Fundargerð stjórnar #129

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2010, mánudaginn 12. júlí kl. 9:30 var haldinn 129. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn: Haraldur Flosi Tryggvason, Aðalsteinn Leifsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Helga Jónsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir

Ennfremur sátu fundinn: Hjörleifur B. Kvaran forstjóri og Anna Skúladóttir framkvæmdastjóri Fjármála.

Fundarritari var Elín Smáradóttir.

Þetta gerðist:

1.      Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga forstjóra dags. 09.05.2010 sem frestað var á fundi stjórnar 5. júlí sl.:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að auka hlutafé sitt í Eignarhaldsfélaginu Farice ehf. (e-Farice) um € 413.889 sem greiðist í þrennu lagi til ársins 2012 í samræmi við meðfylgjandi greinargerð. Hlutafjáraukningin er háð því skilyrði að allir aðrir hluthafar og lánardrottnar nái samkomulagi um fyrirliggjandi tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Einnig lagt fram minnisblað Arctica Finance dags. 09.07.2010, „Fjárhagsleg endurskipulagning Eignarhaldsfélagsins Farice ehf. og Farice hf.“

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti samhljóða að auka ekki hlutafé fyrirtækisins í Eignarhaldsfélaginu Farice ehf.

2.      Lagt fram að nýju kauptilboð Osta- og smjörsölunnar sf. í hlutafé OR í HS Veitum, dags. 01.06.2010 sem frestað var á síðasta fundi og minnisblað forstjóra til stjórnarformanns dags. 13.01.2010 um Bitruháls 2, lóð og mannvirki Osta- og smjörsölunnar.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti að hafna kauptilboði Osta- og smjörsölunnar sf. í hlutafé OR í HS Veitum, dags. 01.06.2010. Jafnframt var samþykkt að hætta viðræðum um kaup á lóð og mannvirkjum að Bitruhálsi 2.

Sóley Tómasdóttir óskaði bókað: „Fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitunnar fagnar því að tilboði í hlutabréf OR í HS Veitum hafi verið hafnað á fundinum, lýsir furðu sinni á að viðræðurnar hafi yfir höfuð átt sér stað og ítrekar þá grundvallarafstöðu Vinstri grænna að orkufyrirtæki eigi að vera í eigu almennings.“

3.      Staða samninga við Norðurál.

Lagt fram að nýju minnisblað forstjóra dags. 01.07.2010 um stöðu samninga við Norðurál - Helguvík.

Dagskrárliðnum frestað, þar sem ekki liggur fyrir lögfræðiálit Jóhannesar Karls Sveinssonar hrl.

4.      Fjárhagsáætlun 2011-2015 og rekstrarúttekt á OR.

Lagt fram sem trúnaðarmál minnisblað stjórnarformanns, dags. 8. júlí 2010, vegna fjárhagsáætlunar OR 2011-2015. Í minnisblaðinu er gerð tillaga um hvernig staðið verði að úttekt og greiningu á stöðu fyrirtækisins á næstu vikum. Málið rætt.

Stjórn samþykkti að óska eftir úttekt á grundvelli þeirra upplýsinga sem farið er fram á og aðferðafræði sem lögð er til í minnisblaði stjórnarformanns og að því skuli beint til eigenda að skipa rýnihóp, sem fari yfir og staðfesti áreiðanleika úttektarinnar.

Næsti fundur ákveðinn 9. ágúst 2010 kl 12:30.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 13:30.

Haraldur Flosi Tryggvason,
Aðalsteinn Leifsson, Björn Bjarki Þorsteinsson, Helga Jónsdóttir, Hrönn Ríkharðsdóttir, Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir.