Fundargerð stjórnar #132

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

 

Ár 2010, föstudaginn 27. ágúst kl. 14:00 var haldinn 132. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn: Haraldur Flosi Tryggvason, Aðalsteinn Leifsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Helga Jónsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir

Ennfremur sat fundinn: Helgi Þór Ingason, forstjóri, Anna Skúladóttir, framkvæmdastjóri fjármála, Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi, Gunnar Tryggvason og Magnús Erlendsson frá KPMG, Hlynur Sigurðsson og Auðunn Guðjónsson, endurskoðendur, Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.    Árshlutareikningur 2. ársfjórðungs 2010.

Hlynur Sigurðsson endurskoðandi OR kynnti reikninginn og helstu niðurstöður hans. Endurskoðendur gera ekki athugasemdir við reikninginn. Reikningurinn borinn upp og áritaður af stjórn.

 

2.    Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur.

Formaður kynnti undirbúning tillagna og áætlana um rekstur.

 

Anna Skúladóttir kynnti sjóðsstreymisgreiningu.

 

Gunnar Tryggvason frá KPMG kynnti kennitölugreiningu Orkuveitu Reykjavíkur.

 

Forstjóri, Helgi Þór Ingason, kynnti tillögur forstjóra um aðgerðir í rekstri.

 

Guðmundur I. Bergþórsson og Hlynur Sigurðsson gerðu grein fyrir mati innri og ytri endurskoðenda á tillögum forstjóra og forsendum rekstraráætlunar 2010-2015.

 

Birgir Björn Sigurjónsson gerði grein fyrir mati rýnihóps á tillögum forstjóra og forsendum rekstraráætlunar 2010-2015.

 

Guðmundur I. Bergþórsson kynnti álit sitt á tillögu forstjóra á gjaldskrárbreytingu.

 

Anna Skúladóttir kynnti forsendur fjárhagsáætlunar 2010-2015 og áætlunina sjálfa.

Áætlunin var borin upp og hún staðfest með 4 atkvæðum. Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir sitja hjá.

 

Rætt um tillögurnar og þær svo bornar upp til samþykktar hver um sig.

 

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir:

 

 

1.      Að gjaldskrá eftirfarandi veitna og miðla verði hækkuð sem hér segir:

a.                  Dreifing rafmagns: um 40%.

b.                 Sala raforku: um 11%.

c.                  Sala á heitu vatni: um 35%

Nýjar gjaldskrár taki gildi frá og með 1. október 2010, með lögbundnum fyrirvörum.

Samþykkt með 4 atkvæðum.  Sóley Tómasdóttir situr hjá.  Kjartan Magnússon er á móti og óskar bókað:

 „Á síðasta kjörtímabili var tekið fast á fjármálum Orkuveitu Reykjavíkur og mikið starf unnið á vegum stjórnar fyrirtækisins og starfsmanna við að verja stöðu þess og styrkja fjárhagsgrundvöll. Fyrir bankahrun 2008 var ráðist í markvissar aðgerðir til að draga úr fjárskuldbindingum, m.a. var Bitruvirkjun frestað um óákveðinn tíma og gufuhverflar fyrir milljarða króna afpantaðir, hætt við hugmyndir um að setja milljarða króna af fjármunum Orkuveitunnar í útrásarverkefni og ráðist í umfangsmikið hagræðingarátak innan fyrirtækisins. Eftir bankahrun var ákveðið að hækka ekki gjaldskrár í Reykjavík vegna yfirvofandi efnahagserfiðleika borgarbúa, heldur að lækka kostnað með hagræðingu, og gilti sú stefnumótun einnig um Orkuveituna. Umrætt hagræðingarátak hefur nú þegar skilað Orkuveitunni rúmum milljarði króna og á grundvelli þess hefur m.a. verið hægt að standa við samþykktir borgarstjórnar um frystingu gjaldskrár. Það hefur hins vegar ætíð verið ljóst að slík gjaldskrárfrysting gæti aðeins varað tímabundið og að fyrr eða síðar þyrfti að hækka gjaldskrár að nýju. Ekki skal dregið í efa að hækka þarf gjaldskrá Orkuveitunnar verulega en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja þunga áherslu á að slíkri hækkun sé stillt í hóf eins og kostur er í þágu almennings í Reykjavík ásamt því að nýta batnandi rekstrarárangur OR í þessu skyni, sem m.a. kemur fram í fyrirliggjandi árshlutauppgjöri. Sýnt hefur verið fram á að hægt sé að hækka gjaldskrána í áföngum með áætlun til 3-5 ára með það að markmiði að bæta greiðsluhæfi Orkuveitunnar en tryggja um leið að of mikilli hækkun verði ekki velt yfir á herðar almennings í einu lagi. Meðan á slíku þrepaskiptu hækkunarferli stæði, ætti um leið að leita allra leiða til að hækka orkuverð til almennings sem minnst með því að halda áfram þeirri hagræðingu sem staðið hefur innan fyrirtækisins og leita leiða til að losa Orkuveituna undan einhverjum af þeim fjárskuldbindingum, sem á henni hvíla, t.d. með verkefnafjármögnun einstakra virkjana og/eða virkjanaáfanga. Jafnframt þarf að óska eftir viðræðum við stærstu viðskiptavini OR, þ.e. stóriðjufyrirtæki, með það að markmiði að hækka orkuverð til þeirra á sama hátt og nú stendur til að hækka orkuverð til almennings. Samkvæmt nýsamþykktri tillögu mun hækkun á útgjöldum meðal heimilis á veitusvæði OR til orkukaupa nema 28,5%.  Svo mikil hækkun gengur þvert gegn þeirri stefnu, sem víðtæk sátt náðist um í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili, þ.e. að ganga ekki of hart fram gagnvart Reykvíkingum með óhóflegri gjaldskrárhækkun í einu lagi á meðan aðrar leiðir eru færar.

 

2.      Að stefna að því að gjaldskrár haldi raungildi sínu til lengri tíma og taki því mið af öðrum verðlagshækkunum í samfélaginu. Stjórn veitir forstjóra heimild til að ákvarða breytingar á gjaldskrám á 6 mánaða fresti. Skulu breytingarnar taka mið af þróun vísitölu neysluverðs. Forstjóri skal kynna breytingar á gjaldskrám fyrir stjórn á síðasta stjórnarfundi fyrir gildistöku breytinganna.

Samþykkt með 4 atkvæðum. Sóley Tómasdóttir og Kjartan Magnússon sitja hjá.

 

3.      Að stefna að hagræðingu í rekstri sem nemur 25% af rekstrarkostnaði, án orkukaupa og orkuflutnings, m.v. við fjárhagsáætlun ársins 2010, dags. 25.11.2009.

Samþykkt með 5 atkvæðum.  Sóley Tómasdóttir situr hjá.

 

4.      Að stefna að sölu eigna sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi félagins.  Forstjóra er falið að útfæra nánar hugmyndir og tillögur þess efnis og leggja þær fyrir stjórn.

Samþykkt með 5 atkvæðum.  Sóley Tómasdóttir situr hjá.

 

5.      Forstjóra verði falið að útfæra tillögur og leggja fyrir stjórn hvernig aðlaga megi þjónustugjöld að raunkostnaði.

Samþykkt með 5 atkvæðum.  Sóley Tómasdóttir situr hjá.

 

6.      Að fara þess á leit við eigendur að teknar verði upp viðræður um arðgreiðslustefnu og að fallið verði tímabundið frá arðskröfu á fyrirtækið sem lið í því að leysa fjármögnunarvanda þess.

Kjartan Magnússon leggur til að afgreiðslu tillögunnar verði frestað.  Fellt með 4 atkvæðum.  Sóley Tómasdóttir situr hjá.

Tillagan samþykkt með 5 atkvæðum.  Kjartan Magnússon situr hjá.

 

7.      Að fela forstjóra að ljúka við rekstrarúttekt stjórnenda OR og leggja fyrir stjórn tillögur um frekari aðgerðir á grundvelli hennar.  Samþykkt einróma.

 

Sóley Tómasdóttir óskar bókað almennt um dagskrárliðinn rekstur Orkuveitu Reykjavíkur:

„Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur undrast að sú tillaga sem hér liggur fyrir skuli ekki vera betur útfærð og rökstudd en raun ber vitni. Fulltrúinn dregur þörfina fyrir aðgerðir alls ekki í efa en tillagan vekur upp ótal spurningar, bæði efnislegar og pólitískar.

Enginn rökstuðningur kemur fram um hlutfall hagræðingar og gjaldskrárhækkana og því vandséð á hverju sú ákvörðun er byggð að gjaldskrár hækki um 28,5% að jafnaði og rekstrarhagræðing verði upp á 25%. Að sama skapi liggur engin útfærsla fyrir varðandi hagræðingaraðgerðir, hvort hér séu um fjöldauppsagnir að ræða, launalækkanir eða lækkun á öðrum rekstrarkostnaði, né heldur hvort um blöndu af þessu öllu sé að ræða eða hvernig sú blanda komi þá til með að líta út. Útfærsluskorturinn eykur enn á óöryggi starfsfólks sem er óviðunandi með öllu.

Athygli vekur að verð á dreifingu rafmagns skuli hækkað um 40% en verð á rafmagninu sjálfu einungis 11% og að tillögunum fylgi engir útreikningar á arðsemi eftir hækkun. Þessi skipting vekur upp spurningar um hvort sérleyfisstarfsemin sé nýtt til niðurgreiðslu á samkeppnismiðli og ekki síður hvort almenningur sé að taka á sig auknar byrðar vegna raforkusölu til stóriðju. Enn og aftur kemur fram nauðsyn þess að opinbera raforkusölusamninga vegna stóriðju gagnvart almenningi, því án þeirra upplýsinga er ekki hægt að meta hvort hér sé um sanngjarna eða eðlilega hækkun að ræða.

Tillaga um sölu á eignum sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi fyrirtækisins vekur jafnframt nokkurn ugg, enda margt óljóst í þeim efnum. Núverandi meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur hefur lýst efasemdum um að sala á raforku til stóriðju teljist til kjarnastarfseminnar. Því vakna upp spurningar um fyrirætlanir nýs meirihluta í þessum efnum og hvort þessi tillaga um sölu á eignum liðki fyrir samstarfi eða jafnvel sölu til einkaaðila á virkjunum og/eða virkjunarframkvæmdum. Fulltrúinn varhug við samþykkt þess að selja hluta fyrirtækisins í öðrum fyrirtækjum eða aðrar eignir á meðan pólitísk stefna liggur ekki ljós fyrir.

Ljóst er að allar þessar ákvarðanir hafa umtalsverð áhrif á líf og hagi borgarbúa og starfsfólk fyrirtækisins og því með öllu ótækt að þær komi fram án þess að stjórn fyrirtækisins hafi gert tilraun til að móta pólitíska stefnu um útfærslur. Það er sorglegt að pólitískt kjörnir fulltrúar í stjórn Orkuveitunnar skuli ekki leggja fram ígrundaðri stefnu, heldur varpa ábyrgðinni á þessu stórpólitíska verkefni yfir á stjórnendur fyrirtækisins að miklu leyti. Fulltrúi Vinstri grænna hefur hvorki fengið nægilegar upplýsingar né rökstuðning til að taka afstöðu til málsins í heild, situr því hjá og óskar eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

1. Hvernig liti gjaldskrá fyrirtækisins út í dag ef hún hefði tekið mið af verðlagshækkunum í samfélaginu allt frá stofnun Orkuveitunnar í núverandi mynd?

2. Hver eru rökin fyrir því að hagræðing skuli nema 25% af rekstrarkostnaði á móti 28,5% gjaldskrárhækkun?

3. Hver verður arðsemi ólíkra miðla, þ.e. dreifingu rafmagns, sölu rafmagns bæði í smásölu og heildsölu og af heitu vatni eftir að hækkanir hafa gengið í gegn?

4. Hvað felst í rekstrarhagræðingu upp á 1360 mkr. umfram það sem nú þegar hefur náðst?

a. Ef gert er ráð fyrir uppsögnum, hversu margar eru þær, á hvaða sviðum og hvenær er gert ráð fyrir að þær eigi sér stað?

b. Ef gert er ráð fyrir endurskoðun launa, hvaða stefna verður lögð þar til grundvallar?

5. Er sá möguleiki til raunverulegrar skoðunar að selja einhverjar af virkjunum fyrirtækisins, fullgerðar eða fyrirhugaðar?“

3.    Samningsrammi við Thorsil – framlenging gildistíma. Frestað

 

4.    Uppskipting OR. Tillaga Sóleyjar Tómasdóttur um að uppskiptingu fyrirtækisins verði frestað. Frestað.

 

5.    Önnur mál.

Sóley Tómasdóttir leggur fram eftirfarandi tillögu: „Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að fela stjórnarformanni og forstjóra að leita eftir viðræðum við Norðurál um þær viljayfirlýsingar og raforkusamninga sem fyrirliggjandi eru á þeim grundvelli að um forsendubrest sé að ræða.“ Frestað.

 

Forstjóri mun boða næsta fund.

 

Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 18:45.

 

Haraldur Flosi Tryggvason,
Aðalsteinn Leifsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Helga Jónsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.