Fundargerð stjórnar #122

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2010, mánudaginn 15. febrúar kl. 12:15 var haldinn 122. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn: Guðlaugur G. Sverrisson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Kolfinna Jóhannesdóttir, Gunnar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Þorleifur Gunnlaugsson og Sveinbjörn Eyjólfsson.

Ennfremur sátu fundinn: Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri og Jakob S. Friðriksson, framkvæmdastjóri Framleiðslu og sölu.

Fundarritari var Eiríkur Hjálmarsson.

Þetta gerðist:

1.      Uppskipting Orkuveitu Reykjavíkur.

Lögð fram á ný tillaga formanns, dags. 21.01.2010, ásamt tillögu Þorleifs Gunnlaugssonar, lagðri fram á fundi stjórnar 12.02. 2010.

Tillögurnar sameinaðar með svohljóðandi bókun, sem stjórn samþykkti einróma:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum þ. 15. maí 2009 að fara þess á leit við eigendur að þeir skipuðu starfshóp til að undirbúa uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur í samræmi við kröfur 14. gr. raforkulaga.  Eigendur skipuðu í framhaldinu fulltrúa í hópinn, t.a.m. borgarráð á fundi sínum þ. 4. júní. Stýrihópurinn skilaði tillögum sínum um uppskiptingu með skýrslu í október 2009. Með lögum nr. 142/2009 var frestur til að ganga frá uppskiptingu fyrirtækisins framlengdur um eitt ár, til 1. janúar 2011, þar sem ekki hafði verið gengið frá nauðsynlegum lagabreytingum til að koma í veg fyrir skattalegt óhagræði af uppskiptingunni innan upphaflegs frests.

Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs í stjórn OR hefur flutt tillögu í stjórninni þess efnis að eigendur OR fari þess á leit við ríkisstjórnina og iðnaðarráðherra að sótt verði um undanþágu fyrir Ísland hvað varðar raforkutilskipun ESB.

Nauðsynlegt er, áður en uppskipting Orkuveitu Reykjavíkur fer fram, að lögum um Orkuveitu Reykjavíkur nr. 139/2001 verði breytt svo forðast megi skattalegt óhagræði OR við uppskiptingu.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur leggur áherslu á að:

·           eigendur kanni vilja stjórnvalda til þeirra breytinga á raforkulögum, sem tillaga fulltrúa VG felur í sér.

·           eigendur taki afstöðu til fyrirkomulags uppskiptingar þegar ný lög um Orkuveitu Reykjavíkur hafa verið afgreidd frá Alþingi.

·           sá ársfrestur sem Alþingi veitti til uppskiptingarinnar verði nýttur til að vanda sem best til alls undirbúnings aðskilnaðar sérleyfis- og samkeppnisrekstursins.

·           undirbúningi uppskiptingar Orkuveitu Reykjavíkur verði haldið áfram.

2.      Sólarkísilverksmiðja í Ölfusi.

Eftirfarandi gögn lögð fram að nýju:

·      Electricity Supply Agreement – HEAD OF TERMS, dags. 12. febrúar 2010.

·      Íslensk þýðing: Samningsrammi vegna orkusölusamnings.

·      Viðauki við samningsramma, Annex II, dags. 12. febrúar 2010.

·      Minnisblað forstjóra um samningsramma vegna sólarkísilframleiðslu í Ölfusi, dags. 09.02.2010.

Jafnframt lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra Framleiðslu og Sölu dags. 12.02.2010.

Forstjóri og framkvæmdastjóri Framleiðslu og sölu kynntu samningsramman og önnur gögn.

Gunnar Sigurðsson spurðist fyrir um stöðu forgangsréttar Ölfus m.t.t. Norðuráls og svaraði forstjóri fyrirspurninni.

Samningsramminn og viðauki bornir undir atkvæði og samþykktir ásamt umboði til forstjóra og stjórnarformanns til að ganga til viðræðna á grundvelli þeirra.

Sigrún Elsa Smáradóttir og Þorleifur Gunnlaugsson sitja hjá.

Sigrún Elsa Smáradóttir óskar bókað:

Sólarkísilframleiðsla í Ölfusi er spennandi verkefni.  Það er hagstætt fyrir Orkuveituna að dreifa áhættunni af raforkusölu til stórnotenda með því að selja til fjölbreyttari hóps stórnotenda.

Á síðasta stjórnarfundi Orkuveitunnar óskaði fulltrúi Samfylkingar eftir minnisblaði um arðsemi verkefnisins og forsendur fjármögnunar Hverahlíðavirkjunar. Minnisblaðið sem fyrir liggur svarar fyrirspurninni aðeins að hluta.

Á síðasta fundi Orkuveitunnar var samþykkt þriggja ára áætlun, samkvæmt henni er Hverahlíðavirkjun ekki á framkvæmdaáætlun.  Samkvæmt fyrirliggjandi samningsramma er hinsvegar gert ráð fyrir afhendingu rafmagns úr Hverahlíðavirkjun 2013.  Fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar hefur undanfarna mánuði verið að vinna ýtarlega úttekt á fjármálalegri stöðu Orkuveitunnar sem væntanlega verður kynnt borgarfulltrúum á næstu dögum.

Fulltrúi Samfylkingar lítur verkefnið jákvæðum augum en telur nauðsynlegt að hafa gleggri mynd af forsendum fjármögnunar Hverahlíðavirkjunar og fjárhagsstöðu og framkvæmdagetu OR og situr því hjá við afgreiðslu samningsrammans.

Guðlaugur G. Sverrisson, Kjartan Magnússon og Kolfinna Jóhannesdóttir óska bókað:

Við tökum undir það sjónarmið að sala á raforku til kísilframleiðslu er spennandi verkefni og margt mælir með því að áhættu af raforkusölu Orkuveitunnar sé dreift með því að selja til fjölbreyttari hóps stórnotenda en verið hefur fram að þessu. Stjórnin hefur nú samþykkt ramma vegna hugsanlegs orkusölusamnings en áréttað skal að samþykktin hefur ekki lagalega skuldbindingu í för með sér.  Meðan á þeirri vinnu stendur verður farið ýtarlega yfir alla þætti málsins, m.a. fjárhagslega burði fyrirtækisins til að taka þátt í slíku verkefni sem og áhrif á umhverfi og atvinnulíf í landinu.

            Þorleifur Gunnlaugsson óskar bókað:

Ljóst er að mörgu er ósvarað hvað málefni Orkuveitunnar varðar og beðið er eftir úttekt á stöðu fyrirtækisins og svörum við mikilvægum spurningum sem í raun varðar afgreiðslu þessa máls.  Meirihluti stjórnar OR neitar nú sem fyrr að upplýsa opinberlega um verð á orku til þungaiðnaðar og við þær aðstæður tekur fulltrúi VG ekki við þeim.  Þannig er enn óljóst hvort jafnræðis sé gætt hvað varðar aðra og þjóðfélagslega hagkvæmari, orkufreka starfsemi í landinu svo sem rekstur gróðurhúsa og annars sem tryggir matvælaöryggi.  Á það er einnig bent að enn er verið að selja orku Íslendinga til hráefnisframleiðslu en slíkt ógnar framtíðarhagsmunum þjóðarinnar.

Samkvæmt upplýsingum sem lagðar voru fram á fundinum er mengun af sólarkísilverksmiðju mun meiri en mengun af álveri en sköpuð verða tvöfalt fleiri störf á MW, flutningur orkunnar fer um mun styttri leið (þyrfti ekki að fara um SV línu) hættan er minni með fleiri eggjum í körfunni.

Að þessu sögðu situr fulltrúi VG í OR hjá við afgreiðslu þessa máls.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 13:30.

Guðlaugur G. Sverrisson,
 Gunnar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Kolfinna Jóhannesdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Sveinbjörn Eyjólfsson, Þorleifur Gunnlaugsson.