Fundargerð stjórnar #139

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2010, föstudaginn 5. nóvember kl. 11:15 var haldinn 139. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn: Helga Jónsdóttir, sem stýrði fundi, Aðalsteinn Leifsson, Guðmundur Þór Reynaldsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Jóhann Ársælsson, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Ennfremur sat fundinn: Helgi Þór Ingason, forstjóri, Anna Skúladóttir, framkvæmdastjóri fjármála, Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi og Páll Erland, framkvæmdastjóri veitna.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerð síðasta fundar.  Umræður um ritun fundargerða.

Sóley Tómasdóttir og Kjartan Magnússon óska bókað:

Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks telja brýnt að fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur verði ritaðar í samræmi við reglur sveitarfélaganna þar að lútandi. Það er óásættanlegt að niðurstaða umræðna sé tekin saman í fundargerðum öðruvísi en í bókun sem ýmist er þá í nafni stjórnarinnar allrar eða einstakra stjórnarmanna eins og gert er í 4. lið fundargerðar síðasta fundar.

2.      Ráðningarferli fyrir framtíðar forstjóra.  Fyrir liggur minnisblað, dags. 15. október 2010 um ráðningarferlið.  Umræður.  

Ákvörðun frestað til næsta fundar.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Allt frá því fyrrverandi forstjóri OR lét af störfum um miðjan ágúst sl. hefur undirritaður lagt þunga áherslu á að mikilvægt sé að eyða sem fyrst óvissu um yfirstjórn fyrirtækisins og ráða framtíðarforstjóra án tafar. Á stjórnarfundi 17. ágúst var samþykkt að hefja undirbúning að ráðningu nýs forstjóra og auglýsa starfið. Það hefur enn ekki verið gert og telur undirritaður það afar óæskilegt að meirihluti stjórnar fyrirtækisins framlengi þannig óvissu um yfirstjórn þess mánuðum saman. Undirritaður ítrekar þá afstöðu sína að staða forstjóra verði auglýst sem fyrst og að staðið verði við áform um að gengið verði frá ráðningu hans fyrir áramót.

3.      Sala eigna.

a)        Verklýsing. Lögð fram verklagsregla um sölu eigna OR. Samþykkt.

b)        Tillaga forstjóra, sbr. samþykkt stjórnar 27.8.2010. Lögð fram tillaga forstjóra um eignasölu, dags. 27. 9. 2010. Forstjóri gerði grein fyrir tillögunni.

Umræður.

4.      Farice. Afsal hlutabréfa.

Lagt fram minnisblað Arctica Finance, dags. 2. nóvember 2010 og tillaga um afsal eignarhluta OR til fjármálaráðuneytisins.

Samþykkt.

Kjartan Magnússon vék af fundi kl. 13:30.

           

5.      Lánshæfismat Reitunar.

Lagt fram til kynningar lánshæfismat á Orkuveitu Reykjavíkur frá Reitun, dags. í nóvember 2010.

6.      Staða fjármögnunar.

Anna Skúladóttir kynnti stöðu fjármögnunar Orkuveitu Reykjavíkur og lagði fram yfirlit, dags. 5. nóvember 2010.

7.      Sviðsmyndir varðandi fjárfestingar.

Anna Skúladóttir lagði fram og kynnti minnisblað um fjármögnun Hverahlíðarvirkjunar, dags. 4. nóvember 2010.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 14:00.

Helga Jónsdóttir,

Aðalsteinn Leifsson, Björn Bjarki Þorsteinsson,

Guðmundur Þór Reynaldsson, Jóhann Ársælsson, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.