freyr Bjarnason kynntu og svöruðu spurningum.

Rætt um fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur.

Stjórn samþykkir að fela forstjóra að kanna enn frekar forsendur þeirrar eignasölu sem gert er ráð fyrir í drögum að endurskoðaðri fjárhagsáætlun.

Forstjóra enn fremur falið að bjóða fulltrúum bæjar- og borgarráða eigenda til kynningarfundar um drög að endurskoðaðri fjárhagsáætlun. 

4.      Starfsmannastjóri, Skúli Waldorff, mætti á fundinn, lagði fram og kynnti minnisblað, dags. 2 mars 2011, auk leiðbeininga úr verklagsbók mannauðs um ráðningu sumarstarfsmanna.

Stjórn lýsir ánægju með fyrirkomulag ráðninga í sumarstörf.

5.      Lagt fram minnisblað fyrrverandi forstjóra til stjórnar, dags. 16. febrúar 2011. Forstjóri kynnti minnisblaðið.

6.      Lögð fram eftirfarandi tillaga um endurnýjun og stækkun rekstrarlánasamninga við NBI hf. og Arion banka hf.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að heimila forstjóra og/eða framkvæmdastjóra fjármála að ganga frá og undirrita, sbr. meðfylgjandi greinargerð:

·      endurnýjaðan og stækkaðan rekstrarlánasamning við Arion banka hf. samtals að fjárhæð tveir milljarðar króna.

·      endurnýjaðan og stækkaðan rekstrarlánasamning við NBI hf. samtals að fjárhæð fjórir milljarðar króna.

Heimildin nær einnig til undirritunar allra annarra skjala er ráðstafanir þessar snertir.

Samþykkt og vísað til eigenda.

7.      Lögð fram tillaga Brynhildar Davíðsdóttur frá 7. febrúar um úttekt á ráðningarferli forstjóra. Svo breytt tillaga stjórnar samþykkt:

Stjórn samþykkir að óska eftir því við innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar að fram fari skoðun á því hvort ný afstaðið ferli við ráðningu forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið í samræmi við lög, reglur og vandaða stjórnsýsluhætti.

Kjartan Magnússon leggur fram greinargerð, dags. 4. mars 2011.

8.      Önnur mál.

a)   Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ítrekar tilmæli sín til eigenda frá 24. janúar sl. að skipuð verði nefnd óháðra sérfræðinga sem vinni úttekt á stjórnkerfi og stjórnsýslu Orkuveitu Reykjavíkur í samræmi við 4. lið samþykktar borgarráðs frá 9. desember 2010 um úttekt á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.

b)   Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur óskar eftir því að lögð verði fram svör Norðuráls um opinberun á verði í raforkusölusamningum fyrirtækjanna á næsta fundi.

c)   Stjórnir dótturfélaga: Forstjóri upplýsti að hann hyggist taka sæti fyrrverandi forstjóra, Helga Þórs Ingasonar í stjórnum Gagnaveitu Reykjavíkur og REI.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 11:30.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Brynhildur Davíðsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Elín Blöndal,

 Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.