Fundargerð eigendafundar OR

EIGENDAFUNDUR ORKUVEITU REYKJAVÍKUR

Ár 2018, föstudaginn 30. nóvember kl. 11:00 var haldinn eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Bæjarhálsi 1.

Fundurinn var boðaður með bréfi dags. 23. nóvember 2018.

Þessi sátu fundinn: Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri og Gunnlaugur A. Júlíusson, sveitarstjóri. Einnig sátu fundinn Brynhildur Davíðsdóttir stjórnarformaður, Bjarni Bjarnason forstjóri, Ingvar Stefánsson framkvæmdastjóri fjármála OR og Guðrún Erla Jónsdóttir stefnustjóri OR.

Fundarritari var Eiríkur Hjálmarsson.

Þetta gerðist:

Formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur setti fund og var kjörin fundarstjóri. Fundarstjóri fór yfir boðun fundarins. Engar athugasemdir voru gerðar við boðun. Að því loknu úrskurðaði fundarstjóri fundinn löglegan.

Dagskrá:

  1. Samþykkt fjárhagsspá 2019 og langtímaspá 2020-2024 lagðar fram til kynningar. Ingvar Stefánsson kynnti spárnar og gerði einnig grein fyrir 9 mánaða árshlutauppgjöri. Umræður.

Gunnlaugur A. Júlíusson nefndi að áhugi sé á því í Borgarbyggð að taka upp þá samninga sem liggja að baki því að sumar gjaldskrár eru hærri þar en annarsstaðar. Borgarstjóri lýsti því að bent hafi verið á leiðir í þessu efni á síðustu árum.

 

  1. Skýrsla stjórnar OR um framfylgd eigendastefnu lögð fram til kynningar. Guðrún Erla Jónsdóttir kynnti efni skýrslunnar.

Umræður og eigendur þökkuðu fyrir góða og skýra framsetningu.

 

  1. Áhættustefna Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. samþykkt stjórnar OR á óbreyttri stefnu dags. 22. október 2018, lögð fram til staðfestingar.

Umræður.

Stefnan staðfest.

 

  1. Arðgreiðslustefna Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. samþykkt stjórnar OR 22. október 2018, lögð fram til staðfestingar. Ingvar Stefánsson kynnti stefnuna og arðgreiðsluskilyrðin sem í henni felast.

Umræður.

Stefnan samþykkt.

 

  1. Lögð fram tillaga að arðsemistefnu OR, sbr. samþykkt stjórnar OR 22. október 2018. Ingvar Stefánsson kynnti stefnuna og forsendur hennar varðandi arðsemi starfsþátta.

Ásgeir Westergren, forstöðumaður áhættustýringar OR, sat fundinn undir þessum lið.

Umræður.

Stefnan samþykkt. Óskað er kynningar á arðsemismarkmiðum einstakra starfsþátta og samspili þeirra við arðgreiðslur til eigenda fyrir sveitarstjórnum áður en þeir verði staðfestir á aðalfundi 2019.

 

  1. Önnur mál.

 

  1. Niðurstöður úttektar á vinnustaðarmenningu og starfsmannamálum hjá OR. Formaður stjórnar kynnti ábendingar úr úttektinni sem snúa að eigendum og lagði fram bréf stjórnar OR til eigenda vegna ábendinga um stjórnhætti og skipan stjórna dótturfélaga OR, dags. 28.11.2018. Einnig lögð fram skilagrein forstjóra til stjórnar OR vegna úttektarinnar.

 

Eigendur samþykkja að taka tillögu stjórnar upp á vettvangi sveitarstjórna og bóka:

Í september vöknuðu spurningar, tengdar tilteknum starfsmannamálum, um hvort óheilbrigð vinnustaðarmenning væri innan Orkuveitu Reykjavíkur. Í kjölfarið ákvað stjórn OR að fela Innri endurskoðun að ráðast í viðamikla óháða úttekt á vinnustaðarmenningu fyrirtækisins sem og að skoða nánar tiltekin starfsmannamál.

Nú liggja niðurstöður fyrir. Úttekt Innri endurskoðunar staðfestir að vinnustaðarmenning Orkuveitu Reykjavíkur er heilbrigð, þó svo að ýmislegt komi fram í úttektinni sem betur má fara. Í kjölfar úttektarinnar hafa verið lagðar fram tillögur að endurbótum sem miða að því að gera vinnustaðinn enn betri.

Eigendur þakka stjórn OR fyrir að taka málið föstum tökum og fyrir að tryggja að tillögum sé fylgt eftir með úrbótum. Eigendur einnig þakka innri endurskoðun og þeim sérfræðingum sem komu að úttektinni fyrir vandaða greiningu og Helgu Jónsdóttur fyrir að taka að sér starf forstjóra og fyrir tillögur til úrbóta.

Eigendur þakka jafnframt öllum starfsmönnum samstæðunnar fyrir þeirra þátttöku í úttektinni sem og þeirra góðu störf í þágu fyrirtækisins.

Eigendur munu taka til ítarlegrar skoðunar ábendingar og tillögur til úrbóta sem snúa að þeim.

 

  1. Í ljósi þess að Reykjavík og Akranes eru á rafdreifisvæði Veitna óskuðu borgarstjóri og bæjarstjóri áframhaldandi samstarfs við OR og dótturfyrirtækin að orkuskiptum í samgöngum með það fyrir augum að kynna aðgerðir á vori komanda.

 

Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 12:45.

 

 

 

 

 

 

 

Dagur B. Eggertsson

 

Gunnlaugur A. Júlíusson

 

Sævar Freyr Þráinsson