Framtíðin

Hvað ber framtíðin í skauti sér og hvað mun breytast á næstu 100 árum?

Bergur Ebbi skyggnist með okkur inn í framtíðina í nýrri þáttaröð frá Orkuveitu Reykjavíkur. Bergur Ebbi mun, ásamt einvalaliði sérfræðinga, skoða þær tækninýjungar sem eru handan við hornið og það hvaða áhrif innleiðing þeirra mun hafa á samfélag okkar.

framtidin-1.jpg

Orkuveita Reykjavíkur sinnir starfsemi sem þjónað hefur almenningi í rúm 100 ár og ber skylda til þess að hugsa minnst 100 ár fram í tímann í sínum verkefnum. Innan samstæðunnar býr mikil og fjölbreytt þekking enda verksvið fyrirtækisins gríðarlega umfangsmikið og verkefnin oft tæknilega flókin.

Til þess að við séum sem best í stakk búin fyrir verkefni framtíðarinn er ekki seinna vænna að hefja undirbúninginn. Orkuveitan vill því halda á lofti umræðunni um þær áskoranir sem framtíðin ber í skauti sér, tæknilausnirnar sem þarf til þess að takast á við þær og tækifærin sem munu skapast.

Athafnaskáldið Bergur Ebbi Benediktsson er einn fremsti framtíðarhugsuður okkar íslendinga og hefur mikið skrifað um þessi mál, til dæmis í bókinni Skjáskot. Bergur Ebbi stýrir Framtíðinni og fær til sín góða gesti. Til hans koma sérfræðingar frá Orkuveitunni og dótturfyrirtækjum auk málsmetandi hugsuða úr ýmsum áttum. Vangaveltur um framtíð jarðarinnar, þróun internetsins, gervigreind, framúrstefnuleg nýsköpunarverkefni og orkumál framtíðarinnar eru rædd í þessum skemmtilegu og fróðlegu þáttum.

framtidin-andri-edda-bergur.jpg

Fyrsti þáttur

Í fyrsta þættinum ræðir Bergur Ebbi við þau Andra Snæ Magnason, rithöfund og dr. Eddu Sif Pind Aradóttur framkvæmdastýru Carbfix um loftslagsvánna. Hvert er umfang vandans, hver er þróunin og hvað getum við gert til að hafa áhrif á hana?

Dr. Edda Sif Pind Aradóttir er framkvæmdastýra Carfix, sem er eitt dótturfyrirtækja OR. Hún er efnaverkfræðingur og meðhöfundur ríflega 20 alþjóðlegra ritrýndra vísindagreina sem birst hafa meðal annars í tímaritunum Science og Nature Communications.

Andri Snær Magnason er rithöfundur og umhverfisverndarsinni. Bækur hans hafa verið þýddar á tugi tungumála og hann hefur ferðast um heiminn með erindi um loftslagsmál. Nýjasta bók hans, Um Tímann og vatnið, fjallar um loftslagsmál á nýjan og óvæntan hátt og hefur hún þegar verið þýdd á fjölda tungumála.

Annar þáttur

Í öðrum þætti Framtíðarinnar tekur Bergur Ebbi á móti Axel Paul Gunnarssyni frá Ljósleiðaranum og Sigurlínu Ingvarsdóttur frá Bonfire Studios til þess að ræða um gagnamagn, netið, tölvuleiki, sýndarveruleika og margt fleira. Hver er framtíð samskipta á internetinu og verða styrjaldir háðar um yfirráð yfir rafrænum hagkerfum?

Axel Paul Gunnarsson er sérfræðingur í markaðsmálum og viðskiptagreind hjá Ljósleiðaranum. Axel hefur komið víða við í upplýsingatækni- og markaðsmálum og er einn stjórnenda Tæknivarpsins.

Sigurlína Ingvarsdóttir er verkfræðingur og framleiðandi hjá bandaríska tölvuleikjaframleiðandanum Bonfire Studios. Hún hefur á ferli sínum meðal annars stýrt framleiðslu leikjanna Starwars: Battlefront og FIFA sem eru meðal vinsælustu tölvuleikja heims.