Neyðarstjórn

Neyðarskipulag hjá OR þjónar þeim tilgangi að búa fyrirtækið og dótturfyrirtækin undir að takast á við neyðartilvik með skipulegum og markvissum hætti til að:

  • koma í veg fyrir manntjón
  • lágmarka tjón á mannvirkjum á veitusvæði fyrirtækisins
  • lágmarka neikvæð umhverfisáhrif
  • tryggja sem best orkuafhendingu í langvarandi neyðartilviki.
  • tryggja afhendingu á öruggu og heilnæmu vatni

Neyðarskipulagið tekur til alls fyrirtækisins, allrar starfsemi þess og allra starfsmanna. Það lýsir ábyrgðar-, vald- og verkaskiptingu, boðleiðum, viðbrögðum og aðstoð í neyðartilviki. Verklagi og framkvæmd neyðarskipulagsins er lýst nánar í Rekstrarbók neyðarstjórnar OR.

Forstjóri OR er formaður Neyðarstjórnar. Í henni eru einnig framkvæmdastjórar Veitna, Orku náttúrunnar og gagnaveitu Reykjavíkur auk umhverfisstjóra og öryggisstjóra. Með Neyðarstjórn starfa einnig forstöðumaður stjórnstöðvar og upplýsingafulltrúi.

Viðbragðsáætlanir

Starfsfólk OR hefur unnið margvíslegar áætlanir til að bregðast við vá eða neyð. Þær eru reglulega uppfærðar með tilliti til breyttra aðstæðna eða búnaðar og nýjar eru gerðar til að bregðast við áður ófyrirséðri vá. Æfingar eru haldnar til að prófa áætlanirnar og önnur viðbrögð við sviðsettum atburðum. Oft á tíðum eru slíkar æfingar haldnar í samstarfi við aðra viðbragðsaðila.

Skömmtunaráætlun

Í gildi er hjá Veitum skömmtunaráætlun til að bregðast við því að rafmagnsafhending til dreifikerfis Veitna á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi verði skert. Það er Landsnet, sem mælir fyrir um slíkar skerðingar. Landsnet er fyrirtækið sem sér um flutning raforku frá virkjunum til stórkaupenda og dreifiveitna og miðlun raforku um landið.

Skömmtunaráætlun Veitna byggir á grunnmarkmiðum Neyðarstjórnar um forgang þess að gæta að lífi og heilsu og að draga úr tjóni. Þess vegna er forgangur að raforku við skerðingar þessi:

  1. Starfsemi sem varðar líf og heilsu almennings
  2. Mjög viðkvæm starfsemi, svo sem rekstur innviða
  3. Viðkvæm starfsemi
  4. Almennir notendur

Með hvaða hætti skömmtun birtist veltur á því hversu mikil raforkuskerðingin er og hversu lengi lítur út fyrir að hún vari. Alla jafna geta almennir raforkunotendur reiknað með því að við skömmtun verði þeir straumlausir í tiltekinn tíma en hafi rafmagn um tiltekna hríð.