Fundargerð stjórnar #146

 

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, föstudaginn 28. janúar kl. 9:00 var haldinn 146. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Þessi sátu fundinn: Haraldur Flosi Tryggvason, Aðalsteinn Leifsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

 

Ennfremur sátu fundinn: Helgi Þór Ingason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

1.      Lögð fram til samþykktar fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, frá 24. janúar sl.

Samþykkt og undirrituð.

  1. Áfangaskýrsla H.F. Verðbréfa um fjármögnun lögð fram.

Einar Pálmi Sigmundsson skýrði efni skýrslunnar og svaraði fyrirspurnum stjórnarmanna.

  1. Lögð fram minnisblöð forstjóra um eignasölu.

Forstjóri kynnti minnisblöðin. Umræður.

Ákvörðun frestað til næsta fundar.

  1. Lögð fram svör við fyrirspurnum Kjartans Magnússonar frá 145. fundi. Umræður.
  2. Minnisblað forstjóra framvindu og stöðu nokkurra verkefna ásamt minnisblaði vegna frumvarps til breytinga á orkulögum.

Tekið af dagskrá.

  1. Úttektir innri endurskoðanda

Tekið af dagskrá.

  1. Önnur mál.

Sóley Tómasdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að boðað verði til eigendafundar þar sem farið verði yfir umræður um eignarhald fyrirtækisins í fjölmiðlum.

 

Samþykkt með 3 atkvæðum ST, KM og HR gegn 1 mótatkvæði AL. HFT og BD sátu hjá.

 

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fagnar því að tillagan hafi verið samþykkt, enda brýnt að eigendur ræði með hvaða hætti skuli bregðast við ummælum stjórnarformanns í Morgunblaðinu í gær. Þar sagði hann með afar skýrum hætti að hann telji æskilegt að einkavæða fyrirtækið. Hann sagðist ekki sjá hvaða yfirburði orkufyrirtæki í opinberum rekstri hafi framyfir þau sem eru í einkaeigu, að lögboðin þjónusta og samkeppnisrekstur fari illa saman og að fyrirtækinu væri almennt betur borgið í höndum einkaaðila en sveitarfélaga.

Þessar yfirlýsingar skjóta skökku við nú þegar almenningur gerir æ ríkari kröfu um opinbert eignarhald á auðlindum, virkjunum og orkufyrirtækjum og ríkisvaldið berst við að vinda ofanaf einkavæðingu lítils orkufyrirtækis á Suðurnesjum. Sú krafa hefur ekki síst verið reist af kjörnum fulltrúum Besta flokksins sem hafa staðið sig með sóma í þeirri nauðsynlegu vinnu sem átt hefur sér stað í þágu þessa brýna málefnis.
Jafnframt má velta fyrir sér áhrifum yfirlýsinganna á stöðu fyrirtækisins gagnvart lánadrottnum, sem fram til þessa hafa getað treyst á bakábyrgðir borgarsjóðs. Einhver kynni að spyrja sig hversu öruggt það sé að taka þátt í endurfjármögnun fyrirtækisins þegar möguleiki kynni að opnast á að kaupa það að hluta eða í heild.
Hér hlýtur því að vera um alvarlegan trúnaðarbrest að ræða, bæði við yfirlýsta stefnu fyrirtækisins og þá vinnu sem átt hefur sér stað af hálfu eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur. Þá vakna spurningar um hvort nægilegt traust ríki milli meirihluta borgarstjórnar og stjórnarformanns til að hann geti gengt hlutverki sínu áfram.
 

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Á undanförnum mánuðum hefur undirritaður hvað eftir annað gert athugasemdir á vettvangi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og borgarstjórnar við ábyrgðarlaus ummæli fulltrúa Samfylkingar og Besta flokksins í fjölmiðlum um fyrirtækið. Sum þessi ummæli hafa verið til þess fallin að draga úr trúverðugleika Orkuveitunnar og veikja stöðu hennar í yfirstandandi viðræðum við banka og lánastofnanir um endurfjármögnun lána. Ljóst er að einstök ummæli stjórnarformanns í Morgunblaðinu 27. janúar eru til þess fallin að auka deilur um fyrirtækið á opinberum vettvangi og hætta er á að þau skaði þá viðkvæmu vinnu við endurfjármögnun sem nú stendur yfir. Að sjálfsögðu er kjörnum fulltrúum í stjórn fyrirtækisins og sveitarstjórnum eigendasveitarfélaga frjálst að ræða opinberlega um skoðanir sínar á málefnum og rekstrarformi fyrirtækisins og er það eitt af hlutverkum þeirra að halda almenningi vel upplýstum um stöðu þess og rekstur en brýnt er að í slíkum umræðum hafi fulltrúar ætíð í huga hvaða afleiðingar slík ummæli geta haft.

 

 

Fleira gerðist ekki.

 

Fundi slitið kl. 11:00.

 

Haraldur Flosi Tryggvason,

Aðalsteinn Leifsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir,

 Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.