Fundargerð stjórnar #125

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2010, miðvikudaginn 12. maí kl. 14:00 var haldinn 125. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn: Guðlaugur G. Sverrisson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Þorleifur Gunnlaugsson, Gunnar Sigurðsson og Sveinbjörn Eyjólfsson.

Ennfremur sátu fundinn: Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri, Anna Skúladóttir, framkvæmdastjóri fjármála, Jakob Sigurður Friðriksson, framkvæmdastjóri Framleiðslu og sölu og Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi.

Fundarritari var Eiríkur Hjálmarsson.

Þetta gerðist:

1.      Lagt fram 3ja mánaða uppgjör samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur 1. janúar til 31. mars 2010.

Einnig lagt fram yfirlit Askar Capital yfir stöðu erlendra lána OR 31.03.2010.

Á fundinn komu Hlynur Sigurðsson, lögg. endurskoðandi frá KPMG og Rannveig Tanya Kristinsdóttir, sviðsstjóri reikningshalds OR, og gerðu grein fyrir árshlutareikningnum.

Árshlutareikningurinn borinn undir atkvæði, samþykktur og áritaður.

2.      Lögð fram svohljóðandi tillaga forstjóra dags. 09.05.2010:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að auka hlutafé sitt í Eignarhaldsfélaginu Farice ehf. (e-Farice) um € 413.889 sem greiðist í þrennu lagi til ársins 2012 í samræmi við meðfylgjandi greinargerð. Hlutafjáraukningin er háð því skilyrði að allir aðrir hluthafar og lánardrottnar nái samkomulagi um fyrirliggjandi tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Afgreiðslu frestað.

           

            Júlíus Vífill Ingvarsson vék af fundi kl. 15:30.

3.      Lögð fram svohljóðandi tillaga forstjóra dags. 10.05.2010:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir styrkveitingar til samfélagsverkefna árið 2010, samtals að fjárhæð 24.935.000 kr., sbr. meðfylgjandi greinargerð.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Jórunn Frímannsdóttir tók sæti á fundinum kl. 15:45.

Afgreiðslu frestað.

4.      Lagt fram erindi Karlakórsins Stefnis með beiðni um afnot af dælustöð að Reykjum, Mosfellsbæ. Einnig lagt fram minnisblað forstjóra um málið dags. 09.05.2010, ódags. drög að leigusamningi ásamt ljósmyndum og teikningum.

Bókun stjórnar:

Stjórn felur forstjóra að kanna minjagildi dælustöðvarinnar og þess búnaðar sem þar er áður en hún tekur afstöðu til beiðninnar.

5.      Lagt fram erindi Svavars Helgasonar og Ingólfs Ingvarssonar með ósk um landakaup og leigu á auknu landi við Skíðaskálann í Hveradölum.  Jafnframt lögð fram umsögn forstjóra dags. 10.5. 2010.

Stjórn samþykkir umsögn forstjóra og þá tillögu hans að synja erindinu.

Sigrún Elsa Smáradóttir og Þorleifur Gunnlaugsson sitja hjá.

6.      Lagt fram að nýju minnisblað innri endurskoðanda OR dags. 16.03.2010 um skuldastýringu, sbr. fundargerð stjórnar 19. mars 2010.

Guðmundur I. Bergþórsson, innri endurskoðandi, kynnti minnisblaðið.

7.      Lagt fram erindi Reykjavíkurborgar dags. 29.04.2010 um orkuverð.

Bókun stjórnar:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur beinir því til forstjóra að leita eftir samþykki Norðuráls fyrir því að orkuverð verði gert opinbert.

8.      Umhverfisskýrsla OR 2009 árituð.

9.      Sveinbjörn Eyjólfsson vakti máls á sumarráðningum skólafólks á Vesturlandi og spurðist fyrir um hvort umfang þeirra væri minna en áður.

Forstjóri sagði málið verða kannað á milli funda.

Sveinbjörn Eyjólfsson vék af fundi kl. 16:50.

10.  Lagt fram bréf forstjóra dags. 10.05.2010 um stöðu viðræðna við stórnotendur um orkusölu.

Jakob S. Friðriksson, framkvæmdastjóri Framleiðslu og sölu, kynnti minnisblaðið.

Einnig lagt fram erindi Sveitarfélagsins Ölfuss dags. 11.05.2010 varðandi atvinnuuppbyggingu stóriðju og annars iðnaðar í sveitarfélaginu.

Enn fremur lögð fram drög að „Amendment to Head of Terms“ milli OR og Thorsil.

Afgreiðslu frestað.

11.  Lagt fram minnisblað Skúla Skúlasonar sviðsstjóra Þjónustusviðs, dags. 11.05.2010 um stöðu innheimtumála.

Anna Skúladóttir, framkvæmdastjóri fjármála, kynnti efni minnisblaðsins.

12.  Önnur mál.

·           Lagt fram svar forstjóra við spurningum um eignir utan kjarnastarfsemi, lögðum fram á fundi stjórnar 26. mars 2010.

·           Lagt fram minnisblað forstjóra dags. 09.05.2010 um vinnuslys í Hellisheiðarvirkjun aðfararnótt 30. apríl sl.

·           Lagðar fram fundargerðir stjórnar Gagnaveitu Reykjavíkur dags. 25. nóvember og 28. desember 2009, 13. janúar, 25. febrúar og 24. mars 2010, stjórnar Reykjavík Energy Invest 2. desember 2009 og 8. janúar, 3. febrúar, 5. febrúar, 9. febrúar, 25. febrúar, 17. mars og 25. mars 2010. Uppgræðslusjóðs Ölfuss 18. desember 2009 og 13. janúar, 12. febrúar, 24. mars og 26. mars 2010.

·           Sigrún Elsa Smáradóttir lagði fram fyrirspurn í þremur tölusettum liðum varðandi arðsemi miðla, afkomu þeirra og gjaldskrár.

·           Þorleifur Gunnlaugsson lagði fram fyrirspurn varðandi hlut OR í HS Veitum og lóð á Bitruhálsi.

Ákveðið að næsti fundur stjórnar verði í viku 22.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 17:20.

Guðlaugur G. Sverrisson,
Gunnar Sigurðsson, Jórunn Frímannsdóttir, Kjartan Magnússon,

Sigrún Elsa Smáradóttir, Þorleifur Gunnlaugsson.