Fundargerð stjórnar #131

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2010, þriðjudaginn 17. ágúst kl. 19:00 var haldinn 131. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn: Haraldur Flosi Tryggvason, Aðalsteinn Leifsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Helga Jónsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir

Ennfremur sat fundinn: Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Starfslok forstjóra. Formaður kynnti samkomulag um starfslok forstjóra, Hjörleifs B. Kvaran, dags. 17. ágúst 2010. Samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum og svofelldri bókun:

„Orkuveita Reykjavíkur stendur á tímamótum og staða fyrirtækisins kallar á umfangsmiklar breytingar í áherslum, rekstri og stjórnun.  Á fundi stjórnarformanns með forstjóra í dag varð samkomulag um að hann léti af starfi þegar í stað.  Stjórnin þakkar honum störf í þágu fyrirtækisins og óskar honum velfarnaðar.“

Hrönn Ríkharðsdóttir situr hjá og óskar bókað:

„Margvíslegar ástæður eru fyrir miklum rekstrarvanda Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Þar má nefna efnahagshrun haustið 2008, gjaldskrárstefnu eigenda og fjárfestingar fyrirtækisins. Ytri aðstæður hafa þannig valdið ákveðnum hluta vandans en vísbendingar eru um að betur hefði mátt standa að ýmsum málum innan fyrirtækisins.

Fyrir liggur að handbært fé OR verður að hækka til að fyrirtækið geti staðið við skuldbindingar sínar. Það gerist annað hvort með auknum tekjum eða lægri rekstrarútgjöldum eða hvoru tveggja. Við hrunið hækkuðu skuldir fyrirtækisins og tekjur þess standa ekki undir því sem þeim er ætlað að gera, þ.e. greiðslu rekstrarkostnaðar, vaxta, viðhaldi kerfa og afborgunum lána. Þennan vanda verður að rekja til ytri áhrifa sem starfsmenn OR höfðu ekki áhrif á. Nauðsynlegar gjaldskrárhækkanir voru settar til hliðar samkvæmt fyrirmælum frá Reykjavíkurborg.

Hvað innri vanda varðar telur undirrituð ámælisvert hve litla árvekni bæði stjórn og stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur sýndu í aðdraganda hrunsins. Þrátt fyrir áhyggjur af efnahagsþróun á Íslandi voru gerðir samningar án þess að í þeim væru skynsamlegir fyrirvarar eða skilmálar líkt og gert er t.d. í orkusölusamningum þar sem settir eru fyrirvarar um fjármögnun og arðsemi. Gagnrýni mín beinist einkum að þremur eftirtöldum samningum. Í fyrsta lagi er um að ræða samning um kaup á hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja sem síðar var úrskurðaður óheimill af samkeppnisástæðum. Í öðru lagi er samningur við Jarðboranir um borun á 50 holum á Hengilssvæðinu og í þriðja lagi samningur við Mitsubishi og Balcke-Dürr um kaup á fimm vélasamstæðum til virkjana.

Við eðlilegar aðstæður ættu bæði stjórn og forstjóri fyrirtækisins að víkja. Að mínu mati eru aðstæður þó allt annað en eðlilegar og viðbrögð ættu að vera í samræmi við það. Skynsamlegt er að bíða niðurstöðu rýnihóps og eigendanefndar sem stjórn OR samþykkti að færi yfir úttekt stjórnenda áður en gripið er til aðgerða.“

Hrönn Ríkharðsdóttir

Kjartan Magnússon situr hjá og óskar bókað:

„Undirritaður telur að ekki hafi verið færðar fram gildar ástæður fyrir starfslokum forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, sem fulltrúar nýs meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur leituðu eftir. Hjörleifur Kvaran varð forstjóri fyrirtækisins eftir að stefna hafði verið mótuð um miklar fjárfestingar í virkjunum og veitustarfsemi á tímabilinu 2003-2006. Fyrri hluta árs 2008 vann hann náið með stjórn Orkuveitunnar að því að rifa seglin í fjárfestingum fyrirtækisins og fresta kostnaðarsömum virkjanaframkvæmdum. Eftir bankahrun haustið 2008 hefur hann stýrt fyrirtækinu við erfiðar aðstæður og m.a. leitt umfangsmikla hagræðingarvinnu innan þess, sem skilað hefur umtalsverðum árangri. Óumdeilt er að forstjórinn hefur framfylgt stefnu stjórnar fyrirtækisins á hverjum tíma og ekki brotið af sér í starfi. Honum eru þökkuð störf í þágu Orkuveitu Reykjavíkur og óskað velfarnaðar.

Undirritaður leggur mikla áherslu á að nýtilkominni óvissu um yfirstjórn fyrirtækisins verði eytt sem fyrst.“

Kjartan Magnússon

Sóley Tómasdóttir situr hjá og óskar bókað:

Í ljósi þess sem á undan er gengið í íslensku samfélagi er víða þörf á breytingum og er Orkuveita Reykjavíkur alls ekki undanskilin. Alveg fram að hruni var starfsemi fyrirtækisins áhættumiðaðri en hollt getur talist, ekki síst fyrir tilstuðlan þeirrar stóriðjustefnu sem ríkti í samfélaginu um árabil. Því er nauðsynlegt að skýr stefna verði mótuð um aðhald í rekstri, að fyrirhugaðar framkvæmdir verði allar teknar til endurskoðunar, að upplýsingaflæði til almennings verði aukið sem og gagnsæi við ákvarðanatöku.

Breytingarnar framundan krefjast þess að saga fyrirtækisins verði gaumgæfð sérstaklega, að fram fari sérstök úttekt á fyrri ákvörðunum, hvaða hagsmunir hafi legið að baki og með hvaða hætti þær voru teknar. Slík úttekt gerir okkur kleift að draga lærdóm og breyta því sem mögulega þarf að breyta. Hér verður ekki byrjað á byrjunarreit því farið hefur fram dýrmæt stefnumótun á grundvelli samþykktar borgarráðs eftir REI-málið sem markaði ákveðin skil í því að tryggja þá sýn til langrar framtíðar að Orkuveita Reykjavíkur sé og verði opinbert fyrirtæki í þágu og eigu almennings. Brýnt er að sú sýn verði áfram höfð að leiðarljósi og að ekki verði stigin skref í átt til einkavæðingar eða afsláttur gefinn af hagsmunum almennings og náttúru.

Fulltrúi Vinstri grænna tekur undir orð meirihlutans um mikilvægi breytinga í fyrirtækinu, en sér sér ekki fært að taka upplýsta afstöðu til forstjóraskipta þar sem þau eiga sér stað fyrirvaralítið og ekkert samráð var haft við fulltrúa minnihlutans um þann mann sem til stendur að ráða tímabundið. Fulltrúinn tekur ennfremur undir þakkir til fráfarandi forstjóra og óskar honum og nýjum forstjóra velfarnaðar.“

Sóley Tómasdóttir

2.      Ráðning nýs forstjóra. Rætt var um ferli varðandi ráðningu forstjóra og ákveðið að ferlið skuli vera gagnsætt. Starfið verði auglýst. Samþykkt var að fela formanni að annast undirbúning málsins í samráði við stjórn.

3.      Lagt til að fela formanni að ganga til samninga við Helga Þór Ingason, verkfræðing um tímabundna ráðningu í starf forstjóra enda verði samningur lagður fyrir stjórn til staðfestingar. Samningurinn skal bundinn því skilyrði að Helgi Þór Ingason verði ekki ráðinn sem framtíðar forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum. Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir sátu hjá.

Næsti fundur ákveðinn föstudaginn 27. ágúst 2010 kl. 13:00.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 21:40.

Haraldur Flosi Tryggvason,
Aðalsteinn Leifsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Helga Jónsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir.