Fundargerð stjórnar #137

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2010, miðvikudaginn 20. október kl. 17:00 var haldinn 137. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn: Haraldur Flosi Tryggvason, Guðmundur Þór Reynaldsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Helga Jónsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.

Ennfremur sat fundinn: Helgi Þór Ingason, forstjóri og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Lagt fram minnisblað Helga Þórs Ingasonar, forstjóra, dags. 19.10.2010 um hagræðingu með skertu starfshlutfalli eða skertum launum ásamt upplýsingablaði um samráð við stéttarfélög, dags. 20. 10. 2010. 

Forstjóri gerði grein fyrir efni minnisblaða sinna. Umræður.

Haraldur Flosi Tryggvason, Guðmundur Þór Reynaldsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Helga Jónsdóttir og Hrönn Ríkharðsdóttir ítreka stuðning við forstjóra vegna undirbúnings og útfærslu þeirra viðkvæmu hagræðingaraðgerða sem unnið er að og þakkir fyrir framlagðar upplýsingar með vísan til fyrri bókana um sama efni.

Kjartan Magnússon óskar bókað:

Óskað er eftir því að lagðar verði fyrir stjórn nákvæmar upplýsingar um fjölda þeirra starfsmanna, sem fyrirhugað er að segja upp og skiptingu þeirra eftir deildum, starfstöðvum, aldri og starfsaldri. Að þessum upplýsingum fengnum, taki stjórn afstöðu til tillögu forstjóra um málið og/eða annarra tillagna, sem fram kunna að koma. Rétt er að benda á að allar ákvarðanir um fjöldauppsagnir í fyrirtækjum eru í eðli sínu mikils háttar, sem eðlilegt er að viðkomandi stjórn þekki til hlítar og taki afstöðu til og ábyrgð á, áður en þær koma til framkvæmda.

Kjartan Magnússon lagði fram eftirfarandi tillögu:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að stefnt skuli að því að ná þeirri hagræðingu, sem fyrirhugað er að ná með fækkun starfsmanna, með samkomulagi um skerðingu á starfshlutfalli og sérstökum eftirlaunasamningum í stað þess að grípa til fjöldauppsagna. Markmið um fækkun starfsmanna næðust síðan á nokkrum misserum eða árum án þess að til fjöldauppsagna kæmi. Slík leið hefur verið farin hjá fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum á undanförnum árum og hefur tvímælalaust skilað góðum árangri í baráttunni við fjöldaatvinnuleysi.

Tillagan felld með 5 atkvæðum gegn 1.          

Sóley Tómasdóttir óskar bókað:

Orkuveita Reykjavíkur er almannafyrirtæki sem hefur ríkum skyldum að gegna. Hún leggur grunn að velferð eigenda hennar sem jafnframt eru viðskiptavinir. Eftir það sem á undan er gengið eru hagræðingaraðgerðir nauðsynlegar – og því miður vandséð hvernig hægt væri að komast hjá uppsögnum við slíkar aðstæður.

Enda þótt vinnubrögð stjórnenda hafi verið til fyrirmyndar og stjórn hafi fengið greinargóðar upplýsingar í ferlinu er fulltrúinn ekki fyllilega sannfærður um að samfélagsleg áhrif aðgerðanna hafi verið lágmörkuð í hvívetna. Vinstri græn hefðu viljað að tekið væri meira mið af leiðbeinandi viðmiðum borgarstjórnar um forgangsröðun í atvinnumálum þar skýrt kemur fram hvaða hópa þurfi að vernda sérstaklega þegar atvinnuleysi eykst í samfélaginu.  Eins telur fulltrúinn ekki sýnt að samfélagslegar skyldur fyrirtækisins gagnvart almenningi verði uppfylltar í kjölfar breytinganna.

Fulltrúi Vinstri grænna tekur undir velfarnaðaróskir meirihlutans og bindur vonir við að Orkuveitan verði áfram burðugt og mikilvægt fyrirtæki fyrir íbúa sveitarfélaganna og samfélagið allt.

2.      Lagt fram minnisblað LEX, Helga Jóhannessonar hrl. og Stefáns Orra Ólafssonar hdl.,  dags. 20.10.2010 varðandi heimildir einstaka stjórnarmanns Orkuveitu Reykjavíkur til að hlutast til um málefni fyrirtækisins milli funda. Umræður um störf stjórnar og heimildir einstakra stjórnarmanna á milli stjórnarfunda.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 18:50.

Haraldur Flosi Tryggvason,

Björn Bjarki Þorsteinsson, Guðmundur Þór Reynaldsson,

Helga Jónsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.