Fundargerð stjórnar #145

 

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2011, mánudaginn 24. janúar kl. 20:00 var haldinn 145. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

 

Þessi sátu fundinn: Haraldur Flosi Tryggvason, Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Guðmundur Þór Reynaldsson, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

 

Ennfremur sátu fundinn: Helgi Þór Ingason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

 

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

 

Þetta gerðist:

 

1.      Lögð fram til samþykktar fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, frá 21. janúar sl.

Samþykkt og undirrituð. Kjartan Magnússon undirritar fundargerð með fyrirvara.

 

  1. Starfsmenn viku af fundi og stjórnarformaður tók við starfi ritara.

Lögð fram að nýju tillaga Kjartans Magnússonar frá síðasta stjórnarfundi:

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur gerir alvarlega athugasemdir við ráðningarferli vegna framtíðarforstjóra fyrirtækisins Lagt er til að óháð ráðningarfyrirtæki verði fengið til að leggja mat á hæfni umsækjenda um starfið og að unnið verði úr umsóknum í nánu samstarfi við stjórn fyrirtækisins. Áhersla skal lögð á að hraða þessari vinnu eins og kostur er en tryggja um leið vönduð vinnubrögð.

Einnig lögð fram greinargerð.

Tillagan felld með 5 atkvæðum gegn 1.

Lögð fram svohljóðandi bókun Haraldar Flosa Tryggvasonar, Björns Bjarka Þorsteinssonar, Brynhildar Davíðsdóttur, Guðmundar Þórs Reynaldssonar, Hrannar Ríkharðsdóttur og Sóleyjar Tómasdóttur:

Fagmennska og gagnsæi eru leiðarljós í ráðningarferli fyrir nýjan forstjóra OR. Stjórn ber ábyrgð á ráðningu forstjóra og hefur síðasta orðið um starfslýsingu og viðmið fyrir hæfnismat og endanlega ákvörðun um ráðningu. Hins vegar var leitað til sérfræðinga í mannauðsstjórnun í Háskólanum í Reykjavík og í Háskóla Íslands eftir aðstoð við hönnun ferlisins og framkvæmd þess. Ferlið er skýrt og gagnsætt, tekur mið af rannsóknum á árangursríkum ráðningum í ábyrgðarstöður og í hvívetna er þess gætt að koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir og pólitísk sjónarmið við mat á umsækjendum.

Undirrituð hafa fulla trú á því ráðningarferli sem ákveðið hefur verið að nota við ráðningu á nýjum forstjóra OR. Þá ítreka undirrituð þann skilning sinn að hæfnisnefnd skipuð Ástu Bjarnadóttur og Helga Þór Ingasyni hafi umboð stjórnar til að vinna að ráðningarferli forstjóra.

 

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Frá því fyrrverandi forstjóra var vikið fyrirvaralaust úr starfi 17. ágúst sl. hefur undirritaður lagt þunga áherslu á að óvissu um yfirstjórn þess verði eytt og framtíðarforstjóri ráðinn án tafar, ekki síst með tilliti til stöðu fyrirtækisins. Þrátt fyrir fyrirheit um að rösklega yrði gengið til verks, hefur meirihluti stjórnar kosið að framlengja óvissu um yfirstjórn fyrirtækisins mánuðum saman.
Ráðning forstjóra er með mikilvægustu ákvörðunum, sem stjórnir fyrirtækja fá til úrlausnar. Því er afar mikilvægt að slíkt ráðningarferli sé hafið yfir vafa og formreglum fylgt í hvívetna.
Þegar núverandi forstjóri OR var ráðinn til starfa 17. ágúst sl., var sú ráðning á pólitískum forsendum og á ábyrgð meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Starfið var ekki auglýst til umsóknar og ekkert hæfnismat átti sér stað. Í ljósi náinna tengsla við stjórnarformann er ljóst að núverandi forstjóri getur hvorki talist hlutlaus né óháður. Er því ekki við hæfi að hann komi að vali umsækjenda fyrir hönd þeirrar fjölskipuðu stjórnar,sem stjórn Orkuveitunnar er. Þá er það fáheyrt ef ekki með öllu óþekkt í opinberri stjórnsýslu, a.m.k. á síðustu áratugum, að forstjóri í opinberu fyrirtæki sé í lykilhlutverki við val á eftirmanni sínum, eins og meirihluti stjórnar vill af einhverjum ástæðum viðhafa í þessu tilviki.
Samkvæmt lögum er það stjórn OR, sem ræður forstjóra fyrirtækisins. Í því felst m.a. að stjórnarmönnum, sem taka eiga fullnaðarákvörðun í málinu, ber að kynna sér gögn um umsækjendur. Hingað til hefur mikið skort á að slíkt hafi verið gert með viðhlítandi hætti og hefur einungis nafnalisti með umsækjendum verið sýndur á stjórnarfundi. Ekki verður séð að við svo viðamikla ákvörðun sé stjórnarmönnum heimilt að framselja vald sitt til valnefndar í jafn ríkum mæli og hér virðist vera að stefnt.
Á undanförnum vikum hefur starfandi forstjóri farið yfir umsóknir ásamt aðkeyptum ráðgjafa, kallað umsækjendur í viðtöl og valið úr álitlega umsækjendur án þess að hafa til þess umboð stjórnar. Slík vinnubrögð eru með öllu óviðunandi.
Að framansögðu er ljóst að mikið vantar á að umrætt ráðningarferli sé faglegt, gagnsætt og jafnvel löglegt. Lýsir undirritaður yfir fullri ábyrgð á hendur meirihluta stjórnar fyrirtækisins vegna þess. Til að fyrirbyggja frekari tafir og skaða leggur undirritaður til að leitað verði til óháðs ráðningarfyrirtækis til að taka ferlið í sínar hendur og ljúka því á faglegan hátt í nánu samstarfi við stjórn Orkuveitunnar.

  1. Lagt fram minnisblað innri endurskoðanda dags. 20. þ.m. varðandi skuldabréf Magma.

Innri endurskoðandi kynnti efni minnisblaðsins og eftirfarandi tillögur sem þar koma fram:

                                  i.            lagt er til að munurinn á mati stjórnenda OR og mati H.F. verðbréfa á verðmæti skuldabréfs Magma verði kannaður frekar. Í því tilliti þarf til dæmis að kanna hvort að skuldabréf fyrirtækja með sk. BB álag og starfa í „US industrial“ og „US utility “ séu með sambærilegum ákvæðum og skuldabréf Magma.

                                ii.            lagt er til að fengið verði nýtt mat löggilts endurskoðanda á skuldabréfinu og hvernig beri að meta það í bókum Orkuveitunnar með tilliti til endurskoðunarstaðla sem fyrirtækið er endurskoðað eftir.

 

Tillögur i og ii bornar upp og samþykktar.

 

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur bendir á ítrekaða fyrirvara sem gerðir voru vegna verðmats á skuldabréfi Magma af hálfu fulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar á öllum stigum málsins. Meirihlutinn skellti skollaeyrum við þessum varnaðarorðum og hafnaði verðmati frá utanaðkomandi aðilum. Það er lítið gleðiefni að hið sanna hafi komið í ljós, en eðlilegt að dreginn verði lærdómur af þessum afdrifaríku mistökum ef það sem hér hefur komið fram reynist rétt.

Jafnframt er í minnisblaði innri endurskoðanda lagt til:

                              iii.            að stjórn Orkuveitunnar samþykki að fram fari rannsókn á tilurð kaupa á hlutafé í HS-Orku. Ástæðan er að ábyrgð á kaupunum er óljós þar sem ýmislegt bendir til að stjórnendur Orkuveitunnar hafi ekki komið að því að hlutabréfin voru keypt á sínum tíma en hafi hins vegar fengið það hlutskipti að greiða úr viðskiptunum þegar búið var að dæma þau ólögmæt. Í þessari rannsókn þarf einnig að gera grein fyrir heildarkostnaði Orkuveitunnar vegna viðskiptanna.

 

Stjórn lagði fram eftirfarandi tillögu:

Af gefnu tilefni beinir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur því til eigenda að skipuð verði nefnd óháðra sérfræðinga sem vinni úttekt á stjórnkerfi og stjórnsýslu Orkuveitu Reykjavíkur í samræmi við 4. lið samþykktar borgarráðs frá 9. desember 2010 um úttekt á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Slík nefnd myndi þá taka kaup á hlutafé í HS-Orku til athugunar ásamt öðru því sem hún telur tilefni til.

Samþykkt

 

4.      Lagt fram yfirlit forstjóra dags. 19. þ.m. varðandi framvindu og stöðu nokkurra verkefna ásamt minnisblaði vegna frumvarps til breytinga á raforkulögum.

 

Umræðu frestað til næsta fundar.

 

  1. Lagt fram minnisblað samráðshóps um sumarvinnu dags. 17.11.2010. Skúli Waldorff, starfsmannastjóri kynnti efni minnisblaðsins.

 

Sóley Tómasdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur beinir því til starfsmannastjóra að skoða til hlítar möguleikann á samstarfi við Reykjavíkurborg um sumarráðningar. Jafnframt verði verklag við ráðningar endurskoðað með tilliti til jafnræðis og ábendinga sem fram komu í minnisblaði Innri endurskoðanda frá 9. mars 2009. Óskað er eftir kynningu á ráðningarfyrirkomulagi í stjórn áður en til ráðninga kemur.

Samþykkt.

 

  1. Lögð fram eftirfarandi tillaga um prókúruumboð, dags. 24. janúar 2011:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að fella úr gildi prókúru Önnu Skúladóttir og að prókúruhafar fyrirtækisins verði Helgi Þór Ingason, forstjóri og Ingi Jóhannes Erlingsson, framkvæmdastjóri fjármála og er ritara falið að tilkynna breytingar til firmaskrár.

Samþykkt

  1. Kjartan Magnússon lagði fram eftirfarandi fyrirspurnir:

 

 Fyrirspurn


Óskað er eftir upplýsingum um fyrirætlanir og/eða hugmyndir um framtíð Elliðaárdals og rafstöðvarinnar við Elliðaár.


Fyrirspurn


Óskað er eftir greinargerð um framkvæmd útboðs vegna ferðaþjónustu í Hellisheiðarvirkjun þar sem m.a. komi fram hvaða aðferðir og matsþættir verða látin ráða við umrætt val. Undirritaður óskaði eftir umræddum upplýsingum með tölvubréfi til forstjóra 15. janúar sl. en hefur ekki enn fengið svar.

Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:

 

Fyrirspurn um hækkun fráveitugjalda


Fjölmargir Reykvíkingar kvarta nú yfir hækkunum á fráveitugjöldum. Algengt er að slíkar hækkanir nemi á bilinu 10 - 20% samkvæmt ábendingum, sem borist hafa frá borgarbúum. Í skýringartexta með tillögu forstjóra, sem samþykkt var á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur 15. desember sl., var stjórn fyrirtækisins ekki upplýst um að slík hækkun væri yfirvofandi gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins heldur einungis sagt að hækkun gjaldskrár milli desember 2009 og desember 2010 næmi 0,92%. Ljóst er að í umræddum skýringartexta er framsetning röng eða a.m.k. villandi. Þá kemur hvergi fram í textanum að í Reykjavík eigi að hverfa frá þeirri viðmiðun að reikna fráveitugjald, sem hluta af fasteignamati, en miða þess í stað við fjölda fermetra. Óskað er eftir nákvæmum upplýsingum um uppbyggingu nýrrar gjaldskrár fráveitu í samanburði við gömlu gjaldskrána og hvernig hún kemur við greiðendur, t.d. eftir stærð húsnæðis eða einstökum hverfum. Auk þess er óskað eftir upplýsingum um framkvæmd afsláttarveitingar til elli- og örorkulífeyrisþega með lágar tekjur.

 

Fleira gerðist ekki.

 

Fundi slitið kl. 22:55.

 

Haraldur Flosi Tryggvason,

Björn Bjarki Þorsteinsson, Brynhildur Davíðsdóttir,

Guðmundur Þór Reynaldsson, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.