Fundargerð stjórnar #149

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, mánudaginn 7. febrúar kl. 13:15 var haldinn 149. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn: Haraldur Flosi Tryggvason, Aðalsteinn Leifsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Fundarritari var Haraldur Flosi Tryggvason.

Þetta gerðist:

1.      Ráðning forstjóra. Lögð fram tillaga stjórnarformanns um að honum verði falið að ganga til samninga við Bjarna Bjarnason um ráðningu hans í starf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur.

Kjartan Magnússon lagði fram eftirfarandi tillögu:

Alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við yfirstandandi ferli vegna ráðningar nýs forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrir borgarráði Reykjavíkur er nú til meðferðar tillaga um að borgarlögmanni verði falið að skoða ráðningarferlið og skila áliti á því hvort það samræmist góðum stjórnarháttum, sem eðlilegt er að séu viðhafðir í opinberu fyrirtæki. Lagt er til að ráðningu forstjóra verði frestað þar til borgarráð hefur tekið afstöðu til umræddrar tillögu.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Tillagan felld með fimm atkvæðum gegn einu.

Tillaga stjórnarformanns borin upp.

Samþykkt með þremur samhljóða atkvæðum.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Allt frá því vinna hófst við ráðningu nýs forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, hefur undirritaður lagt áherslu á að stjórn fyrirtækisins taki fullan þátt í ferlinu á öllum stigum málsins. Meirihluti stjórnar hefur hins vegar verið annarrar skoðunar og látið viðgangast að tveir einstaklingar utan stjórnar annist að mestu leyti val umsækjenda án þess að hafa til þess umboð hennar. Vegna þessara vinnubragða hafa aðeins tveir umsækjendur af sextíu hlotið eðlilega umfjöllun stjórnar og er stjórnarmönnum nú gert að gera upp á milli þeirra. Ekki verður því talið að meirihluti stjórnar hafi í þessu máli staðið undir því lögbundna hlutverki sínu að kynna sér gögn máls nægilega vel til að taka upplýsta og rökstudda ákvörðun. Spurning vaknar einnig um hvort brotið hafi verið á rétti umsækjenda með því að umsóknir þeirra hafi ekki hlotið tilhlýðilega meðferð stjórnar.

Undirritaður hefur nú lagt fram tvær greinargerðir þar sem gagnrýndir eru margvíslegir vankantar á umræddu ráðningarferli en að auki komið ýmsum athugasemdum munnlega á framfæri á stjórnarfundum. Þar sem trúnaður þarf að ríkja um nöfn umsækjenda og margvísleg gögn málsins, er vandasamt að gera slíkri gagnrýni full skil í bókun eða greinargerðum, sem eðli málsins samkvæmt eru opinberar.

Við meðferð málsins hefur undirritaður lagt áherslu á að við úrvinnslu umsókna verði ekki síst litið til þekkingar og reynslu á sviði fjármögnunar fyrirtækja. Vegna umfangsmikillar endurfjármögnunar fyrirtækisins, sem nú stendur yfir, er æskilegt að yfirstjórnandi þess hafi mikla þekkingu og reynslu á sviði slíkrar fjármögnunar. Við úrval umsókna, sem unnið var af aðilum utan stjórnar, verður ekki séð að nægileg áhersla hafi verið lögð á þann hátt. Undirritaður hefur farið yfir fjölda umsókna og hefur upplýst aðra stjórnarmenn um að á meðal fjölda hæfra umsækjenda um stöðuna, eru a.m.k. nokkrir sem eru slíkum kostum búnir í verulegum eða ríkum mæli. Því er átalið að fleiri af hinum fjölmörgu hæfu umsækjendum skuli ekki hafa komið til frekari skoðunar stjórnar. Þá er átalið að núverandi forstjóri hafi með mikilli aðkomu sinni að ráðningarferlinu verið í lykilhlutverki við val á eftirmanni sínum.

Vegna þessara vankanta, auk þeirra, sem áður hefur verið gerð grein fyrir á bókunum á stjórnarfundum og með greinargerðum framlögðum á stjórnarfundum 24. janúar og 7. febrúar, sér undirritaður sér ekki fært að taka þátt í þeim vinnubrögðum, sem ástunduð hafa verið í þessu máli af meirihluta stjórnar og situr því hjá. Nýjum forstjóra er óskað velgengni í starfi.

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Staða Orkuveitu Reykjavíkur er afar flókin, fjárhagsstaðan er þröng og eigendastefna liggur ekki fyrir. Eftir miklar pólitískar sviptingar á síðasta kjörtímabili náðist þó ákveðin sátt um eignarhald, hlutverk og rekstrarform fyrirtækisins, þar sem almannahagsmunir og samfélagsleg ábyrgð voru sett í forgrunn.

Sú niðurstaða sem hér liggur fyrir vekur spurningar um gildi þessarar sáttar, og ljóst að talsverðar breytingar hafa orðið á upphaflegum forsendum ráðningarferlisins á síðari hluta þess. Betur hefði farið á því að stjórn OR hefði fengið að ræða við fleiri umsækjendur með fjölbreyttari bakgrunn, en eðli málsins samkvæmt er valið þröngt þegar aðeins tveir einstaklingar eru taldir koma til greina af hálfu valnefndar. Eins vakna upp spurningar um hvort samfélagsleg ábyrgð og almannahagsmunir hafi haft eðlilegt vægi við mat á umsækjendum og jafnframt hvort valnefnd hafi gengið of langt í ráðgjöf sinni til stjórnar fyrirtækisins.

Afstaða undirritaðrar tekur einnig mið af yfirlýsingum stjórnarformanns í fjölmiðlum að undanförnu og ómarkvissum og óskýrum viðbrögðum meirihluta borgarstjórnar í kjölfarið. Ljóst er að fara þarf rækilega yfir umboð og hlutverk kjörinna fulltrúa, stjórnarmanna og stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur. Óvissa um umboð og ábyrgð á almannahagsmunum er stórhættuleg eins og saga fyrirtækisins sýnir berlega.

Fulltrúi Vinstri grænna situr því hjá við afgreiðslu málsins en óskar nýjum forstjóra velfarnaðar í starfi og væntir farsæls samstarfs.

Aðalsteinn Leifsson, Brynhildur Davíðsdóttir og Haraldur Flosi Tryggvason óska bókað:

Ráðningarferli fyrir nýjan forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur sem fram hefur farið síðustu mánuði er faglegt, gagnsætt og vandað. Ferlið var hannað, rýnt og framkvæmt af sérfræðingum og þess gætt í hvívetna að láta hlutlægni og skýr viðmið ráða mati. Stjórnin var virk í að móta ferlið í upphafi og tók endanlega ákvörðun um starfslýsinu og auglýsingu og hún tekur og ber fulla ábyrgð á ákvörðun um ráðningu nýs forstjóra.

Sú gagnrýni sem fram hefur komið á síðustu stigum málsins undirstrikar fyrst og fremst nauðsyn þess að fagleg sjónarmið ráði ferðinni við skipan í stjórn fyrirtækisins, rétt eins og við ráðningu forstjóra. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ber að taka ígrundaðar ákvarðanir um velferð fyrirtækisins á grundvelli stefnu eigenda og vernda þannig hagsmuni eigenda, viðskiptavina og starfsmanna. Stjórnin á ekki að vera vettvangur fyrir átök af pólitískum toga. 

Gagnbókun Sóleyjar Tómasdóttur:

Fulltrúi Vinstri grænna furðar sig á yfirlýsingagleði „faglega skipaðra fulltrúa“ í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur um pólitísk viðfangsefni á vettvangi stjórnar. Ígrundaðar ákvarðanir um velferð fyrirtækisins á grundvelli stefnu eigenda verða ekki teknar án pólitískrar afstöðu. Allt tal um ópólitíska fulltrúa er blekkingarleikur fólks sem treystir sér ekki að stíga fram með eigin skoðanir eða sannfæringu. Pólitískt stefnuleysi og fjarlægð stjórnar frá kjörnum fulltrúum hefur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir fyrirtækið fram til þessa og undarlegt með öllu að einhverjum skuli detta í hug að mæra slíkt fyrirkomulag eftir það sem á undan er gengið. Nær væri að viðkomandi fulltrúar Samfylkingar og Besta flokks kynntu sér sögu fyrirtækisins, þær ákvarðanir og þá stefnubreytingu sem fylgdi í kjölfarið.

Gagnbókun Kjartans Magnússonar:

Fullyrðingum um að umrætt ráðningarferli sé faglegt, gagnsætt og vandað er vísað á bug. Athyglisvert er að meirihluti stjórnar skuli ekki treysta sér til að bíða álits borgarlögmanns á því hvort ferlið hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnarhætti, sem fylgja á við stjórn opinberra fyrirtækja. Tilraunir meirihluta stjórnar til að gera lítið úr þeim stjórnarmönnum, sem eru jafnframt kjörnir borgar- eða bæjarfulltrúar eru ósæmilegar, ekki síst þegar slíkar árásir koma frá þeim stjórnarmönnum, sem ástundað hafa óvönduð vinnubrögð í þessu máli.

Brynhildur Davíðsdóttir lagði fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að óháður, utanaðkomandi sérfræðingur verði fenginn til að meta ráðningarferli fyrir forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Sérfræðingurinn skal meta það ferli sem nú var notað við ráðningu á forstjóra og bera það saman við það ferli sem var notað við fyrri ráðningar forstjóra fyrir fyrirtækið. Sérstaklega skal meta hlutlægni, fagmennsku og gagnsæi í ráðningarferlinu og framkvæmd þess.

Afgreiðslu frestað.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 14:10.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Aðalsteinn Leifsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson,

 Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.