Fundargerð stjórnar #138

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2010, föstudaginn 22. október kl. 14:00 var haldinn 138. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn: Helga Jónsdóttir, sem stjórnaði fundi, Brynhildur Davíðsdóttir, Guðmundur Þór Reynaldsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Jóhann Ársælsson, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Ennfremur sat fundinn: Helgi Þór Ingason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Fundargerðir funda 136 og 137 samþykktar.

2.      Starfsmannatengdar aðgerðir 21.10.2010

Forstjóri skýrði nýtt og breytt skipurit OR og greinargerð með skipuriti, dags. 22. október 2010 og því hvaða áhrif breytingar hafa á starfsemi fyrirtækisins.

Óskar Norðmann, hdl., skýrði frá lögfræðilegri hlið mála varðandi uppsagnir.  

Einar Gylfi Jónsson, sálfræðingur, fjallaði um aðferðafræðina sem notuð var og framkvæmd uppsagna.

Skúli Waldorf, starfsmannastjóri og Sólrún Kristjánsdóttir, starfsþróunarstjóri gerðu grein fyrir framkvæmd uppsagna.

Umræður og fyrirspurnir.

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Allt frá því Orkuveitan var stofnuð í núverandi mynd hefur fyrirtækið þróast yfir í allt of markaðsdrifið fyrirbæri, án þess að kjörnir fulltrúar hafi náð að gæta hagsmuna almennings í einu og öllu. Þessi óheillaþróun hefur varað allt of lengi og nú leitt til erfiðra hagræðingaraðgerða og uppsagna sem ekki verða umflúnar.

Þó fulltrúi Vinstri grænna efist ekki um nauðsyn þessara aðgerða lýsir hann yfir miklum vonbrigðum með að starfsfólki hafi ekki verið gefinn kostur á að ljúka viðfangsefnum líðandi stundar á uppsagnarfresti ef svo bæri undir heldur hafi fólki verið gert að yfirgefa vinnustaðinn samdægurs. Að sama skapi hefði þurft að leggja ríkari áherslu á að vernda viðkvæma hópa innan fyrirtækisins á tímum mikils atvinnuleysis.

Fulltrúinn hvetur stjórnendur fyrirtækisins að finna leiðir til að tryggja að fræðsla, safnkostur og önnur samfélagsleg verkefni leggist ekki af. Ennfremur eru stjórnendur beðnir um að troða ekki illsakir við stéttarfélög í kjölfar uppsagnanna, heldur fara í einu og öllu eftir lögum og reglum varðandi þau ágreiningsefni sem ekki hafa verið leidd til lykta.

3.      Tillaga forstjóra um aðlögun þjónustugjalda að raunkostnaði, sbr. samþykkt stjórnar 27.8.2010 og umræður á fundi þann 8.10.2010.

Forstjóri gerði grein fyrir gögnum sem stjórn óskaði eftir á fundi 8.10.2010 og lagði fram minnisblað vegna tillögu um aðlögun gjaldskrár að raunkostnaði, dags. 14. október 2010.

Tillagan samþykkt með 5 atkvæðum gegn 1.

4.      Tillaga forstjóra um innheimtu aukafráveitugjalds.

Forstjóri lagði fram greinargerð, dags. 14. október 2010 um aukafráveitugjald ásamt nánari upplýsingum sem óskað var eftir á fundi stjórnar 8. október 2010. Umræður, þar sem formaður stjórnar spurði m.a. hvort gengið hefði verið úr skugga um að lagalegur grundvöllur tillögunnar væri  traustur og tillagan byggðist á því að stærstu notendur fráveitukerfisins standi undir kostnaði af rekstri þess í samræmi við það þannig  að hann dreifist ekki á almenna notendur umfram það sem eðlilegt sé.  Forstjóri staðfesti að svo væri.

Sóley Tómasdóttir vék af fundi kl 16:15.

Umræðu um dagskrárliðinn frestað til framhaldsfundar.

  1. Fjárhagsáætlun ársins 2011 og 5 ára áætlun 2012-2016.

Anna Skúladóttir gerði grein fyrir raunverðsáætlun og forsendum hennar ásamt nafnverðsáætlun.

Fundi frestað kl. 17:30.

Mánudaginn 25. október 2010 kl 8:00 var fundur settur að nýju.

Aðalsteinn Leifsson mætti á fundinn en ekki Brynhildur Davíðsdóttir. Aðrir fundarmenn voru þeir sömu.

Atkvæðagreiðsla um 4. dagskrárlið, innheimtu aukafráveitugjalds: Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1 atkvæði Kjartans Magnússonar. Sóley Tómasdóttir sat hjá.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Undirritaður telur vafa leika á að traustur lagagrundvöllur sé fyrir álagningu svokallaðs ,,aukafráveitugjalds“ með þeim hætti, sem ráð er fyrir gert í tillögu þessari. Æskilegt hefði verið að slíkur grundvöllur hefði verið skoðaður betur, m.a. með tilliti til meðalhófsreglu og sanngirnissjónarmiða. Ekki er nægilega skýrt hvaða áhrif umrædd gjaldtaka hefur á atvinnulífið, hvaða atvinnustarfsemi hafi hag af henni og á hvaða starfsemi álögur muni þyngjast. Þá harmar undirritaður að ekki hafi verið orðið við beiðni hans, sem lögð var fram á stjórnarfundi 8. október sl., um að leitað yrði eftir umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins, vegna tillögu um álagningu ,,aukafráveitugjalds“ áður en hún kæmi til afgreiðslu stjórnar OR.

 Samkvæmt 1. málsgrein 14. greinar laga nr. 9/2009 er heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags. Skv. 2. mgr. er heimilt að innheimta gjald vegna losunar miðað við innrennsli vatns skv. mæli þar sem frárennsli er veitt frá atvinnustarfsemi eða vegna annars en venjulegra heimilisnota. Ekki verður séð að heimilt sé að leggja tvenns konar gjald á sama notanda, þ.e. bæði miðað við stærð fasteignar og einnig miðað við notkun. Lögin mættu reyndar vera skýrari hvað gjaldtökuheimildir snertir en þó er ljóst að fráveitugjald er þjónustugjald, sem ekki er heimilt að sé hærra en sá kostnaður, sem til fellur, við að veita þjónustuna og leggi ekki þyngri byrðar á tiltekinn hóp notenda, t.d. sundlaugar í eigu sveitarfélaga og annan atvinnurekstur, nema ljóst sé að rekstraraðili fráveitu beri meiri kostnað af þeim hópi en öðrum notendum þjónustunnar.

Í 14. gr. laganna kemur heitið ,,aukafráveitugjald“ hvergi fyrir. Í 3. mgr. kemur þó fram skýr heimild til að innheimta sérstakt aukagjald ef frárennsli tiltekins gjaldskylds aðila er svo mengað að það leiði til sérstakra aðgerða við fráveitukerfi, svo sem ef losun fer yfir skilgreind losunarmörk. Ekki virðist þó vera um það að ræða í þessu tilviki, enda virðist ætlunin að leggja hið svokallaða ,,aukafráveitugjald“ á atvinnurekstur, óháð mengunarstigi.

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna telur ekki útséð að aukafráveitugjald hafi þau áhrif sem því er ætlað, enda liggja ekki fyrir upplýsingar um hvernig það kemur til með að snerta sveitarfélögin á svæðinu. Betur hefði farið á því að áhrifin lægju fyrir með skýrum hætti, enda er sú hætta fyrir hendi að aðgerðirnar hafi áhrif á þjónustu eða gjaldskrár sveitarfélaganna með óbeinum hætti.

Umræðum um fjárhagsáætlun (nafnverðs- og raunverðs) og 5 ára áætlun fram haldið.

Rætt um sumarstarfsmenn og fyrirhugaðan samdrátt í fjölda sumarstarfa. Samþykkt að óska eftir skoðun á þörf á ráðningu sumarstarfsmanna vegna verkefna fyrirtækisins og tillögum um mögulegan samráðsvettvang með eigendum um málið.  Einnig verði skoðað hvernig verði ráðið í störfin næsta sumar.

Fjárhagsáætlun ársins 2011 og 5 ára áætlun 2012-2016 bornar upp.

Samþykkt samhljóða. Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir sátu hjá.

  1. Endurskoðun fjárhagsáætlunar ársins 2010.

Anna Skúladóttir gerði grein fyrir endurskoðaðri fjárhagsáætlun ársins 2010. Umræður.

Samþykkt samhljóða.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 10:00.

Helga Jónsdóttir,

Aðalsteinn Leifsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson,

Guðmundur Þór Reynaldsson, Jóhann Ársælsson, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.