Fundargerð stjórnar #121

STJÓRN ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2010, föstudaginn 12. febrúar kl. 12:15 var haldinn 121. fundur í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Þessi sátu fundinn: Guðlaugur G. Sverrisson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Jórunn Frímannsdóttir, Gunnar Sigurðsson og Sveinbjörn Eyjólfsson.

Ennfremur sátu fundinn: Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri og Jakob S. Friðriksson, framkvæmdastjóri Framleiðslu og sölu.

Fundarritari var Eiríkur Hjálmarsson.

Þetta gerðist:

1.      Lagt fram erindi Páls S. Brynjarssonar, sveitarstjórar Borgarbyggðar dags. 11.02.2010 þar sem tilkynnt er að Sveinbjörn Eyjólfsson verði áheyrnarfulltrúi Borgarbyggðar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og Finnbogi Rögnvaldsson varamaður hans.

2.      Lagt fram erindi framkvæmdastjóra fjármála dags. 08.02.2010 þar sem óskað er samþykkis svohljóðandi tillögu:

Hér með veitir stjórn félagsins, með vísan til 60. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, Lánasjóði sveitarfélaga heimild að miðla upplýsingum um lán félagsins hjá lánasjóðnum opinberlega og til fjárfesta, þ.m.t. upplýsingar um nafn skuldara, tilgang láns, stöðu láns. lánstíma og önnur kjör.  Upplýsingunum er miðlað í þeim tilgangi að fjárfestar hafi sem besta mynd af útlánasafni og mun miðlunin einkum eiga sér stað í gögnum frá lánveitanda s.s. í ársreikningum, árshlutareikningum, fjárfestakynningum og afmælisritum.

            Samþykkt.

Þorleifur Gunnlaugsson tók sæti á fundinum kl. 12:20.

3.      Lagt fram erindi forstjóra, f.h. innkaupastjórnunar varðandi tilboð í ORV 2009/15 Safnæðar og safnæðastofnar Hellisheiðarvirkjun 5. áfangi.

Erindið samþykkt.

Sigrún Elsa Smáradóttir og Þorleifur Gunnlaugsson sitja hjá.

4.      Lögð fram þriggja ára áætlun Orkuveitu Reykjavíkur 2011–2013, drög dags. 21.01.2010. Einnig lagt fram ódags. yfirlit yfir langtímaskuldir OR skipt niður á miðla.

Kjartan Magnússon tók sæti á fundinum kl. 12:35.

Þorleifur Gunnlaugsson óskar eftir því að afgreiðslu málsins verði frestað.

Þriggja ára áætlun borin upp og samþykkt.

Sigrún Elsa Smáradóttir og Þorleifur Gunnlaugsson sitja hjá og óska bókað:

Staða Orkuveitu Reykjavíkur er alvarleg og verið er að vinna mikilvæga greiningu á ákveðnum þáttum í starfsemi fyrirtækisins en hún mun liggja fyrir á næstu dögum.

Fulltrúar VG og Samfylkingar óskuðu því eftir frestun á afgreiðslu þriggja ára áætlunar enda mikilvægt að afstaða til starfsemi fyrirtækisins næstu þrjú árin byggi á sem gleggstum upplýsingum um stöðu fyrirtækisins í dag.

Guðlaugur G. Sverrisson og Kjartan Magnússon óska bókað:

Þriggja ára áætlun, sem samþykkt var á fundinum, gefur raunsanna mynd af áætluðum rekstri og efnahag fyrirtækisins næstu árin. Í áætluninni kemur skýrt fram að hún er undirorpin þeirri óvissu, sem nú ríkir í efnahagslífi landsins og rekstrarumhverfi fyrirtækja, m.a. þróun gengis, raforkuverðs til stórnotenda og framvindu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þá er ljóst að framvinda stórverkefna ræðst að miklu leyti af aðgangi OR að lánsfé á viðunandi kjörum og fjármögnun viðsemjenda fyrirtækisins á orkufrekum verkefnum. Við slíkar aðstæður þyrfti ekki að koma á óvart þótt einstakir þættir ættu eftir að breytast en þær leysa stjórn fyrirtækisins ekki undan þeirri skyldu að samþykkja þriggja ára áætlun miðað við fyrirliggjandi forsendur hverju sinni, eins og lögbundið er.

5.      Lagt fram erindi framkvæmdastjóra fjármála dags. 08.02.2010 þar sem óskað er heimildar til að ganga til samninga við Landsbanka Íslands um 5 milljarða króna lántöku.  Lánið er verðtryggt til 15 ára, með jöfnum afborgunum og breytilegum grunnvöxtum.

Samþykkt.

Sigrún Elsa Smáradóttir og Þorleifur Gunnlaugsson sitja hjá.

6.      Sólarkísilverksmiðja í Ölfusi.

Eftirfarandi gögn lögð fyrir stjórn:

·         Electricity Supply Agreement – HEAD OF TERMS, dags. 12. febrúar 2010.

·         Íslensk þýðing: Samningsrammi vegna orkusölusamnings.

·         Viðauki við samningsramma, Annex II, dags. 12. febrúar 2010.

·         Minnisblað forstjóra um samningsramma vegna sólarkísilframleiðslu í Ölfusi, dags. 09.02.2010.

Afgreiðslu frestað.

Sigrún Elsa Smáradóttir bókar:

Óskað er eftir minnisblaði um arðsemi þeirra samningsdraga sem fyrir liggja, bæði arðsemi eigin fjár og arðsemi á heildarfjárfestingu. Samhliða er óskað eftir greiningu á framkvæmda- og fjármögnunarkostnaði sem gert er ráð fyrir vegna Hverahlíðarvirkjunar og raforkusalan þarf að standa undir.

Óskað er eftir að minnisblaðið verði sent út stjórnarmönnum til kynningar áður en samningsdrögin koma til afgreiðslu í stjórn.

7.      Lagður fram til staðfestingar samningur Orkuveitu Reykjavíkur og DMM lausna, undirritaður 31.12.2009. Jafnframt lagt fram upplýsingablað forstjóra dags. 13.01.2010 um samninginn.

Samningurinn borinn upp og samþykktur.

Sigrún Elsa Smáradóttir og Þorleifur Gunnlaugsson sitja hjá.

8.      Uppskipting Orkuveitu Reykjavíkur.

Lögð fram tillaga formanns, dags. 21.01.2010, að svohljóðandi bókun vegna uppskiptingar Orkuveitu Reykjavíkur.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum þ. 15. maí 2009 að fara þess á leit við eigendur að þeir skipuðu starfshóp til að undirbúa uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur í samræmi við kröfur 14. gr. raforkulaga. Eigendur skipuðu í framhaldinu fulltrúa í hópinn, t.a.m. borgarráð á fundi sínum þ. 4. júní. Stýrihópurinn skilaði tillögum sínum um uppskiptingu með skýrslu í október 2009. Með lögum nr. 142/2009 var frestur til að ganga frá uppskiptingu fyrirtækisins framlengdur um eitt ár, til 1. janúar 2011, þar sem ekki hafði verið gengið frá nauðsynlegum lagabreytingum til að koma í veg fyrir skattalegt óhagræði af uppskiptingunni innan upphaflegs frests.

Þar sem nauðsynlegt er, áður en uppskipting Orkuveitu Reykjavíkur fer fram, að lögum verði breytt svo forðast megi skattalegt óhagræði OR við uppskiptingu, leggur stjórn Orkuveitu Reykjavíkur áherslu á að:

·      eigendur taki afstöðu til fyrirkomulags uppskiptingar þegar ný lög um Orkuveitu Reykjavíkur hafa verið afgreidd frá Alþingi.

·      sá ársfrestur sem Alþingi veitti til uppskiptingarinnar verði nýttur til að vanda sem best til alls undirbúnings aðskilnaðar sérleyfis- og samkeppnisrekstursins.

·      undirbúningi uppskiptingar Orkuveitu Reykjavíkur verði haldið áfram.

Þorleifur Gunnlaugsson lagði fram svohljóðandi tillögu að bókun:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fagnar því að Alþingi hefur veitt ársfrest á uppskiptingu fyrirtækisins og telur brýnt að eigendur OR fari þess á leit við ríkisstjórnina og iðnaðarráðherra að sótt verði um undanþágu fyrir Ísland hvað varðar raforkutilskipun ESB.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Afgreiðslu tillagnanna frestað.

9.      Önnur mál:

·      Samfélagsstyrkir 2010.

Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu að bókun stjórnar:

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að auglýsa eftir umsóknum um styrki til samfélagsverkefna 2010 í samræmi við styrkjastefnu fyrirtækisins með sama hætti og undanfarin ár.

Þorleifur Gunnlaugsson lagði fram svohljóðandi tillögu um sama mál:

Fulltrúi VG í stjórn OR leggur til að samfélagsstyrkir Orkuveitunnar í ár fari ekki yfir 15 milljónir.

Tillaga formanns borin undir atkvæði og samþykkt. Þorleifur Gunnlaugsson greiddi atkvæði á  móti og Sigrún Elsa Smáradóttir sat hjá.

Með samþykkt tillögu formanns kemur tillaga Þorleifs Gunnlaugssonar ekki til atkvæða.

·      Lagt fram minnisblað forstjóra dags. 12.01.2010 varðandi samskipti Orkuveitu Reykjavíkur og iðnaðarráðuneytis í tengslum við uppskiptingu.

·      Lagt fram minnisblað um áhrif laga um umhverfis- og auðlindaskatta á viðskiptavini OR dags. 25.01.2010.

·      Lagt fram svar forstjóra dags. 25.01.2010 við fyrirspurn Þorleifs Gunnlaugssonar og Sigrúnar Elsu Smáradóttur frá 7.12.2009 varðandi stjórn útivistarsvæða.

Næsti fundur ákveðinn mánudaginn 15. febrúar 2010 kl. 12:00.

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 14:30.

Guðlaugur G. Sverrisson,
 Gunnar Sigurðsson, Jórunn Frímannsdóttir, Kjartan Magnússon, Sigrún Elsa Smáradóttir, Sveinbjörn Eyjólfsson, Þorleifur Gunnlaugsson.