Fundargerð stjórnar #127

 

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

 

Ár 2010, föstudaginn 4. júní kl. 12:00 var haldinn 127. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn: Guðlaugur G. Sverrisson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Jórunn Frímannsdóttir, Þorleifur Gunnlaugsson, Gunnar Sigurðsson og Finnbogi Rögnvaldsson.

Ennfremur sátu fundinn: Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri, Anna Skúladóttir, framkvæmdastjóri Fjármála, Jakob Sigurður Friðriksson, framkvæmdastjóri Framleiðslu og sölu, Páll Erland, framkvæmdastjóri Veiturekstrar og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

Fundarritari var Eiríkur Hjálmarsson.

Þetta gerðist:

1.      Aðalfundur OR 2010.

Lagðar fram svohljóðandi tillögur til aðalfundar Orkuveitu Reykjavíkur.

a)    Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að leggja til við aðalfund að KPMG hf. endurskoðunarfyrirtæki verði endurskoðandi Orkuveitu Reykjavíkur næsta ár.

Samþykkt.

b)   Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að leggja til við aðalfund að arðgreiðslur vegna síðastliðins árs verði 800 milljónir króna.  Jafnframt verði veitt heimild til að greiða upp í arðgreiðslur ársins 2010 á vormánuðum 2011.

Samþykkt.

c)    Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur leggur til við aðalfund að stjórnarlaun ársins 2009 verði kr. 125.000 á mánuði frá janúar til mars og kr. 112.500 á mánuði frá apríl til desember fyrir aðalmann og tvöfaldar þær fjárhæðir fyrir formann. Greiðslur til varamanna verði kr. 35.000 á fund frá janúar til marsloka 2009 og kr. 31.500 á fund frá 1. apríl 2009 til ársloka.

Jafnframt verði heimilt að greiða upp í laun ársins 2010 kr. 112.500 á mánuði fyrir aðalmann og tvöfalt fyrir formann. Greiðslur til varamanna verði kr. 31.500 á fund.

Þorleifur Gunnlaugsson leggur fram svohljóðandi tillögu:

Fulltrúi VG í stjórn OR leggur til að laun stjórnarmanna OR verði framvegis samsvarandi launum fulltrúa í fagráðum Reykjavíkurborgar.

Samþykkt að vísa báðum tillögunum til aðalfundar.

d)   Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að veita stjórnarformanni umboð til boðunar aðalfundar Orkuveitu Reykjavíkur 2010 í samræmi við sameignarsamning og að höfðu samráði við eigendur.

Samþykkt.

Júlíus Vífill Ingvarsson tók sæti á fundinum kl. 12:15.

2.      Lagt fram kauptilboð Osta- og smjörsölunnar sf. í hlutafé OR í HS Veitum, dags. 1. júní 2010 sem frestað var á síðasta fundi.

 

Þorleifur Gunnlaugsson leggur fram svohljóðandi tillögu um málsmeðferð:

Stjórn OR vísar kauptilboði Osta- og smjörsölunnar sf. til næstu stjórnar OR.

 

Málsmeðferðartillagan samþykkt.

 

3.      Lagt fram að nýju erindi Reykjavíkurborgar, dags. 16.03.2010, varðandi raflínulagnir í Heiðmörk ásamt tillögu forstjóra að umsögn OR, dags. 02.06.2010.

 

Umsögnin samþykkt.

 

Sigrún Elsa Smáradóttir situr hjá og óskar bókað:

Fulltrúi Samfylkingarinnar hefði talið eðlilegt að leita umsagnar Framkvæmdastjórnar um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu.

 

Þorleifur Gunnlaugsson greiðir atkvæði á móti og óskar bókað:

Ef ráðist veður í lagningu Suðvesturlínu þvert yfir vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins, er verið að taka óásættanlega áhættu með vatnsból íbúanna.

Suðvesturlína þverar land sem nýtur vatnsverndar sem fjar-, grann- og brunnsvæði. Hún liggur um land sem er mjög gropið og lekt mikil í því, enda um ung hraunasvæði að ræða.

Áhættan er því umtalsverð ef mengunaróhöpp verða. Framkvæmdastjórn um vatnsvernd bendir m.a. á að þrátt fyrir að menn skuli gæta fyllstu varúðar við þessa viðamiklu framkvæmd geti hún skapað hættu sem ógnar vatnsvernd.

Skipulagsstofnun er sögð hafa komið fram með veigamiklar aðvaranir og Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur segir að starfsleyfið hljóti að miðast við að ekki sé tekin áhætta varðandi vatnsverndina.

Í skýrslu OR sem kölluð hefur verið mosaskýrslan er líka fjallað um umhverfisáhrif frá sjálfum raflínumöstrunum. Hvernig sem á málið er litið er ljóst að svona stórfelldri framkvæmd fylgir óhjákvæmilega mikið rask, umferð og umsvif sem ekki eru ásættanleg á vatnsverndarsvæði.

Siðferðislegt ábyrgðarleysi er að veita þessu máli brautargengi því íbúar höfuðborgarinnar eiga kröfu á að kjörnir fulltrúar standi dyggari vörð um lífsnauðsynleg náttúrugæði.

 

Guðlaugur G. Sverrisson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Jórunn Frímannsdóttir óska bókað:

Þessi umsögn fer til borgarráðs og þar er hægt að óska eftir umsögnum frá fleiri aðilum. Við framkvæmdina verður fjarlægð háspennulína, sem liggur yfir viðkvæmasta hluta vatnsverndarsvæðisins í Heiðmörk, brunnsvæði Gvendarbrunna. Við aflagningu hennar dregur úr þörf á umferð um brunnsvæðið og minni skaði verður á fuglalífi, en talsvert er um að fuglar, sem halda sig á tjörnunum inn á brunnsvæðinu, fljúgi á línurnar.

 

4.      Lagt fram minnisblað innri endurskoðanda um byggingu nýrra virkjana dags. 04.06.2010.

 

Innri endurskoðandi kynnti efni minnisblaðsins.

 

5.      Lagt fram á ný erindi Framtíðarorku ehf. til Reykjavíkurborgar dags. 30.04.2010 varðandi stuðning við ráðstefnuhald.

Frestað.

 

6.      Lagt fram erindi Fornleifafræðistofunnar dags. 25.03.2010 þar er óskað eftir styrk til að hefja rannsókn á rústum í landi Úlfljótsvatns í Grafningshreppi.

Samþykkt að veita 800 þúsund kr. styrk.

 

7.      Lagt fram svar framkvæmdastjóra fjármála dags. 02.06.2010 við fyrirspurn Sigrúnar Elsu Smáradóttur um skuldabréf Magma.

 

8.      Lagt fram yfirlit úr ársreikningi Orkuveitu Reykjavíkur 2009, sem viðbót við svar framkvæmdastjóra fjármála við fyrirspurn um arðsemi miðla, sbr. fundargerð stjórnar 2. þ.m.

 

9.      Lagt fram svar framkvæmdastjóra framleiðslu og sölu við fyrirspurn Gunnars Sigurðssonar frá 02.06.2010.

 

Formaður þakkaði stjórnarmönnum og stjórnendum gott samstarf.

Forstjóri þakkaði stjórnarmönnum samstarfið.

 

Fleira gerðist ekki.

 

Fundi slitið kl. 13:35.

 

Guðlaugur G. Sverrisson,
Finnbogi Rögnvaldsson, Gunnar Sigurðsson, Jórunn Frímannsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson,

Sigrún Elsa Smáradóttir,  Þorleifur Gunnlaugsson.